Afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 15:25:47 (5794)

1998-04-28 15:25:47# 122. lþ. 113.93 fundur 325#B afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[15:25]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér hafa verið látin falla mjög umhugsunarverð ummæli fyrir Alþingi Íslendinga og fyrir þingræðið í landinu. Okkur tókst ekki, sagði hv. þm. úr stjórnarliðinu, að ljúka þessu máli í gær og í dag þannig að hægt væri að afgreiða málið frá þinginu. Hvað erum við að tala um? Við erum að tala um frv. til laga, sem nýlega er komið fram, um að veita fyrirtæki einkarétt á öllum heilbrigðisupplýsingum Íslendinga til rúms áratugar. Það tókst ekki að afgreiða málið í gær og í dag.

Málið hefur valdið slíkum mótmælum og slíkri umræðu að heita má að þjóðfélagið leiki allt á reiðiskjálfi. Þá er ég aðeins að tala um frv. og læt liggja á milli hluta að forsrh. þjóðarinnar hæstv. skuli leyfa sér að vera einhvers konar pantur við undirskrift samnings milli erlends lyfjafyrirtækis og íslenskra aðila um ráðstöfun á gagnagrunni í heilbrigðisþjónustunni. Ég læt það liggja milli hluta. Ég er aðeins að tala um afgreiðslu Alþingis. Hér var sagt að ekki væri ætlast til að menn skuldbyndu sig fyrir fram. Menn ætlast til hins gagnstæða, að menn skuldibindi sig ekki fyrir fram eða hlýði ekki fyrirskipunum frá ríkisstjórninni í þessu efni. Það er ástæða til að óttast slíkt. Í mörgum öðrum frv. sem þröngvað hefur verið í gegnum þingið hefur það sýnt sig að meiri hluti Alþingis, þingmenn Framsfl. og Sjálfstfl., láta hrekjast undan svipuhöggum úr ráðuneytunum.