Ársreikningar

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 20:42:59 (5747)

1998-04-22 20:42:59# 122. lþ. 110.20 fundur 434. mál: #A ársreikningar# (laun og starfskjör stjórnarmanna) frv., Flm. GÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[20:42]

Flm. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um ársreikninga, nr. 144/1994. Það hljóðar svo:

2. mgr. 48. gr. laganna orðast svo:

Veita skal upplýsingar um heildarlaun, önnur starfskjör og ágóðahluta til stjórnarmanna félags, framkvæmdastjóra eða annarra stjórnenda fyrir störf í þágu þess. Sundurliða skal heildarlaun og önnur starfskjör þessara aðila. Þá skal veita upplýsingar um meðallaun starfsmanna eftir starfshópum, karla annars vegar og kvenna hins vegar.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í greinargerðinni segir:

Markmið laga um ársreikninga er að gefin sé sönn og skýr mynd með jöfnu millibili af eignum og skuldum hlutafélags, fjárhagsstöðu þess og afkomu. Rekstrarreikningur verður að sama skapi að sýna heildartekjur og heildargjöld þannig sundurliðuð að reikningurinn gefi greinargóða mynd af rekstrarafkomu hvers reikningsárs miðað við góða reikningsskilavenju. Í 43. gr. IV. félagaréttartilskipunar EB, sem gildi hefur hér á landi, kemur fram að í skýringum með ársreikningi skuli m.a. geta um þá fjárhæð sem veitt er á reikningsárinu í þóknun til stjórnarmanna hlutafélags, framkvæmdastjóra eða annarra stjórnenda fyrir störf þeirra. Eðlilegt er og sjálfsagt að skýrt komi fram í ársreikningi fyrirtækja hvaða laun eru greidd æðstu stjórnendum og stjórnarmönnum, sem og allar aðrar þóknanir. Þess vegna þarf að skýra nánar ákvæði 48. gr. laganna, en fram til þessa hefur nákvæm sundurliðun þessara þóknana verið talin óþörf. Að sama skapi og með hliðsjón af stöðu mála í jafnréttisumræðu er nauðsynlegt að hlutafélög upplýsi um raunveruleg laun og önnur starfskjör beggja kynja eftir starfshópum svo að auðveldara verði að ráða bót á misrétti á því sviði.

[20:45]

Hér er verið að mæla með því að jafnrétti verði á milli fyritækja burt séð frá eignarformi, að laun þeirra sem fyrir fyrirtækjunum fara og þeim ráða og önnur starfskjör verði upplýst og aðgengileg öllum almenningi. Slíkt mundi veita mikið aðhald í okkar þjóðfélagi. Þetta er gert í hinum stærri ríkjum. Hví ekki hér?

Hinn liðurinn snýr að jafnrétti kynjanna. Það er ljóst að laun kvenna á Íslandi eru mun lægri en karla svo nemur kannski 30--40% að meðaltali. Ég er sannfærður um að þegar horft verður til baka einhvern tíma á næstu öld til þessarar sem nú senn er að líða, þá verður það skoðun þeirra sem þá verða uppi að það sé eitthvert mesta misrétti og óskiljanlegt framferði þeirra sem nú eru uppi og stjórna fyrirtækjum og ráða þjóðfélaginu að konur skuli búa við svo slök kjör. Komið hefur í ljós í launaskriði síðustu mánaða að það eru laun karlanna sem skríða upp á við. Það hefur komið í ljós líka í fyrirtækjunum að þar sem karlmaður er ráðinn þá er hann á sérkjörum o.s.frv.

Ég hef lengi talið að konur væru síst verri starfskraftar en karlmenn og að þær séu verðar launa sinna og þess vegna sé mikilvægt að mæla fyrirtækin hvað þetta varðar til að veita þeim aðhald og ná þessum árangri á sem skemmstum tíma.

Læt ég þá ræðu minni lokið, hæstv. forseti. Ég hef ekki gert mér grein fyrir til hvaða nefndar málinu skal vísað en legg það í dóm hæstv. forseta og treysti honum fullkomlega til að gera rétt.

(Forseti (ÓE): Það var vel mælt hjá hv. þm.)