Umboðsmaður aldraðra

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 18:32:51 (5725)

1998-04-22 18:32:51# 122. lþ. 110.6 fundur 475. mál: #A umboðsmaður aldraðra# frv., GMS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[18:32]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um umboðsmann aldraðra. Þetta er frv. sem varamaður minn á þingi, Ólafur Þ. Þórðarson og hv. þm. Guðni Ágústsson lögðu fram fyrr í vetur. Það er svo merkilegt með þetta þing okkar að þótt mál hafi verið lögð fram fyrir mörgum mánuðum virðist eiga að afgreiða öll mál á einum degi sem koma frá stjórnarþingmönnum. Ég hélt reyndar að úr því sem komið var hefði verið komið samkomulag við menn um að stytta mál sitt og að reyna að koma þeim tugum mála sem eru á dagskrá í dag í umræðu. Svo gerðist það hér í dag, þótt ég ætli ekki almennt að gera fundarsköp að umræðuefni, að 23. mál er tekið fram fyrir þessi mál af því að þeir sem voru með það mál þurftu að verja kvöldinu til annars. Það vill bara svo til að fleiri þingmenn eru með mál á eftir sem eru undir sömu sökina seldir og þurfa að vera á sama fundinum þannig að mér finnst afar sérkennilegt hvernig tímanum hefur verið varið í dag og það virðist ekki vera mikið virt að menn ætli að stytta mál sitt. Það er kannski horfið frá því samkomulagi að menn reyndu að stytta mál sitt þegar þeir tala fyrir frv.

Víkjum aftur að frv. til laga um umboðsmann aldraðra. Það er staðreynd sem blasir við að á næstu áratugum mun öldruðum á Íslandi fjölga mjög sem hlutfalli af fólki á vinnumarkaði. Á undanförnum árum hafa orðið miklar umræður um hag aldraðra og með hvaða hætti unnt sé að tryggja öldruðum viðunandi lífskjör þegar starfsævinni lýkur. Sú umræða hefur að mestu markast af fjárhagslegum þáttum, svo sem bótum almannatrygginga, skattskyldu lífeyrisgreiðslna og framtíðarskuldbindingum lífeyrissjóða sem allt varðar það hvort fjárhagslegt öryggi aldraðra sé nægilega tryggt. Aldraðir hafa í auknum mæli bundist samtökum til að sinna hugðarefnum sínum og gæta hagsmuna sinna og hafa þau unnið mjög gott starf á ýmsum sviðum. Að eigin frumkvæði og í samvinnu við ýmsa opinbera aðila hafa þau, þ.e. samtök aldraðra, staðið fyrir umræðu um framtíðarhag aldraðra, fyrirkomulag framfærslumála og fleiri mál.

Á undanförnum árum hefur orðið vart misræmis í túlkun ýmissa atriða er varða hagsmuni aldraðra, sérstaklega fjárhagslega hagsmuni, enda eru aldraðir mjög misjafnlega staddir fjárhagslega. Þar vega þyngst lífeyrisréttindi sem aflað hefur verið á starfsævinni, aðrar tekjur lífeyrisþega, svo sem af eignum, og hjúskaparstaða hins aldraða. Gagnrýnt hefur verið að jaðarskattsáhrif séu meiri á fjárhag aldraðra en eðlilegt geti talist, og misjafnt sé hvernig stjórnvaldsaðgerðir komi niður á öldruðum eftir aðstæðum þeirra. Þá liggur fyrir að aldraðir eru mjög misjafnlega í stakk búnir til að fylgja sjálfir eftir hagsmunum sínum og réttindum. Þess eru mörg dæmi að aðstandendur aldraðra sjái um réttindamál þeirra að mestu leyti en jafnframt er full ástæða til að óttast að í einstaka tilfellum sé misfarið með fjármuni aldraðra og að hagsmuna einhverra þeirra sé að einhverju eða öllu leyti ekki gætt sem skyldi.

Í framhaldi af því sem að ofan er rakið í máli mínu hefur að undanförnu verið talsverð umræða um að aldraða skorti talsmann sem njóti virðingar og gæti hagsmuna þeirra gagnvart stjórnvöldum, tryggi að vilji aldraðra komi fram áður en teknar eru ákvarðanir sem varða þá, fylgist með því að þjóðréttarsamningar, lög og stjórnsýslureglur séu í heiðri höfð og bregðist við ef talið er að með athöfnum eða athafnaleysi sé brotið gegn réttindum, þörfum eða hagsmunum aldraðra.

Til þess að koma til móts við þarfir þær sem að ofan er lýst er lagt til í frumvarpi þessu að komið verði á fót embætti umboðsmanns aldraðra til þess að tryggja og bæta hag aldraðra í samfélaginu og reyna að sjá til þess að stefna stjórnvalda í málefnum aldraðra sé í samræmi við vilja þeirra. Um fyrirmynd að þessari skipan má líta til embættis umboðsmanns Alþingis og umboðsmanns barna. Umboðsmaður Alþingis hefur á þeim áratug sem hann hefur starfað hlotið fastan sess í þjóðfélaginu og umboðsmaður barna hefur á sínum stutta starfstíma sýnt fram á nauðsyn embættisins til að standa vörð um hagsmuni barna. Með svipuðum hætti er ætlunin að embætti umboðsmanns aldraðra standi vörð um hagsmuni aldraðra eins og nánar er lýst í einstökum ákvæðum frumvarpsins.

Nú nýverið var hér dreift á Alþingi skýrslu forsrh. um stöðu eldri borgara hérlendis og erlendis. Þetta er heljarmikið og fróðlegt plagg upp á einar 54 bls. þar sem lýst er stöðu aldraðs fólks hér á landi borið saman við önnur ríki Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD. Rauði þráðurinn í skýrslunni er hvað þeim sem eru 67 ára og eldri á eftir að fjölga mikið sem hlutfalli af þjóðinni, þ.e. að aldursdreifingin, aldurspíramídinn, á eftir að breytast mjög mikið á komandi árum. Þannig var að árið 1996 voru þeir sem voru 67 ára og eldri 9,8% af Íslendingum og framreikningar til 2030 gefa til kynna að árið 2030, eftir 32 ár, verði aldraðir borgarar orðnir 16,5% mannfjöldans.

Í skýrslunni er einnig að finna fróðlegar upplýsingar um eignir og skuldir aldraðs fólks. Þar kemur glögglega fram að eignir þeirra sem komnir eru á efri ár, komnir á eftirlaunaaldur, 66 ára og eldri, eru býsna miklar. Skuldir eru nokkrar þótt þær fari hríðminnkandi eftir að á þennan aldur er komið. Aldraðir eru oft með misjafnar tekjur og hafa náttúrlega eftir á þennan aldur er komið mjög takmarkaða möguleika til að afla sér tekna en það er ljóst að þetta fólk hefur oft og tíðum litla möguleika til að fylgjast með þeim breytingum sem verða á lögum og reglugerðum sem varða réttarstöðu þeirra, varða eignir þeirra, varða meðferð þeirra fjármuna sem viðkomandi einstaklingar eiga.

Ég held að einmitt þær upplýsingar sem koma fram í skýrslunni á bls. 26 og 27 og sýna að þetta fullorðna fólk er með þetta miklar eignir, sem eru að töluverðu leyti bundnar í fasteignum, sýni nauðsyn þess að þetta fólk geti snúið sér til einhvers aðila eins og hér er rætt um, umboðsmanns aldraðra, sem getur leiðbeint því, getur tekið upp mál sem þetta fólk á hugsanlega í útistöðum við kerfið, geti leiðbeint því í gegnum frumskóg kerfisins og ekki síst verið málsvari þess gagnvart opinberum aðilum þegar nýjar og nýjar álögur eru lagðar á grundvelli eigna sem þetta fólk á án þess að horfa til þess hvort þetta fólk hafi tekjur til að standa undir þeim sköttum sem eru lagðir á eignirnar.

Ég vék áðan í máli mínu að umboðsmanni barna sem hefur starfað í nokkur ár. Þjóðin hefur efni á að starfrækja umboðsmann barna sem eru þó í þeirri stöðu að hafa yfirleitt forráðamenn til að gæta að hag sínum. Samt sem áður töldu menn rétt að stofna embætti umboðsmanns barna sem kostað er af opinberu fé. Þá hlýtur það ekki síður að vera réttlætanlegt að leggja opinbert fé til þess að stofna embætti sem lætur sig varða hag þeirra sem hafa oft og tíðum ekki aðra til að halda utan um mál sín eins og foreldrar gera þegar börn eiga í hlut.