Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 20:20:51 (5740)

1998-04-22 20:20:51# 122. lþ. 110.14 fundur 565. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, frádráttarliðir o.fl.) frv., 563. mál: #A barnabætur# frv., 564. mál: #A húsnæðisbætur# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[20:20]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég get vel skilið að hv. þm. Ögmundur Jónasson sé á annarri skoðun en ég í þessu máli. Það helgast af mismunandi lífsviðhorfum okkar og ég get ekki sagt að hann hafi rangt fyrir sér né að ég hafi rétt fyrir mér eða öfugt. Þetta eru bara mismunandi lífsviðhorf.

Hins vegar finnst mér dálítið dapurlegt fyrir forustumann í verkalýðshreyfingu að reikna með því að fólk sem er með lágar tekjur skuli hafa það áfram um aldur og ævi. Mér finnst það hálfdapurlegt. Ég hefði reiknað með því að hann segði fullur af eldmóði: Við bætum kjör fólks okkar sem hefur lægst laun. Og vegna þess að milljón króna maðurinn, sem er reyndar ekki mikið um, fær 160--170 þús. kr. í lækkuðum sköttum þá þarf hann ekki að fá neina launahækkun næstu sjö árin. Sá ágæti maður getur bara haft sínar milljón krónur allan tímann í staðinn fyrir að hækka eins og hann hefur gert undanfarin ár því að hæstu launin hafa hækkað meira en lægstu launin. Það er þekkt.

Ég reikna með því að hægt sé að breyta tekjum fólks og þegar slíkur hvati kemur til eins og hér er um að ræða munu lægstu launin hækka. Við munum ekki hafa lengur eins skammarlega lág laun og við erum að frétta af í dag.

Það að þessi tillaga sé frá Verslunarráði Íslands er alrangt. Hún er unnin af mér, reyndar með öðru ágætu fólki sem er tilgreint í grg., en hún kemur fram vegna mjög sterks þrýstings frá því fólki sem kaus mig í Reykjavík, og fólki úti um allt land, fólki sem er orðið mjög þreytt á þeirri gífurlegu skattlagningu og alveg sérstaklega að það getur ekki bætt kjör sín. Konurnar í frystihúsunum geta ekki bætt kjör sín án þess að missa bætur út og suður og ekkert stendur eftir í buddunni. Það er þessi hópur fólks sem hefur hvatt mig til þess að leggja fram þetta frv.