Stjórn fiskveiða og Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 20:47:50 (5748)

1998-04-22 20:47:50# 122. lþ. 110.17 fundur 639. mál: #A stjórn fiskveiða og Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (krókaveiðar) frv. 49/1998, Flm. ÁRÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[20:47]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, og lögum nr. 92 frá 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, bæði með síðari breytingum. Frv. liggur frammi á þskj. 1095. Með því eru lagðar fram tillögur um að breyta þessum lögum hvað varðar krókabáta eða báta sem stunda veiðar á línu og handfærum.

Breytingarnar sem koma fram í tveimur fyrri greinum frv. sem snúa að lögunum um stjórn fiskveiða eru annars vegar þess efnis að samkvæmt 1. gr. frv. verði óheimilt að flytja veiðileyfi frá báti sem stundar veiðar með þorskaflahámarki til báts sem stundar veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga. Eru ástæður þeirrar breytingar vel skýrðar í grg. svo að ég mun ekki taka þær sérstaklega fram í minni framsögu.

Í 2. gr. frv. er lögð til sambærileg breyting við 6. gr. laganna ásamt því að lagt er til að í stað orðsins ,,Veiðiferð`` á einum stað komið orðið: Sóknardegi, þar sem með því yrði framvegis notað sama orð um það hugtak alls staðar í þessari grein laganna þar sem fjallað er um veiðar þessara báta í sóknardagakerfi. En það fyrirkomulag, ef svo má segja, eða orðalagið ,,Veiðiferð`` hefur vakið ágreining sem yrði úr leyst með þessari breytingu.

Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði laganna um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, þar sem segir að frestur þessara báta til 1. apríl sl. til að leggja fram umsóknir um úreldingarstyrk, verði framvegis til 1. október 1998.

Þó að frv. hafi þegar það var í smíðum verið kynnt í hv. sjútvn. legg ég til að því verði vísað þangað og til 2. umr. en vænti þess að það fái þar hraða afgreiðslu því að fram kemur í grg. að stjórn Landssamband smábátaeigenda svo og sjútvrn. sem fer með framkvæmd laganna séu sammála um að mikilvægt sé að koma þessum lagfæringum að.