Afgreiðsla meiri hluta félagsmálanefndar á frumvarpi um húsnæðismál

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 14:21:53 (5764)

1998-04-28 14:21:53# 122. lþ. 112.91 fundur 323#B afgreiðsla meiri hluta félagsmálanefndar á frumvarpi um húsnæðismál# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 122. lþ.

[14:21]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar og mótmæla þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru í hv. félmn. og að þetta mál skuli tekið til 2. umr. Ég tel að þetta mál, eins og ég hef fylgst með því í félmn., sé alls ekki útrætt. Þær umsagnir sem fram hafa komið og hv. þm. Ögmundur Jónasson gat um, mótmæli fjölmennra félagasamtaka eins og fatlaðra, námsmanna, verkalýðshreyfingarinnar, húsnæðisnefnda, námsmanna og Búseta, skipta tugum blaðsíðna.

Ljóst er, herra forseti, að við erum að fjalla um stærsta málið á þinginu. Það snýr að heimilum landsmanna. Með þessu frv. á að breyta húsnæðislöggjöfinni og af hálfu meiri hlutans eru litlar breytingar gerðar sem nokkru máli skipta. Félagsleg aðstoð í húsnæðismálum verður slegin af.

Herra forseti. Við eigum átta daga eftir af starfstíma þessa þings samkvæmt starfsáætlun Alþingis. Ég spái því að mesti tíminn muni fara í að ræða vinnubrögð félmn. og þá húsnæðislöggjöf sem keyra á í gegn í andstöðu við fjöldahreyfingar. Þessar aðgerðir eru í andstöðu við verkalýðshreyfinguna þannig að við munum þurfa að taka töluvert marga daga af þeim starfstíma sem eftir er á þessu þingi til að ræða þau vinnubrögð sem hér á að viðhafa, að keyra málið í gegn.

Ég minni á það, herra forseti, að þetta frv. á ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót. Eðlilegt hefði verið, líkt og með önnur stórmál sem þurfa skoðunar við, að verkalýðshreyfingin, félagasamtök og stjórnmálaflokkarnir hefðu haft tíma til að skoða þessi mál í sumar.

Ég mótmæli þessu harðlega, herra forseti, og spái löngum og ítarlegum umræðum um þetta mál það sem eftir lifir af þessu þingi.