Endurvinnsla á pappír

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 20:54:29 (5750)

1998-04-22 20:54:29# 122. lþ. 110.19 fundur 629. mál: #A endurvinnsla á pappír# þál., Flm. ÁRÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[20:54]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um átak til endurvinnslu og endurnýtingar á pappír. Ásamt mér er flm. hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að beita sér fyrir átaksverkefni um endurvinnslu og endurnýtingu pappírs sem fellur til hér á landi.``

Í grg. kemur fram að að undanförnu hefur farið fram mikil almenn umræða um umhverfismál og stöðu þeirra hér á landi. Einkum hefur athyglinni verið beint að útstreymi gróðurhúsalofttegunda enda skammt liðið frá lokum loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kyoto. Flutningsmönnum sýnist hins vegar full ástæða til að athyglinni verði einnig beint að öðrum þáttum þessa víðfeðma málaflokks.

Helstu hráefni til pappírsgerðar eru úr jurtum eða trjám sem hafa fram að þessu verið álitin mikilvirk í að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda með því að nýta sér sjálf þær lofttegundir. Í opinberum gögnum hefur komið fram að hérlendis falli árlega til pappír sem nemi um 30 þús. tonnum. Af upplýsingum OECD um pappírsnotkun okkar Íslendinga og nokkurra grannþjóða okkar á síðustu árum má draga þá ályktun að hún kunni að fara vaxandi hér á landi. Sérstaka athygli vekur að litlum hluta notaðs pappírs er safnað til endurnýtingar hérlendis eða einungis um 30% eða innan við 1/3 af því sem til fellur. Hlutfallið er talsvert hærra hjá flestum grannþjóðum okkar og er t.d. yfir 40% í Finnlandi, Svíþjóð og Þýskalandi. Eina leiðin til að pappír verði safnað og verð fáist fyrir hann sem hráefni til endurvinnslu. þ.e. sem stendur, er og hefur verið að senda hann til útlanda. Verðið sem þannig fæst er nú of lágt til að söfnun og flutningur borgi sig. Þá er einnig umhugsunarvert að sá litli hluti pappírs sem safnað er hér á landi fer alls ekki allur til endurvinnslu eða endurnýtingar heldur er hann ýmist urðaður eða brenndur án þess að orkan sé nýtt.

Að þessu athuguðu draga flutningsmenn þá ályktun að auka megi söfnun pappírs sem til fellur og þá einkum að tryggja megi að stærri hluti hans verði endurunninn og nýttur að nýju. Því telja þeir ástæðu til að athugað verði hvort endurvinnsla pappírs hér á landi geti orðið arðbær og leggja til að greitt verði fyrir athugunum á tæknilegum og fjárhagslegum forsendum söfnunarkerfis og endurvinnslu. Hvatt verði til söfnunar og skila og t.d. opinberar stofnanir hafi forgöngu um að flokka og safna pappír til endurvinnslu. Þessu mætti koma á með fyrirmælum stjórnvalda og leggja flutningsmenn til að athugað verði hvort til þess þurfi lagaboð eða hvort einfaldari fyrirmæli dugi til. Sem dæmi má nefna að slík fyrirmæli hafa verið í gildi í Danmörku um nokkurt árabil.

Þá verði einnig athugað hvort rétt væri að banna urðun og brennslu endurvinnanlegs pappírs eða endurnýtanlegra efna almennt.

Herra forseti. Erlend stjórnvöld hafa lagt sig fram um að hvetja til endurnýtingar með tímabundnum og jafnvel varanlegum aðgerðum bæði í löggjöf og öðrum fyrirmælum frá stjórnvöldum. Við teljum ástæðu til að íslensk stjórnvöld athugi hið sama og íhugi kosti þess og galla.

Að svo mæltu legg ég til að till. verði vísað til síðari umr. og til athugunar í hv. umhvn.