Ráðstefna á vegum fjögurra ráðuneyta

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 15:08:08 (5782)

1998-04-28 15:08:08# 122. lþ. 113.92 fundur 322#B ráðstefna á vegum fjögurra ráðuneyta# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[15:08]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég mundi vilja spyrja hæstv. forseta um hvað hann ráðleggi þingmönnum að gera í þessu máli, hvort hann leggi til að þingmenn sæki þessa ráðstefnu eða sinni þingskyldum sínum. Ég held að það verði að vera á hreinu að eitt gangi yfir alla í máli af þessu tagi því að hér er eins og fram hefur komið, mikilvægu máli hreyft og væri full ástæða til að gera hlé á störfum þingsins til að menn gætu farið á þessa ráðstefnu ef á annað borð er ætlast til þess að þingmenn sæki hana.

Í öðru lagi vil ég benda á að þennan sama dag er haldinn aðalfundur Landsvirkjunar. Hæstv. núv. iðnrh. hefur gert allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að þingmenn komi nálægt Landsvirkjun. Þó vill nú þannig til að gert er ráð fyrir því að þingflokkarnir geti tilnefnt mann á aðalfundi Landsvirkjunar en hann er nákvæmlega þennan sama dag. Ég vil því mælast til þess við forseta að hann úrskurði: Eiga menn að vera hér eða á öðrum hvorum þessara funda? Nema þinghald verði fellt niður þennan dag sem ég teldi langeðlilegast. Og ég skora á forseta að víkjast ekki undan því að svara þessari afdráttarlausu spurningu minni.