Markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 21:12:13 (5754)

1998-04-22 21:12:13# 122. lþ. 110.21 fundur 609. mál: #A markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis# þál., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[21:12]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil segja um þessa þáltill. að hún er hin merkasta í mínum huga. Ef hægt yrði að ná því fram að Bændasamtökin, Landssamband sláturleyfishafa, Íslenskar sjávarafurðir, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda gerðu með sér slíkan samning sem hér er orðaður og lagt er til, þá mundi það áreiðanlega vera vænlegasta leiðin til að ná skjótri sókn í markaðsmálum og söluátaki á lambakjöti.

Ég hef lengi sagt að bændur verða ekki frjálsir á ný fyrr en þeir hafa náð erlendum mörkuðum. Erlendir markaðir á landbúnaðarafurðum hafa skipt bændur mestu máli á þessari öld. Það var sauðasalan í lok síðustu aldar sem gaf íslenskum landbúnaði nýjan byr. Ég er því þeirrar skoðunar að það muni skipta sköpum. Það skiptir ekki bara bændur miklu máli. Það mun líka ráða örlögum heilla byggða hvort slíkt tekst eða ekki. Þess vegna er mjög mikilvægt að leggja þessu máli lið.

Það er auðvitað ljóst í mínum huga að afurðastöðvar hafa verið að gera heldur góða hluti og eru að gera það með öðrum hætti en áður var. Það er lagt upp úr gæðum vörunnar og reynt að selja hana dýrt sem hreina úrvalsafurð. Ég nefni Sláturfélag Suðurlands sem hefur verið að selja Dönum lambakjöt á svipuðu verði og Íslendingar kaupa það, og það gengur út. Menn eru að feta sig á þennan markað en tíminn líður hratt. Þess vegna er það mikilvægt að menn nái skjótum árangri. Svo þurfa bændur og þeirra samtök auðvitað að hugsa mjög vel um innanlandsmarkaðinn og halda þar sem best sinni hlutdeild.

Ég lýsi því yfir að mér finnst þessi þáltill. hið merkasta mál og vera í samræmi við aðra þáltill. sem þeir fluttu í vetur, hv. þm. Stefán Guðmundson og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og er nú til umfjöllunar í landbn., um að styrkja sauðfjárrækt á jaðarbyggðum. Ég held að mikilvægt væri ef þetta mál gæti með skjótum hætti náð áfram og þá helst á þessu þingi.