Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 18:28:21 (5723)

1998-04-22 18:28:21# 122. lþ. 110.23 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., JHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[18:28]

Jónas Hallgrímsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sé engan mun á því að treysta mönnum eða löglega kjörinni stjórn þessa félags eða einhvers annars fyrir 500 millj. kr. eins og það var metið á sínum tíma eða 3,4 milljörðum eða hvað sem það er í dag. Ég sé engan mismun á því og ég trúi því ekki að það séu upphæðirnar sem ráða því hvort menn eru traustsins verðir eða ekki. Það alla vega má ekki vera ef svo er.

Ég vil að það komi fram að það var ákveðin forræðishyggja í gamla félaginu. Forræðishyggjan fólst í því að forstjóri félagsins var ráðinn eða skipaður af ráðherra. Þessari forræðishyggju var breytt með lögunum frá því í apríl 1994. Það er engin forræðishyggja í þessu félagi í dag. Það er rekið nákvæmlega eins og önnur félög og það má kalla það eins og hv. 1. flm. nefndi það á markaðsgrundvelli. Við erum náttúrlega á markaðsgrundvelli og við verðum á markaðsgrundvelli. Það eru alveg hreinar línur eins og lögin eru að við teljum okkur hafa fullt leyfi til þess og ætlum okkur að gera það.

Ég nefni bara til að þeir fjármunir, þessar 110 millj., sem mönnum hefur orðið tíðrætt um og er ágóðahluti sem greiddur verður út í ár, við ætlum þeim fjármunum að fara til forvarna og í sveitarstjórnarpakkann sem gamla félagið var fyrst til þess að taka upp og hlutu áreiðanlega mikið þakklæti fyrir frá mörgum.

Ég ætla ekki að munnhöggvast meira um þetta mál. Ég hef reynt að útskýra það af hverju við teljum að þetta frv. sé tímaskekkja og ég endurtek að flm. hefðu átt, þeir sem greiddu atkvæði með frv. 1994, að flytja þetta eða eitthvað annað líkt frv. en ekki greiða því atkvæði. Það hefur ekkert breyst annað en upphæðin síðan.