Aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 15:03:58 (5714)

1998-04-22 15:03:58# 122. lþ. 110.5 fundur 592. mál: #A aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum# þál. 27/122, ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[15:03]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil þakka 1. flm. ágæta framsögu. Það var jafnframt athyglisvert að fylgjast með hv. þm. útlista stefnuskrá Framsfl. fyrir hv. þm. Gunnlaugi Sigmundssyni.

Hv. 1. flm. kastaði fram tveimur spurningum sem voru: Eru það færri konur sem vilja og reyna að ná frama í stjórnmálum? Og hætta þær sem byrja fyrr en karlarnir?

Ég er nokkuð sannfærður um að það eru ekki færri konur sem vilja. Ég held að það séu færri konur sem reyni. Og ég held líka að það sé mikið til í því að þær hætti fyrr. Þessu ráða auðvitað þær forsendur sem við búum þessari starfsemi. Auðvitað liggur það í okkar þjóðfélagsgerð líka. Ég tel hins vegar að það sé rétt sem fram kom, að enginn hópur karla vinnur gegn konum en hins vegar hafa stofnanir þróast yfir langan tíma í þjóðfélagi sem löngum hefur verið karlaveldi, eins og sagt er. Þjóðfélagið er íhaldssamt og það er sérstaklega íhaldssamt þegar valdastofnanir eiga í hlut. Það getur því verið erfitt að ná þar fram breytingum.

Varðandi starfsumhverfið sem hér var tæpt á. Ég er sannfærður um að það starfsumhverfi sem við sköpum stjórnmálunum, hvort sem það er innan stjórnmálaflokkanna, í sveitarstjórnum eða á Alþingi, er andstætt því að fleiri konur taki þátt í stjórnmálum. Þannig verkar allt umhverfið, skipulagið, fundartímarnir og þær kröfur sem þjóðfélagið og kjósendur gera til stjórnamálamanna. Þetta hefur ekki einungis áhrif á aðstöðu eða fjölda kvenna í stjórnmálum. Áhrifin eru einnig á fjölda ungs fólks í pólitík alveg eins og fram kom hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur.

Ég er sannfærður um að samsetning þeirrar samkundu sem ákvarðanir tekur hefur áhrif á niðurstöðuna. Fleira ungt fólk og fleiri konur mundu leiða til að einhverju leyti annars konar niðurstöðu við ákvarðanatöku, ég er sannfærður um það.

Hvað eigum við þá að gera? Ég tel að við þurfum fyrst og fremst að undirbúa þá sem áhuga hafa á að taka þátt í stjórnmálum og hvetja þá til þess að taka þátt. Síðan þurfum við að reyna að skapa þannig starfsumhverfi að þeir sem á annað borð fara út í stjórnmálin geti verið þar einhvern tíma, þann tíma sem máli skiptir til að ná tökum á málaflokknum og ná að hafa áhrif. Ég er ekki endilega að tala um að þeir eigi að vera í stjórnmálunum til eilífðarnóns eða starfsævina út, öllum er vísast hollt að breyta til öðru hverju.

Rætt var um um hæfni og andlegt atgervi. Ég er sammála þeim sem um það fjölluðu hér áðan að hæfni og andlegt atgervi á auðvitað að ráða. Ég held ekki að við þurfum að taka neitt tillit til líkamlegs atgervis í þessu efni. Það hlýtur að hafa heilmikil áhrif á það hvernig til tekst með val fulltrúanna þegar stór hluti, helmingur þjóðarinnar, tekur ekki þátt. Þá höfum við úr minni hóp að velja og fáum við ekki eins gott úrval. Eftir því sem hópurinn til þess að velja úr er stærri, þá verður valið betra og við fáum fleiri hæfa einstaklinga sem eru hæfari til starfsins. Fjöldinn og sú samkeppni sem fjöldinn skapar tryggir það. Ég hvet því eindregið til þess að við samþykkjum þessa tillögu og að nefndin hvetji til aukinnar þátttöku kvenna í stjórnmálum. Þannig fjölgar þeim sem úr verður að velja og fleiri hæfir stjórnmálamenn munu koma fram á sjónarsviðið.

Ég vildi aðeins segja eitt um það sem fram kom hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur rétt í lokin. Hún nefndi sérstaklega Sjálfstfl. og að hann ætti hugsanlega möguleika á 25--26 þingmönnum í næstu kosningum og erfitt væri að sjá samsetningu flokksins fyrir fram. Ég vona náttúrlega að þingmenn okkar verði fleiri. Ég held að þessu sé þveröfugt farið. Hjá flokki sem er stór eins og Sjálfstfl. og hefur haft í gegnum tíðina tiltölulega stöðugt fylgi, ætti að vera miklu auðveldara sjá hver samsetning þingflokksins verður heldur en hjá minni flokkum sem hafa verið með sveiflukenndara fylgi.

Að lokum vil ég þakka 1. flm. aftur fyrir ágæta framsögu og vonast til þess að málið fái góða umfjöllun í nefnd.