Afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 15:13:32 (5787)

1998-04-28 15:13:32# 122. lþ. 113.93 fundur 325#B afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[15:13]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Að undanförnu hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu um svokallað gagnagrunnsmál. Það er að mörgu leyti spennandi viðfangsefni sem margir hafa haft skoðun á og óskað eftir því að fá lengri tíma til að fjalla um og er að mörgu leyti skynsamlegt að mínu mati að hafa tekið þá ákvörðun.

Hitt vil ég láta koma fram að enginn aðili, hvorki innan þings né utan, getur tekið ákvörðun um að eitthvert eitt frv. verði að lögum fyrir tiltekna dagsetningu í haust. Það er útilokað að binda þingið í þeim efnum. Þingið hlýtur að taka þann tíma sem það þarf. Hvort það er 20. október, 20. nóvember eða 20. desember, það er mál Alþingis sjálfs. Það getur enginn bundið þingið í þeim efnum. Þetta vildi ég láta koma fram vegna ummæla sem ég hef heyrt að hafi fallið í fjölmiðlum í þessum efnum.