Þingsályktunartillaga um setningu reglna um hvalaskoðun

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 14:31:20 (5769)

1998-04-28 14:31:20# 122. lþ. 112.92 fundur 324#B afgreiðsla nokkurra þingmannamála# (aths. um störf þingsins), KH
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 122. lþ.

[14:31]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Erindi mitt í þennan ræðustól kann að virðast eitthvað léttvægara en það mál sem hér var til umræðu en það varðar engu að síður störf þingsins og vinnubrögð.

Fyrir rúmum tveimur mánuðum, þ.e. 13. febr. sl., mælti ég fyrir till. til þál., sem er 264. mál þessa þings, um setningu reglna um hvalaskoðun hér við land. Till. var vísað til hv. samgn. þremur dögum síðar, eða 16. febr., og má geta þess að ég kom að máli við hv. formann samgn. til að ýta á eftir því að málið færi til umsagnar þeirra aðila sem ég taldi málið sérstaklega varða.

Í gær gerðist það svo að ég ætlaði að kynna mér þær umsagnir sem ég vænti að lægju fyrir í nefndinni og kanna möguleika þess að till. yrði afgreidd á þinginu. Ég komst þá að raun um að það hafði ekki einu sinni verið á dagskrá nefndarinnar, það hafði ekki verið sent til umsagnar og þar af leiðandi lágu engar umsagnir fyrir. Ég hlýt að gera mjög alvarlega athugasemd við þessi vinnubrögð sem gera auðvitað að engu von mína um að till. hljóti afgreiðslu á þinginu. Ég þekki satt að segja ekki dæmi um vinnubrögð af þessu tagi í þinginu. Ég bið hæstv. forseta að upplýsa þingheim um það hvort slík meðferð þingmála samrýmist góðum og eðlilegum vinnubrögðum.