Rekstur björgunarsveita í landinu

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 19:33:59 (5736)

1998-04-22 19:33:59# 122. lþ. 110.12 fundur 551. mál: #A rekstur björgunarsveita í landinu# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[19:33]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það vekur athygli mína að þau mál sem hv. þm. Framsfl. flytja í kvöld varða einkum þá sem villst hafa af leið eða eiga í einhvers konar erfiðleikum með að staðsetja sig. Ég veit ekki hvort hin pólitíska undirmeðvitund þingmanna flokksins hefur vegna einhvers konar tímabundinnar áttavillu tekið af þeim völdin og knúið þá til þess að flytja þessi mál. Þó verð ég að segja, herra forseti, að mér finnst þetta mál góðra gjalda vert.

Ég sem bý í hinum hvassvindasama vesturbæ Reykjavíkur vil þó gera athugasemd við að það liggi við að í hvert skipti sem hvessir þá séu björgunarsveitir kallaðar út. Svo kann að vísu vera á hinu slétta Suðurlandi þar sem hv. málshefjandi, hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, býr en svo er nú ekki í Vesturbænum.

Ég tel hins vegar að það sé góðra gjalda vert að reyna einhvern veginn að finna leiðir til að aðstoða björgunarsveitir landsins við að halda úti sínum kostnaðarsama rekstri og sínu mikla úthaldi sem oft og tíðum hefur skipt miklu máli.

Herra forseti. Ég varð líka að koma hér til þess að lýsa aðdáun minni á því hversu ötull hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson er við að uppfylla kosningaloforð sín. Svo vill til nefnilega, herra forseti, að áður en hv. þm. var kjörinn á þing var ég á fundi ásamt honum hjá Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur þar sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson lofaði einmitt að hann mundi flytja mál af þessu tagi sem miðaði að því að aflétta gjöldum af björgunarsveitum landsins. Ég held að nauðsynlegt sé að skoða hvort það þarf á einhvern hátt að koma nánar að rekstri þessara sveita. Ég segi það ekki til þess að draga úr þörfinni á því en hingað til hefur þeim verið afskaplega vel tekið af landsmönnum þegar þær hafa gengið fyrir dyr almennings og óskað eftir einhvers konar fjárframlögum. Allir skilja gildi þessara sveita. En ef raunin er sú að það þurfi að styðja þær einhvern veginn frekar þá tel ég sjálfsagt að gera það.

Auðvitað má deila um hvort það eigi að gera það eins sem kemur fram í greinargerð með tillögunni. Þar er lagt til að sérstaklega verði skoðað hvort fella eigi gjöld af rekstri sveitanna. Þegar ég hlýddi á sínum tíma á mál hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar sem er frumflytjandi tillögunnar þá ræddi hann sterklega þann möguleika m.a. að aflétta virðisaukaskatti af vörum og aðföngum til deildanna. Ég veit ekki hvort það er heppileg leið. Það getur vel verið að svo sé.

Ég vek hins vegar máls á því, herra forseti, fyrst tilefni gefst að það eru auðvitað til annars konar líknarfélög --- ég nefnilega lít öðrum þræði á björgunarsveitirnar sem líknarfélög --- sem þurfa að greiða háar upphæðir til hins opinbera og mér hefur sjálfum þótt það ósanngjarnt. Hæstv. fjmrh. hefur verið mér ósammála um það en ég held að ekki væri úr vegi að líta á þessi mál í heild.

Ég vil að lokum, herra forseti, taka upp hanskann fyrir ríkisstjórnina. Henni er ekki alls varnað þrátt fyrir allt. Hún hefur líka lítillega lagt lóð á vogarskálar þessara sveita sem hv. þm. gat um í sinni ræðu. Hann drap nefnilega sérstaklega á afrek þeirra fyrr á áratugnum þegar björgunarsveitir aðstoðuðu fjölda manna til lífs sem lentu í hrakningum vestra þegar snjóflóð dundu yfir. Þá kom berlega í ljós að það allra mikilvægasta sem sveitirnar réðu yfir voru þjálfaðir hundar. Þeir hafa verið allt of fáir og þeir hafa t.d. ekki verið til á Vestfjörðum en ríkisstjórnin hefur eigi að síður hlutast til um það að veitt hefur verið sérstakt fjárframlag til að efla þjálfun og uppeldi leitarhunda og það skiptir auðvitað ekki minnstu máli.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, herra forseti, en mér finnst þetta vera hið ágætasta mál og sjálfsagt að skoða þetta. Ef það er þannig að björgunarsveitirnar þurfa á fjárhagslegri aðstoð að halda umfram þess sem þær njóta nú í gegnum almenning í landinu þá tel ég sjálfsagt að skoða það. Ég er ekki alveg viss um endilega að þær aðferðir sem hér eru reifaðar í greinargerð með tillögunni séu hinar réttu. En ef svo er ekki þá kann vel að vera að hægt sé að finna aðrar sem eru hentugri.