Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 20:22:54 (5741)

1998-04-22 20:22:54# 122. lþ. 110.14 fundur 565. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, frádráttarliðir o.fl.) frv., 563. mál: #A barnabætur# frv., 564. mál: #A húsnæðisbætur# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[20:22]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kom upp til að mótmæla tillögum þess efnis að skattar yrðu lækkaðir á hátekjufólki á Íslandi á kostnað láglaunafólks. Hv. þm. Pétur Blöndal segir að sér finnist dapurlegt að ég skuli hafa uppi málflutning af þessu tagi. Hann hefði vænst þess að ég kæmi fullur eldmóðs og vildi hækka lægstu laun. Það vil ég gera og það hef ég viljað gera um árabil gegn andstöðu Vinnuveitendasambandsins, gegn andstöðu Verslunarráðsins, gegn andstöðu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og gegn andstöðu Sjálfstfl. Þetta er það sem við höfum átt við að stríða, andstöðu þessara afla.

Mér finnst það vanhugsað, jafnvel pínulítið barnalegt, að segja að ef við samþykkjum nú lög þess efnis að skattar verði lagðir á fólk sem hefur tekjur undir 60 þús. kr. á mánuði og skattar verði hækkaðir á alla þá sem hafa undir 120 þús. kr. á mánuði þá verði það til þess að hækka þessi laun.

Síðan finnst mér það umhugsunarvert sem hv. þm. Pétur H. Blöndal segir, að kjósendur sínir í Reykjavík hafi þrýst á sig að koma fram með þessar tillögur. Mig undrar það ekki. Mig undrar ekki að forstjóri Eimskips og stórfyrirtækjanna hér, að milljón krónu mennirnir skuli þrýsta á þá hv. þm. Vilhjálm Egilsson og Pétur H. Blöndal að koma fram með tillögur um að lækka á þá skatta. Enda yrði árangurinn verulegur ef þetta yrði samþykkt, skattalækkun upp á 167 þúsund á milljón krónu mennina. En mig undrar málflutningurinn sem þingmaðurinn viðhafði hérna að öðru leyti.