Ráðstefna á vegum fjögurra ráðuneyta

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 15:09:51 (5784)

1998-04-28 15:09:51# 122. lþ. 113.92 fundur 322#B ráðstefna á vegum fjögurra ráðuneyta# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[15:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er forseta að sönnu þakklátur fyrir ábendinguna um þingskylduna. Ég vona, hæstv. forseti, að þeirri ábendingu hafi ekki verið beint til mín sem málshefjanda sérstaklega,

(Forseti (ÓE): Nei, nei.)

að minna mig á að rækja þingskyldu mína.

Spurningin er hins vegar sú, hæstv. forseti, hvort hæstv. forseti þarf ekki að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um þeirra þingskyldur. Skyldi það kannski vera að það væri að gleymast hér, að hæstv. ráðherrar bera jafnframt þingskyldu? En það ber hins vegar ekki vitni um djúpstæðan skilning þeirra á þessu fyrirbæri að þeir skuli standa fyrir ráðstefnuhaldi af þessu tagi trekk í trekk á þingfundatíma. Mér finnst, herra forseti, taka steininn úr að ekki færri en fjögur ráðuneyti, fjórir hæstv. ráðherrar sem bera ábyrgð á stjórnarathöfnum í sínum ráðuneytum, hvað sem hæstv. forsrh. heldur, skuli sýna slíka fyrirlitningu á þeim störfum sem hér fara fram undir lokin á þingtímanum, að boða sameiginlega til ráðstefnu og bjóða hv. þingmönnum á þá ráðstefnu sem hefst kl. 13.00 á fimmtudaginn kemur.

Þetta er fyrir neðan allar hellur, hæstv. forseti, og ég vona að hæstv. forseti taki á sig rögg og tali við hæstv. ráðherra með tveimur hrútshornum ef til þarf þannig að þeir skilji hvað hér er á ferðinni.

(Forseti (ÓE): Það þarf ekki að brýna forseta í þessum efnum.)