Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 18:16:12 (5721)

1998-04-22 18:16:12# 122. lþ. 110.23 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., JHall
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[18:16]

Jónas Hallgrímsson:

Virðulegi forseti. Það kom mér mjög á óvart þegar eftir var leitað að skýrsla sú sem ég gat um í fyrri ræðu minni og ég hef margoft beðið um í viðskrn., að vísu ekki nýlega, yrði ekki afhent fyrr en málið kæmi til umfjöllunar í efh.- og viðskn. Ég endurtek að það kom mér mjög mikið á óvart að 1. flm. þessa frv. skyldi síðan hafa skýrsluna undir höndum. Ég vildi gjarnan hafa haft þessa sömu skýrslu undir höndum áður en ég fór í ræðustól í dag. En það breytir ekki því að þær grunsemdir eða þá vissu sem ég hafði um málið innst inni hefur hv. 3. þm. Vestf. staðfest, eins og hann sagði bæði já og nei, að þetta stæðist þau lög sem sett voru. Ég dreg það ekki í efa. Ég hef enga ástæðu til að draga það í efa þó að ég hafi ekki lesið skýrsluna. Það kann því vel að vera að hvorir tveggja hafi rétt fyrir sér en ég áskil mér þá rétt til þess að skoða skýrsluna áður en endanlega verður upp úr því kveðið.

Engin ádeila á forráðamenn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands. Það kann vel að vera og ef ég man rétt af lestri úr fyrri ræðu 1. flm. þá hældi hann meira að segja forráðamönnum Brunabótafélagsins fyrir að hafa þó farið nokkuð sæmilega með það sem þeim var til trúað. Ég man ekki nákvæmlega orðalagið en það var engin neikvæðni í því, enda hefur hv. þm. misskilið orð mín ef svo er. Það var ekki ádeila á forráðamennina sem ég hafði í minni ræðu heldur gat ég um það að málið væri misskilningur, misskilningur frá upphafi og að tala um það enn þá eftir þær leiðbeiningar sem bæði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og sá sem hér stendur höfum reynt að hafa uppi um að félagið er ekki gagnkvæmt. Því var breytt, og einu sinni enn segi ég það, með lögunum frá því í apríl 1994. Ef þetta verður endalaus misskilningur eða ásteytingarsteinn, þá erum við ekki að tala um sama málið. Þetta mál hefði átt að vera flutt fyrir fjórum árum. Þetta er tímaskekkja eins og ég sagði. Það kann vel að vera að það hefði verið rétt þá. Þetta er ekki dómur um það. Menn gátu vel farið með slíkt frv. sem þetta upp fyrir fjórum árum og þá hefði bara þurft að taka á því. Þá hefði félagið verið leyst upp með allri þeirri vinnu sem því fylgdi og það hefði bara orðið að taka þann slag. Hitt var gert og frammi fyrir því stöndum við. Spurningin er sú: Hvers eiga þeir sem hafa, og ég sagði einu sinni við, því miður --- það vill svo til að ég er sveitarstjórnarmaður og ég biðst ekkert afsökunar á því. Það geri ég hvorki hér né nokkurn tíma síðar, hv. 1. flm. þessa frv., því við sveitarstjórnarmenn erum stoltir af forræði. Við eigum ekki þetta félag en við erum stoltir af því að löggjafinn hefur falið okkur ítrekað forræði þessa félags. Það er eins gott að menn hafi það á hreinu.

Enn einu sinni mátti maður hlusta á það og kannski þýðir ekkert að reyna að leiðrétta það sem ekki kemst til skila, en enn einu sinni mátti sá sem hér stendur hlusta á hv. 1. flm. segja að félagið væri hætt starfsemi sinni, þó svo ekki séu nema 2--3 tímar liðnir síðan ég leiddi að því sönnur að félagið væri í fullum rekstri og aldrei með glæstari framtíð en einmitt núna.

Þegar 1. flm. talar um að Landsbankinn sé því til sönnunar að við --- ég segi við, sveitarstjórnarmennirnir, höfum ekki lengur lögsögu yfir þessu félagi, ég tel að það felist í orðunum, að við séum hættir starfsemi og Landsbankinn fari með allan atkvæðisrétt af þeim helmingum sem hann keypti. Það kann vel að vera. Ég efast ekkert um að hv. þm. hafi rétt fyrir sér í því efni. En það breytir ekki því að fyrir hönd Eignarhaldsfélagsins situr forstjóri félagsins í stjórninni. Hann hefur þá gefið Landsbankanum leyfi til að fara með þennan atkvæðisrétt og hefur fullt leyfi til þess. Hann er ekki á vegum Landsbanka Íslands í stjórninni. Hann er fyrir Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands sem er enn þá í vátryggingarekstri eins og ég sýndi fram á í ræðu minni fyrr í dag þar sem ég las upp eignarhlutann bæði í LÍFÍS og VÍS og ef menn vilja ekki skilja svona einfaldan sannleika og staðreyndir, þá erum við bara að tala um tvo ólíka hluti og þá náum við heldur aldrei saman. Og það að lýsa okkur, nú segi ég okkur, sem erum á móti þessu frv., alfarið þannig að við göngum með grillur eða ráðstjórnarhugmyndir í kollinum. Það vantaði bara að það kæmi forræðishyggja í viðbót og eitthvað þaðan af verra. Þetta er bara rétt einn misskilningurinn. Það er engin ráðstjórnarhyggja að hafa breytt þessu félagi frá því sem stendur í matsgerðinni frá þeim tveim sómamönnum sem falið var af nefndinni 1993 að kanna grundvöllinn á félaginu og þeir mátu félagið á 500 millj. kr. Ég kalla það ekki ráðstjórnarhyggju að hafa komið verðgildi félagsins upp í það sem við getum kallað 3--3,5 milljarða. Ég held að það hefði aldrei verið hægt að koma verðgildi félagsins með ráðstjórnarhyggju í þvílíkar himinhæðir í fjármunum. En það má svo sem vera og hv. 1. flm. má bara hafa það þannig ef hann vill. Ég þekki það alla vega ekki úr hans flokki að menn hafi þessa skoðun, en það er ekkert nýtt undir sólinni.

Svo kom reyndar skýringin á öllu saman. Það var að það væri hættulegt og eftir þessu beið ég. Það vill nú svo vel til að hv. 1. flm. þessa frv. er heiðarlegur í málflutningi sínum og það vil ég segja honum til hróss. Hann sagði í lokin einmitt það sem menn hafa hugsað en kannski ekki þorað að segja. Hann sagði að það væri hættulegt að vita af þessum 3,5 milljörðum --- ég náði ekki restinni --- ganga lausa. Var það ekki þannig orðað? En þá fer maður að skilja málið. Það er komið upp afl í þessu þjóðfélagi sem heitir Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands sem ætlar sér að vera í vátryggingum, bak við þessa 3--3,5 milljarða, það er náttúrlega afl. Það eru önnur öfl í þessu þjóðlífi sem ekki sætta sig eflaust við það að fá slíkt á sig. Ég treysti því að hv. þm., 1. flm. þessa frv., gangi ekki erinda þeirra afla frekar en sá sem hér stendur, heldur einhverra annarra.

Við erum ekkert að hætta í tryggingum og það vill svo vel til að tilgangur og starfssvið þessa félags liggur fyrir. Það stendur hér, með leyfi forseta. Það stofnar til eignarhalds í vátryggingafélagi á einangruðu sviði með innlendum eða erlendum aðilum um sérþarfir sveitarfélaga fyrir sveitarstjórnartryggingar og vátryggingarábyrgð þeirra. Þetta stendur allt saman hér ef menn vilja kynna sér málið. En þetta síðasta um þessa 3,5 milljarða, að þeir séu hættulegir, það held ég að svari spurningu dagsins.