Argos-staðsetningartæki til leitar

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 19:26:10 (5733)

1998-04-22 19:26:10# 122. lþ. 110.11 fundur 550. mál: #A Argos-staðsetningartæki til leitar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[19:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. hlý orð í minn garð og minna. Þetta er náttúrlega ekki í fyrsta skipti sem þingmenn Alþfl. reyna með einhverjum hætti að leggja ríkisstjórninni lið og af því að hv. þm. gat þess að fáir stjórnarandstæðingar hefðu verið í salnum í dag sýnist mér að af þeim almennu þingmönnum sem eru í salnum þegar ég lít nú yfir þennan fjölskipaða sal og tel, þá sýnist mér að hér séu þó a.m.k. helmingur allra sem viðstaddir eru stjórnarandstæðingar. (ÍGP: Hv. þm. getur samt ekki talið í fleirtölu þó hann ...) Ég sé til að mynda að í þessum sal er bæði starfandi formaður utanrmn. og formaður heilbr.- og trn. svo ég nefni tvo en ég minni hv. þm. líka á að í gær var það þessi þingmaður sem hjálpaði stjórninni að aka ýmsum málum til laga með því að mæla fyrir ýmsum málum sem stjórnin átti að gera en ég tek það fram, herra forseti, að ég tel að þetta mál sé hið þarfasta og ég held að það sé ágætismál. Ég held að það geti í fyrsta lagi bjargað mannslífum. Í öðru lagi er ég alveg sannfærður um að það muni í mörgum tilvikum bjarga mönnum frá einhvers konar skaða. Í þriðja lagi muni það bjarga fé skattborgaranna og það skiptir líka miklu máli. Ég held að málið sé ágætt.

Ég vona bara að þeir sem sitja í umhvn. þangað sem þetta mál fer sennilega skutli þessu litla máli með hraði í gegn vegna þess að ég held að mál af þessu tagi skipti líka nokkru. Við erum alltaf að þrasa um einhver lög sem eru flókin og illskiljanleg og stundum jafnvel illskiljanlegt af hverju er verið að setja þau. Þetta mál er í eðli sínu afskaplega einfalt og það er alveg ljóst að það hefur tilgang. Þetta er jákvætt mál.

Það er jafnan svo, herra forseti, að jafnvel stjórnarsinnar detta stundum niður á ágætustu mál og þá stendur ekki á okkur stjórnarandstæðingum að koma og mæra þá í hástemmdu lofi, ég tala nú ekki um ef það eru þingmenn Framsfl. sem okkur er frá fornu fari nokkuð hlýtt til af sögulegum ástæðum.