Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 20:13:12 (5739)

1998-04-22 20:13:12# 122. lþ. 110.14 fundur 565. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, frádráttarliðir o.fl.) frv., 563. mál: #A barnabætur# frv., 564. mál: #A húsnæðisbætur# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[20:13]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Til umræðu eru tvö frv. og ein þings\-ályktunartillaga sem hv. þm. Pétur H. Blöndal flytur ásamt Vilhjálmi Egilssyni. Í þessum tillögum þeirra tvímenninga er ýmislegt að finna sem er mjög athyglisvert og umræðunnar virði. Vil ég þar nefna hugmyndir þeirra um húsnæðisbætur og sitthvað annað sem fram kemur í þeirra röksemdafærslu. Þetta þarf svo sem ekki að koma á óvart því hér eru á ferðinni einhverjir vinnusömustu alþingismennirnir. Menn sem styðja sitt mál vel ígrunduðum rökum. Ekki er þar með sagt að ég sé sammála þeim rökum og svo er ekki í þessu tilviki. Ég er t.d. ekki sammála því sem fram kom í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að skattkerfið eigi fyrst og fremst að þjóna því hlutverki að vera tekjuöflunarkerfi, tekjuöflunartæki fyrir ríkissjóð. Ég tel að skattkerfið eigi að þjóna tvíþættu hlutverki. Vissulega að afla tekna fyrir sameiginlegan sjóð landsmanna en einnig að vera til tekjujöfnunar.

[20:15]

Ég vil fyrst og fremst í máli mínu víkja að hugmyndum þeirra tvímenninga um tekjuskattslækkun en þeir leggja til að tekjuskattur verði færður niður í áföngum frá því sem hann er nú í tæpum 40% niður í tæp 20% árið 2006. Þessi breyting hefði í för með sér aukna skattbyrði á tekjulægsta hluta samfélagsins. Fólk sem er undir tekjuskattsmörkum, sem eru núna um 60 þúsund kr. og er þar af leiðandi skattlaust, færi að greiða skatta. Einstaklingur sem hefði 60 þús. kr. á mánuði mundi að öllu óbreyttu greiða tæpar 12 þúsund kr. á mánuði hverjum í skatta samkvæmt þessum tillögum. Einstaklingur með 10 þús. kr. á mánuði greiddi tæplega 2 þúsund kr., 1.999 kr.

Allir einstaklingar sem eru með tekjur undir 120 þús. kr. á mánuði yrðu fyrir skattahækkunum. Til hvers yrðu þessar skattahækkanir notaðar? Skattahækkanir yrðu notaðar til að niðurgreiða skattalækkanir hjá hæstlaunaða fólki samfélagsins. Þannig fengi milljón króna maðurinn, svo dæmi sé tekið, skattalækkun sem næmi tæpum 167 þús. kr. á mánuði samkvæmt tillögum hv. þm. Sjálfstfl., Péturs Blöndals og Vilhjálms Egilssonar. Hér er verið að gera tillögur um það að hátekjufólk á Íslandi fái skattalækkun upp á tæpar 170 þús. kr. á mánuði. Milljón króna maðurinn á að fá skattalækkun sem þessu nemur en láglaunaþjóðin, fólkið sem er undir 120 þús. á mánuði, á að fjármagna þetta með auknum skattbyrðum.

En hvað á að koma á móti? Það sem á að koma á móti er það að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur, því að vísað er í aðila vinnumarkaðar, eiga að tryggja launafólki almennt, og sérstaklega láglaunafólki, launahækkun til að vega upp á móti þessu. Hér tala Pétur Blöndal og framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands og segja að leiðin til þess að niðurgreiða skattalækkun til milljón króna mannsins, skattalækkun sem nemur tæpum 170 þús. kr. á mánuði, sé að hækka launin hjá þessu fólki. Þetta er tillaga frá Verslunarráði Íslands. Þetta er tillaga frá mönnum sem tala í nafni Verslunarráðs Íslands en Vilhjálmur Egilsson sem er 2. flm. að tillögunni er framkvæmdastjóri Verslunarráðsins.

Við sem höfum starfað í verkalýðshreyfingu og komið að kjarasamningum höfum ekki beint fundið fyrir stuðningi frá þessum aðilum í kjarasamningum liðinna ára þegar menn hafa verið að setja fram tillögur og kröfur um launahækkanir til láglaunafólks á Íslandi.

Ég kem fyrst og fremst upp til þess að vekja athygli á þeim staðreyndum að verið er að setja fram tillögur, þingmenn Sjálfstfl. eru að setja fram tillögur á Alþingi um að lækka skatta á hátekjuþjóðinni, á hátekjufólki á Íslandi, og gera kröfu um að láglaunafólk, allir þeir sem eru undir 120 þús. kr. á mánuði, axli auknar skattbyrðar til að standa undir niðurgreiðslum til hálaunaþjóðarinnar.