Aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 15:09:44 (5715)

1998-04-22 15:09:44# 122. lþ. 110.5 fundur 592. mál: #A aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum# þál. 27/122, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[15:09]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég er stoltur yfir því að vera einn af meðflm. þessarar tillögu og vil jafnframt þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir hennar framsögu sem var mjög athyglisverð og góð. Ég er einnig mjög stoltur af jafnréttisáætlun Framsfl. Í rauninni þarf enginn að vera hissa á því að innan okkar flokks, eins og annarra flokka, séu menn ekki alltaf alveg samstiga um allar tillögur.

Hér kom fram athugasemd frá hv. þm. Árna M. Mathiesen þar sem hann undraðist að Gunnlaugur Sigmundsson gengi ekki alveg í takt við okkur að þessu leyti. Það er ekkert óeðlilegt. Við eigum ekki að vera hissa á því að þingmenn og aðrir stjórnmálamenn gangi ekki alltaf í takt. Þeir eiga að hafa heimild til þess og engan á að undra það. Ég er ekkert frá því að slíkt geti komið upp og hafi jafnvel komið upp innan hins stóra og myndarlega flokks, Sjálfstfl.

Við getum líka velt fyrir okkur hvers vegna hlutur kvenna er slakur í t.d. landsmálapólitíkinni. Ég hygg að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hafi einmitt hitt naglann á höfuðið. Pólitík er ekki mjög fjölskylduvænt fyrirbæri. Þar eigum við þingmenn okkar þátt einnig. Við höfum talað um fjölskyldustefnu fyrir almenning, talað okkur alveg eldrjóð af mikilli innlifun um fjölskyldustefnu fyrir hinn almenna borgara en hvernig er fjölskyldustefna okkar? Hvað gerum við til þess að bæta fjölskyldustefnu þingmanna?

Auðvitað er dálítið gaman að vera í pólitík, það er spennandi og sprelllifandi starf. Í gærkvöldi var ég t.d. á fundi á Hvolsvelli frá klukkan hálfníu til tólf. Við tókum okkur varla pásu. Á þessum fundi voru yfir 60 manns og það var mjög skemmtilegt. Að fundinum loknum átti t.d. landbrh., sem var á fundinum, eftir að aka heim til sín. Þá áttu menn eftir að ná sér niður o.s.frv. Við þekkjum að þegar við tölum okkur í móð, þá tekur líka sinn tíma að ná sér niður.

Það vill þannig til að ég bý 100 km frá Reykjavík, sem er í raun og veru of langt til þess að aka heim til mín á hverju einasta kvöldi. Það þýðir hins vegar að ég þarf að leigja mér íbúð hér í Reykjavík og hokra þar einn, segi ég. Ég á góða fjölskyldu austur á Hvolsvelli en hokra einn hér. Ég er ekkert að vorkenna mér það, langt í frá. Ég vel þetta sjálfur og í raun og veru fólkið sem kaus mig. Ég hef, eins og ég segi, mjög gaman af starfi mínu en það er mjög ólíkt því að geta komist heim til sín á hverju einasta kvöldi og geta verið hjá fjölskyldu sinni. Þetta búa mjög margir þingmenn við.

Við erum afar ódugleg við að verja okkur. Við látum ýmsa hluti yfir okkur ganga og erum ódugleg að verja okkur. Það gerist líka hér í þingsölum að þeir sem eru að sinna fjölskyldu sinni, koma með athugasemdir hver til annars. Þetta eru hlutir sem sjálfsagt er að vekja athygli á og sjálfsagt fyrir okkur að hugsa um. Við getum bætt okkur í þessum efnum.

Það er auðvitað mjög afstætt að tala um atgervi fólks andlegt, gáfur og þess háttar. Einn hefur þetta og annar hitt. Guð hefur einmitt skapað okkur þannig að við höfum mismunandi hæfileika eins og gerist og gengur. Ég tel að mjög gott sé að hafa hæfilega blöndu fólks, hvort sem það eru karlar eða konur, með mismunandi áhugamál, mismunandi menntun o.s.frv. Ég tel að á Alþingi Íslendinga eigi að sitja samansafn ólíkra persóna. Svo á einnig að vera innan stjórnmálaflokkanna vegna þess að þá verða stjórnmálaflokkarnir mun frjórri og þar kemur mun meira út úr starfinu.

Ég endurtek að ég er stoltur af því að vera einn af meðflm. þessarar tillögu og ég vona að hún nái fram að ganga.