Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 15:46:40 (5797)

1998-04-28 15:46:40# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta RG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[15:46]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom er aðeins einn þingmaður í minni hluta, þ.e. sú sem hér stendur og mun ég nú fjalla um afstöðu þingflokks jafnaðarmanna.

Virðulegi forseti. Verði skipting miðhálendisins upp í ræmur sem tilheyri aðliggjandi sveitarfélögum lögfest á þessu þingi tel ég það mestu atlögu að almannarétti frá landnámsöld. Jafnaðarmenn geta ekki fallist á að deila miðhálendinu upp á milli sveitarfélaganna. Ekkert getur réttlætt að lögbinda svo afdrifaríkt ákvæði í ágreiningi. Víðerni Íslands eru dýrmæt auðlind sem er sameign allrar þjóðarinnar og Alþingi ber, virðulegi forseti, að tryggja þjóðarsátt um stjórn og skipulag svæðisins. Þegar opin umræða í þjóðfélaginu fer fram um þá þjóðarauðlind sem felst í ósnortnum víðernum hálendisins, söndum, jöklum, hraunum og gróðurvinjum, kemur skýrt í ljós að fólkið í landinu vill að hagsmuna allra sé gætt við ákvarðanir sem varða framtíð svæðisins. Tillaga jafnaðarmanna er að miðhálendi Íslands verði sérstök stjórnsýslueining er lúti einni stjórn með aðkomu fulltrúa allra landsmanna.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að vísa í orð Steinunnar Sigurðardóttur í erindi hennar Um daginn og veginn í gærkvöld þar sem hún segir:

,,Hálendið er stolt okkar Íslendinga. Þar eru öflug hitasvæði. Þar er þriðja stærsta jökulhvel veraldar og á miðhálendinu eru stórbrotnustu gljúfur í Evrópu, stærsta heiðargæsavarp í heimi.``

Virðulegi forseti. Þegar ég hugsa um það mál sem hér á að knýja í gegn í ágreiningi við þjóðina og þegar ég hugsa um öll þau stóru mál sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hyggst þvinga í gegn á þessu vori í skjóli þingstyrks þá kemur eitt orð upp í huga mér: Valdníðsla.

Virðulegi forseti. Í frv. eru sveitarstjórnarlög tekin til heildarendurskoðunar og gerðar á þeim úrbætur í ljósi reynslunnar. Satt best að segja eru þessi heildarlög afskaplega lík því sem við höfum búið við en á þessu þingi hefur Alþingi sett sérstök lög um kosningar til sveitarstjórna sem áður voru hluti sveitarstjórnarlaga og þess vegna er kafli um kosningar felldur út úr sveitarstjórnarlögunum. Sem nýmæli má nefna að gerðar verða auknar kröfur til sveitarfélaga varðandi upplýsingagjöf um fjármál þeirra og rýmkuð er heimild sveitarfélaga til nafngiftar þeirra og öll sveitarfélög fá nú sömu stjórnsýslulegu stöðu.

Meiri hluti félmn. flytur nokkrar brtt. við þetta frv. sem jafnaðarmenn munu taka afstöðu til við afgreiðslu málsins og ég mun víkja að þeim síðar. En það sem er mest um vert er það stóra álitamál sem tekist er á um og felst í 1. gr. frv. ásamt ákvæði til bráðabirgða þar sem nærliggjandi sveitarfélögum eru veitt öll völd á öræfum landsins og ég tel að sé atlaga að almannarétti.

Frsm. félmn. nefndi að umsögn allshn. um 1. gr. frv. og bráðabirgðaákvæði hefði verið ókomið þegar félmn. afgreiddi þetta mál. Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að gagnrýna harðlega hvernig málið var tekið út úr félmn. Það var tekið út fyrir páska á fyrsta degi þriggja nefndardaga. Óskað var mjög eftir því að dokað yrði við þar til umsögn allshn. lægi fyrir. Óskað var eftir því að það yrði ekki tekið út þar sem aðalmaður í nefndinni var forfallaður. Engu var eirt í þessum efnum og málið rifið út eins og það ætti að taka það til afgreiðslu strax næstu daga. Hér stöndum við um þremur vikum seinna og þá er vísað til þess að umsögn allshn. hafi verið ókomin og nú liggi hún fyrir og breyti litlu um niðurstöðu meiri hlutans.

Virðulegi forseti. Um leið og ég fylgi nefndaráliti minni hluta úr hlaði ætla ég að kynna brtt. minni hlutans sem er tillaga jafnaðarmanna að því hvernig skuli fara með miðhálendið. Tillaga jafnaðarmanna, eins og ég hef áður sagt, er að landið skiptist ekki allt upp í sveitarfélög heldur orðist 1. gr. svo, með leyfi forseta:

,,Landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð utan miðhálendis Íslands sem verður sjálfstæð stjórnsýslueining sem lýtur sérstakri stjórn. Forsætisráðherra skipar níu manna stjórn miðhálendis til fjögurra ára að fengnum tilnefningum. Umhverfis-, iðnaðar-, samgöngu- og félagsmálaráðherra tilnefna einn fulltrúa hver og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir fjóra fulltrúa. Forsætisráðherra skipar einn fulltrúa og er hann jafnframt formaður stjórnarinnar.

Sveitarfélög eru lögaðilar.

Hver maður telst íbúi þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili.``

Í öðru lagi að ákvæði til bráðabirgða orðist svo, með leyfi forseta:

,,Miðhálendið markast af línu sem dregin verður milli heimalanda og afrétta, línu sem miðað var við í tillögum svæðisnefndar að skipulagi hálendisins frá 1997.``

Virðulegi forseti. Eins og málum er nú háttað ná sveitarfélögin aðeins yfir hluta óbyggðanna en samkvæmt lögum skal telja afréttir til þess sveitarfélags sem þar á upprekstrarrétt. Ef frumvarpið nær fram að ganga fá þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu framkvæmdarvald á nær helmingi Íslands. Með þessu er tryggt að um 70% þjóðarinnar hefur ekkert með skipulagningu þessa sameiginlega landsvæðis að gera í framtíðinni. Það verður því aðeins lítill hluti þjóðarinnar sem tekur örlagaríkar ákvarðanir um framtíð svæðis sem er sameign allra landsmanna.

Stefnumótun í landnýtingu miðhálendisins, byggð á nýtingu orkulindanna, ferðaþjónustu, verndun og friðlýsingu er hápólitísk ákvörðun sem fleiri en einn hagsmunaaðili á að koma að. Fólkinu í landinu þykir vænt um öræfi landsins og nýtir þau í æ ríkari mæli til gönguferða, útreiða, sleða- og skíðaferða svo eitthvað sé nefnt. Menn sjá í öræfum landsins aukna möguleika til lífsfyllingar. Auðvitað er eðlilegt að fleiri en íbúar þeirra sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu standi að mótun, skipulagningu og ákvörðunum varðandi þetta svæði. Krafan er að meiri hluti landsmanna komi að ákvarðanatökunni um nýtingu svæðisins og beri jafnframt ábyrgð á því. Allir landsmenn verða að geta treyst því að almannaréttur ráði ferðinni, t.d. réttur almennings til umferðar um landið en ekki hagsmunir einstakra sveitarfélaga. Árekstrar milli sveitarfélaga annars vegar og einstaklinga og félagasamtaka hins vegar eru ekki óþekktir þegar kemur að umferðarrétti þeirra síðarnefndu um landsvæðið utan byggða. Ferðamenn telja að slíkum ágreiningsmálum hafi fjölgað hin síðari ár með aukinni útivist landsmanna. Tillaga um skiptingu miðhálendis milli fárra sveitarfélaga er því atlaga að almannarétti hér á landi. Í þeirri skoðun felst ekkert vantraust á sveitarfélög varðandi umsýslu hefðbundinna verkefna, enda hafa jafnaðarmenn verið frumkvöðlar í að efla sveitarfélög og flytja til þeirra verkefni frá ríkinu.

Ég ætla líka að vekja athygli á stjórnvaldsákvörðun um að þjóðargersemi okkar, Þingvellir, skuli vera eitt skipulags- og stjórnsýslusvæði sem lýtur sérstakri stjórn sem fer með öll málefni svæðisins. Fyrir þinginu liggur frv. til laga um Þingvelli og Þingvallavatn og þar kemur vel í ljós að umsýsla stjórnar Þingvallafólkvangsins á að ná yfir talsvert meira svið en eingöngu að lúta að því sem snýr að innri málum Þingvalla. Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að vísa í setningu í 5. gr. þessa frv. þar sem stendur:

,,Friðun á landi utan hins friðhelga lands skal ekki standa því í vegi að landeigendur, ábúendur og aðrir sem þar eiga nytjarétt geti haft hefðbundin beitar- og búskaparafnot af nytjalandi sínu nema Þingvallanefnd telji að sú notkun leiði til þess að spjöll verði á náttúrufari og gróðri á svæðinu. Getur nefndin þá ákveðið takmarkanir á beit og öðrum nytjarétti innan þjóðgarðsins.``

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, hvernig við höfum verið að skoða sumar gersemar okkar og talið eðlilegt að þær lúti sértakri stjórn.

En þetta frv. felur ekki í sér vott af skilningi á þeim sjálfstæða rétti meiri hluta þjóðarinnar sem býr í þéttbýli suðvesturhornsins að hún fái að taka þátt í að stýra annarri gersemi þjóðarinnar sem er miðhálendið. Það á að sjálfsögðu að tryggja þessum stóra hluta þjóðarinnar bæði áhrif og sjálfsagðan aðgang. Enginn getur séð fyrir nú hvaða afleiðingar það muni hafa að skipta landinu upp í allt að 40 stjórnsýslulegar ræmur eða hvort þröngir hagsmunir hinna smærri sveitarfélaga muni rekast á við hagsmuni almennings. Ég spyr: Er útilokað að stjórnmálamenn læri af reynslunni?

Alþingi hefur sett lög sem fært hafa á fárra hendur sameiginlega auðlind okkar í hafinu. Þar er ráðstöfunarrétturinn í höndum fárra manna sem leigja og selja aðgang að auðlindinni að eigin vild. Hér er hætta á að önnur auðlind, miðhálendið, með víðernum sínum fari sömu leið.

Á dögunum barst okkur áhrifarík áskorun sem 90 einstaklingar sendu Alþingi og ríkisstjórn. Þetta var ekki einsleitur hópur. Þarna er á ferð þekkt fólk. Þarna eru prófessorar og fræðimenn, rithöfundar, aðrir listamenn, umhverfisverndarfólk og ferðafrömuðir, fólk úr öllum geirum athafnalífsins, litróf menningargeira okkar og síðast en ekki síst eru þetta hópar úr öllum stjórnmálarflokkum.

Það má nefna líka að í þessum hópi er að finna tvo fyrrverandi umhverfisráðherra, tvo fyrrverandi rektora og, eins og ég áður hef sagt, marga prófessora. Hvers vegna nefni ég þetta? Vegna þess að þetta er fólk sem hefur skoðað þessi mál árum saman, hefur skoðun á þeim og veit hvað felst í þeim og veit líka hvað felst í því að ætla að láta sér nægja að svæðisskipulag verði mótandi fyrir aðalskipulag þegar búið er að færa sveitarfélögum valdið.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að skoða hvað þessi hópur skorar á Alþingi og ríkisstjórn að gera. Með leyfi forseta hljóðar áskorunin svo:

[16:00]

,,Á Alþingi liggja nú fyrir lagafrumvörp sem meðal annars munu ákveða um alla framtíð, hver fer með stjórnsýslu og skipulagsrétt á miðhálendinu. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa lýst ánægju sinni yfir þjóðlendufrumvarpinu, sem gerir ráð fyrir að mestur hluti hálendisins verði þjóðareign, enda er það skilningur flestra Íslendinga að svo hafi alltaf verið, samanber forn lög og dóma. Mikill ágreiningur er hins vegar um frumvarp til breytinga á sveitarstjórnarlögum sem gerir ráð fyrir að skipta miðhálendi og jöklum milli sveitarfélaga.

Í ljósi þess að samstaða er um að miðhálendið verði áfram eign þjóðarinnar, teljum við undirrituð höfuðnauðsyn, að ekki verði á þessu þingi bundið með óafturkræfum hætti hvernig stjórnsýslu- og skipulagsmálum verður háttað þar. Meiri tími verði gefinn til opinnar umræðu, þannig að öll þjóðin fái að taka þátt í að ákveða hvernig með mál þessi verður farið í framtíðinni.``

Þetta fólk er að vekja athygli á samstöðu um þjóðlendufrv. og gildi þess að þar er kveðið á um að mestur hluti miðhálendisins verði þjóðareign. Þau biðja um að Alþingi hinkri með að binda með óafturkræfum hætti hvernig stjórnsýslu og skipulagsmálum verður háttað á miðhálendinu. Af hverju á ekki að verða við þessari skynsamlegu áskorun? Vegna þess að hæstv. félmrh. segir: Af því bara. Hann vill fá frv. sitt fram eins og forsrh. Frv. um þjóðlendur kemur til móts við þjóðina en frv. sem félmrh. flytur gengur gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar.

Eina von landsmanna er að forsrh., fyrrv. borgarstjóri Reykvíkinga, taki af skarið og segi: Við skoðum málið betur, hlustum á raddir þessa fólks og gerum breytingar á málinu í sumar. Eina vonin er sú að forsrh. sjálfur taki í taumana.

Almenn áskorun til þjóðþings og ríkisstjórnar er í raun ákall til forsrh. Hann einn getur nú afstýrt því sem við blasir.

Virðulegi forseti. Á sameiginlegum fundi nefnda þingsins í Borgartúni 6 kom skýrt fram að hægt er að lögfesta þjóðlendufrv. eitt og sér þó sveitarfélagafrv. yrði ekki afgreitt. Ég bendi þingmönnum á greinargerðina og umsögn um 3. gr. frv. um þjóðlendur á bls. 33 þar sem segir að sé landið ekki skipað innan staðarmarka sveitarfélags fer forsrh. einn með þau landeigendaráð sem felast í heimildum þessara laga.

Virðulegi forseti. Við eigum stærsta víðerni í Evrópu. Það er mikil auðlind. Mat landsmanna á auðlindum Íslands er annað í dag en fyrir nokkrum árum, hvað þá heldur áratugum. Verðmæti auðlinda hafsins er í dag skýrara í hugum almennings af því að þeim er úthlutað til fárra sem selja og leigja í eigin þágu og verðmæti þessa er borið á borð fyrir þjóðina.

Mat á auðlindum hálendis er líka annað í dag þó ekki sé verðmiði á þeirri auðlind. Áður voru verðmæti einkum metin í orku og efnum en í dag er sívaxandi umræða um að ósnortin náttúra sé mesta auðlindin og það skipti alla máli hvernig með hana verður farið. Við eigum eftir að svara spurningum um hvaða svæði hálendisins eigi að friða. Ég minni þingmenn á að eftir hápólitísk átök í Noregi vegna áforma um virkjunarframkvæmdir varð ofan á að friða Hardanger\-vidda. Það svæði er sennilega stærsta samfellda hálendissvæði Noregs, mesta og dýrmætasta hálendiseign þeirra. Þeir báru gæfu til þess að fjalla um málið þó að þeir væru komnir að virkjanaákvörðun en við eigum þessa umræðu eftir. Þó liggja fyrir þinginu tillögur um þjóðgarða á miðhálendinu. Það er þáltill. frá Hjörleifi Guttormssyni þar sem hann leggur til að Alþingi álykti að fela umhvrh. að láta undirbúa í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendi Íslands er hafi innan marka sinna helstu jökla og aðliggjandi landsvæði og svo er lagt til að ráðherra kynni Alþingi stöðu málsins á vorþinginu 1999 og stefnt verði að formlegri stofnun þjóðgarðanna árið 2000. Berum við gæfu til þess að fjalla um málið þegar við ætlum að fara að brytja miðhálendið niður á milli sveitarfélaga, vitandi það að allar ákvarðanir um mörk sem koma einhvers staðar við sveitarfélögin eftir að þau hafa fengið umráðarétt verða viðkvæm? Berum við gæfu til þess að ræða þetta í umhvn. og ákveða hvort við viljum hafa þjóðgarða á hálendinu, ætlum við að ákveða hvar þeir eru áður en við tökum ákvörðun um það hvernig skuli breyta hálendinu í þessar stjórnsýsluræmur? Nei, við berum ekki gæfu til þess. Slík þingmannamál afgreiðum við til nefndar og væntanlega eru þau tekin fyrir á allra síðasta degi þingsins eða kannski eitthvað örlítið fyrr og síðan er sagt: Um þetta er ágreiningur, þetta mál á að liggja. Svona mál tökum við þingmenn ekki upp. Svona vinnum við Íslendingar alls ekki. Við sem erum alltaf að vísa til þess hvernig hlutirnir eru annars staðar lærum ekki vinnubrögð. Við eigum eftir að fjalla um málið. Við eigum líka eftir að svara spurningum um hvernig má nýta jarðvarma og vatnsorku án þess að ganga of mikið á þá auðlind sem ósnortin náttúra er. Erum við ekki enn einu sinni að taka hlutina fyrir í öfugri röð? Ætlar okkur seint að lærast að erfiðara er að breyta hlutunum eftir á? Á ekki fyrst að móta með þjóðinni stefnu í umhverfismálum, því næst að móta stefnu stjórnvalda og síðast að taka ákvörðun um hvar skuli virkja?

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að vekja athygli á orðum umhverfisstjóra Landsvirkjunar sem haft var viðtal við í Degi á dögunum. Umhverfisstjórinn er ung kona, Ragnheiður Ólafsdóttir. Hún lauk sérfræðinámi í Svíþjóð og starfaði þar aðallega í málum sem snertu grunnvatn, verndunarsvæði vatnsbóla og umhverfismat. Hún vekur einmitt athygli á undarlegri atburðarás okkar í umgengni við landið í viðtalinu og hún saknar stefnu stjórnvalda. Hún segir að í Svíþjóð sé umhverfismatið hluti af allri skipulagsstarfsemi og almenningur sé hafður með í ráðum. Hérna sé fyrst tekin ákvörðun um staðsetningu og síðan sé farið í umhverfismat. Hér er fyrst ákveðið hvort á að virkja eða leggja veg og þegar menn hafa tekið þá ákvörðun senda þeir málið í umhverfismat, hversu viðkvæmt sem það er. Að ég rifji það ekki upp að jafnvel eiga menn það til að hrifsa það út úr atburðarásinni sem lög hafa gert ráð fyrir. Það þekkjum við líka og höfum rætt hér.

Þessi unga kona segir að í Svíþjóð sé umhverfismatið tekið fyrir fyrst, rætt sé um að leggja veg og síðan ráðist það af umhverfismatinu hvort vegurinn er lagður hér eða þar eða alls ekki. Hún segir um umræðuna um svæðið norðan Vatnajökuls að fyrirliggjandi rannsóknarskýrsla komi eingöngu inn á ferðamál og virkjanir á meðan rannsóknir þurfa á fleiri sviðum, svo sem vatnafari og náttúrufari, að ekki sé ljóst hvort það sé Landsvirkjunar að skoða þetta. Í Svíþjóð, af því að við erum að vísa til þess, mundu stjórnvöld sjá um þennan þátt, skoða heildarmyndina og marka stefnu. Spurningin snýst um hvort við viljum varðveita svæðið fyrir norðan Vatnajökul fyrir framtíðina eða hvort við viljum eitthvað annað, t.d. leggja vegi. Henni finnst þetta ekki vera spurning sem Landsvirkjun á að svara heldur þurfi stefnumörkun frá ríkisstjórninni og þjóðin verði að segja hvað henni finnst.

Í lok þessa ágæta viðtals, sem ég las af áfergju, segir hún svo:

,,Ef þetta væri í Svíþjóð þá mundu stjórnvöld gera það sjálf,`` hún er að tala um svæðin norðan Vatnajökuls, ,,skoða heildarmyndina og marka stefnu. Þetta er spurning um hvort við viljum varðveita svæðið fyrir norðan Vatnajökul fyrir framtíðina eða viljum við leggja vegi og veita fleira fólki aðgengi að svæðinu. Gætum við hugsað okkur að taka hluta af vatni t.d. frá Jökulsá á Fjöllum? Mér finnst þetta ekki vera spurningar sem Landsvirkjun eigi að svara heldur þurfi stefnumörkun frá ríkisstjórninni, segi ég, sem er nýkomin frá Svíþjóð. Mér finnst að þjóðin verði að segja hvað henni finnst,`` segir Ragnheiður Ólafsdóttir.

Ég vel að vísa í þessi orð vegna þess að þessi unga kona starfar einmitt á einum á þeim þýðingarmikla vettvangi sem tengist nýtingu auðlinda okkar á hálendinu og hún saknar stefnu og ég sakna stefnu og við vitum ekki hvert á að halda því hér gengur allt í kross og í öfugri röð.

Auðlindir til lands og sjávar eru verðmæti sem okkur er falið að varðveita fyrir næstu kynslóðir. Þess vegna verðum við að skoða hvernig og í hversu ríkum mæli við nýtum þessar auðlindir. Okkur ber að kanna hvernig stefnan í orkumálum og uppbyggingu stóriðju fellur að ferðaþjónustu, hvernig hún fellur að náttúru- og umhverfisvernd. Við höfum skyldum að gegna við komandi kynslóðir með allt sem hefur áhrif á aðdráttarafl Íslands.

Virðulegi forseti. Ég hef þegar nefnt þingmannatillögu um undirbúning að stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendi Íslands sem við höfum ekki látið okkur varða að skoða. Í landi okkar eru samtök sem við höfum lagt mikla áherslu á að komi að stefnumörkun hjá okkur og sem hafa í gegnum árin haft mikið að segja um þróun mála og kallað eftir samskiptum við stjórnvöld um. Ég ætla að nefna Náttúruverndarsamtök Íslands. Þau héldu fund fyrir í desember í kringum kynningu á svæðisskipulagi miðhálendisins og þá sendu þau frá sér ályktun sem orðast svo og ég ætla að fá að lesa hana, með leyfi forseta:

,,Fundurinn telur farsælast að stofnaður verði þjóðgarður sem nær yfir allt miðhálendið og væri sameign þjóðarinnar allrar. Fagnað er ýmsum ágætum atriðum í svæðisskipulagstillögunni, t.d. er varðar uppbyggingu ferðamiðstöðva í jaðri hálendisins. Fundurinn sættir sig hins vegar ekki við þær umfangsmiklu virkjanaframkvæmdir sem að er stefnt og framfylgt er enn ákafar í stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.

Fundurinn varar einnig við fyrirhuguðum vegaframkvæmdum með uppbyggingu vega og brúargerð sem ætlað er venjulegum fólksbílum. Dæmi um gagnrýnisverð atriði í tillögu samvinnunefndarinnar er hve hugtakanotkun er óskýr að algerlega óviðunandi er hversu mikið vatn er ætlað undir orkumannvirki, að ekki ætti að hleypa fólksbílum á miðhálendið fyrr en á sumrin, að huga þarf betur að beitarstjórnun en ráð er fyrir gert.

Fundur Náttúruverndarsamtakanna krefst þess að umhvrh. stækki samvinnunefndina og fulltrúum náttúruverndarsamtaka og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu verði gert mögulegt að koma að þeirri vinnu sem fer í hönd við að fara yfir athugasemdir og tillögur samvinnunefndarinnar.``

[16:15]

Virðulegi forseti. Stjórnsýsla utan byggða í dag er óljós og framkvæmd skipulags- og byggingarmála hefur verið tilviljunarkennd. Lög gera ráð fyrir að staðbundin stjórnvöld fari með ákveðið vald innan umdæmis síns en þessi lög gera hvorki þeim né stjórnvöldum á landsvísu bært að fjalla um slík mál utan sveitarfélaganna. Dæmi um þetta er útgáfa byggingarleyfis, úttekt á byggingum, eftirlit byggingarfulltrúa og reglur um heilbrigðiseftirlit. Ekkert stjórvald er bært til að veita slík leyfi utan marka sveitarfélaga né hafa eftirlit eða taka aðrar ákvarðanir. Þá fer enginn með mikilvæga þætti opinbers valds, svo sem lögreglustjórn og almannavarnir utan sveitarfélaga og lögsagnarumdæmi héraðsdómstólanna átta í landinu ráðast af sýslumörkum og mörkum kaupstaða. Því er nauðsynlegt að setja skýr lagaákvæði um stjórnsýslu á öllu miðhálendinu, þar með talið á jöklum og ákveða hver fer með stjórnsýslu á þessu svæði. Það er afdráttarlaus skoðun jafnaðarmanna að líta beri á miðhálendið sem eina stjórnsýslu- og skipulagslega heild en það er ekki hægt að gera ef svæðinu verður skipt í sneiðar milli þeirra sveitarfélaga sem liggja að hálendinu eins og 1. gr. frv. gerir ráð fyrir. Með því verður hvert einstakt sveitarfélag alls ráðandi, hvert á sínum hluta miðhálendisins.

Virðulegi forseti. Skipulagning miðhálendisins verður að byggja á heildarsýn svo gætt verði samræmis á öllu svæðinu. Ólík sveitarfélög eiga erfitt með að tryggja þennan mikilvæga þátt. Samkvæmt lögum ber sveitarstjórn að ganga frá aðalskipulagi í sveitarfélagi sínu og gerð deiliskipulags á minni svæðum. Þá fer hún með framkvæmd og eftirlit laganna. Það er gjarnan í skipulaginu sem hin pólitísku áhersluatriði og framtíðarsýn stjórnvalda birtist hvað skýrast. Sameiginleg skipulagstillaga svæðanefndar þeirra sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu breytir engu þar um. Svæðisskipulag byggir á heimild í lögum en ekki skyldu eins og aðalskipulagið. Stjórnskipuleg staða svæðisskipulags er miklu veikari en aðalskipulags. Svæðisskipulagi er ætlað að vera leiðbeinandi við gerð aðalskipulags hvers sveitarfélags. Þegar sveitarfélögin hafa tekið tillit til þess við aðalskipulag sitt fellur svæðisskipulag niður. Hlutverki þess er með öðrum orðum lokið.

Aðalskipulag sem er í andstöðu við svæðisskipulag leiðir ekki til breytinga á svæðisskipulaginu. Aðalskipulag þarfnast hins vegar staðfestingar skipulagsyfirvalda. Þegar þess er gætt að skipulag verður að vera í sífelldri endurskoðun vegna breyttra aðstæðna, hugmynda, upplýsinga o.s.frv. er ljóst að svæðisskipulag er engin trygging fyrir því að samræmis verði gætt við skipulag miðhálendis. Það eru því ólík sjónarmið og mismunandi hagsmunir einstakra sveitarfélaga sem munu ráða ferðinni á miðhálendinu í framtíðinni. Hætta er á hagsmunaárekstrum þegar t.d. tíu sveitarstjórnir þurfa að fjalla um málefni á svæði sem er óneitanlega ein skipulagsleg heild. Hagnýtt dæmi gæti komið upp við virkjunarframkvæmd sem tilheyrði mörgum sveitarfélögum með þeim hætti að stíflugerð og lón væru í einu sveitarfélagi, línur í öðru og stöðvarhúsið í því þriðja. Komi til ágreinings vegna slíkra mála eða einfaldlega t.d. vegna vegar- eða línulagningar innan staðarmarka sveitarfélaga fer um málsmeðferð samkvæmt reglum sem gilda í sveitarfélaginu.

Mikill hluti auðlinda þjóðarinnar liggur á hálendi Íslands. Eins og ég hef sagt hefur stefna ekki verið mótuð um nýtingu þessara auðlinda. Stefnumörkun í orkumálum, svo sem ákvörðun um hámarksnýtingu vatns- og varmaorku, sem og stefna í ferðamálum á miðhálendinu og eins og ég hef áður nefnt ákvörðun um staðsetningu þjóðgarða, hefur ekki verið mótuð af stjórnvöldum. Það er alveg ljóst að þessi verkefni sem eiga í eðli sínu heima hjá landskjörnum stjórnvöldum færðust yfir til sveitarfélaganna við skipulagningu hálendisins. Nýting vatnsorku sem margir telja að nemi um 30 teravattstundum að teknu tilliti til hagkvæmni og umhverfis, ónýttur jarðhiti og atvinnusköpun við ferðamennsku á öræfum landsins er fjársjóður framtíðarinnar.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson benti á það í umræðu á Alþingi á dögunum að verðmæti sem um væri að ræða miðað orkuverð frá stöðvarvegg séu eins og öll íslensku fiskimiðin í dag. Vegarlagning, mannvirkjagerð, afmörkun virkjunarsvæða, verndunarsvæði og ákvörðun þjóðgarða eru þættir sem ákvarðaðir verða í aðalskipulagi sveitarfélaga sem og uppgræðsla landsvæða, beitarafnot, umferð yfir viðkvæm svæði o.s.frv. Þetta eru verkefni sem snúa að landinu öllu og engin rök liggja til þess að nokkur sveitarfélög fari með ákvörðunarvald á þessum sviðum.

Nái frv. fram að ganga kemur sérhver ákvörðun um framangreinda þætti til með að heyra undir fjölmörg sveitarfélög. Sveitarfélögin sem eru oft á tíðum fámenn hafa af auðskiljanlegum ástæðum ekki bolmagn til þess að takast á við skipulagsverkefni sem verða sífellt að vera í endurskoðun miðað við breyttar forsendur, aukna tækni og vísindaþekkingu. Ráðstöfun ríkisins á þjóðlendum sínum mun vissulega takmarkast við skipulag miðhálendisins.

Við skulum velta því aðeins fyrir okkur hver er réttlætingin fyrir því að sveitarfélög ættu að fara með valdið og ábyrgðina. Stundum hefur nálægð sveitarfélags við öræfi landsins, sérstök þekking heimamanna eða langvarandi nýting þeirra á svæðinu verið notað sem rök fyrir því að staðbundin stjórnvöld væru betur fær til þess en aðrir að fara með stjórn þessara svæða. Þetta er ekki rétt því stór hluti þeirra svæða sem frv. gerir ráð fyrir að skipt verði upp á milli sveitarfélaganna er í órafjarlægð frá viðkomandi sveitarfélögum. Um er að ræða víðfeðm svæði sem lítil eða engin umferð hefur verið um frá upphafi byggðar. Má nefna í því sambandi allt Ódáðahraunið, svæðið norðan Vatnajökuls, Sprengisand, Nýjadal, Veiðivatnasvæðið og svæðið fyrir norðan Tungnaárjökul svo og alla jökla landsins, þar með talið sjálfan Vatnajökul. Þessir hlutar landsins opnuðust mönnum ekki fyrr en um miðbik þessarar aldar og þá fyrir tilstilli áhugamanna um útivist enda eru örnefni á þessum stöðum sjaldan eldri en hálfrar aldar gömul. Bændur nýttu þessi svæði ekki og lítil sem engin umferð var um þessi víðfeðmu svæði enda engar þekktar þjóðleiðir. Það er því hvorki þekking sveitarfélaganna á þessum svæðum, nálægð við þau né langvarandi nýting umfram aðra sem rökstutt gæti kröfu þeirra um alger umráð óbyggðanna. Þvert á móti hefur áhugafólk um útivist úr þéttbýlinu verið hvað ötulast að nýta þessar víðáttur.

Langvarandi heimild til búfjárbeitar á afréttum skapar heldur engan eðlilegan grundvöll fyrir því að stjórnsýsluyfirráð í nútímaskilningi flytjist enda er það óeðlilegt að afréttarrétthafinn sjálfur fari með þann þátt skipulagsmála sem ákvarðar t.d. gróðurvernd sem felst í beitarfriðun.

Þetta frv. var sent 190 umsagnaraðilum. Þar af voru 14 félagasamtök en aðeins fá skiluðu umsögnum. Sveitarfélögin, sem sendu inn umsagnir og svöruðu, lýstu sig flest samþykk frv. með smávægilegum athugasemdum utan þess fjölmennasta sem kemur ekki að skipulagsmálum á miðhálendinu samkvæmt frv. Í bókun Reykjavíkurborgar var gerð alvarleg athugasemd við frv. en þar segir orðrétt:

,,Mikilvægt er að miðhálendið sé ein skipulagsleg heild þótt stjórnsýsluleg ábyrgð skiptist á milli sveitarfélaganna.``

Í umsögn Félags leiðsögumanna kemur fram að um nýtingu óbyggða Íslands verði að ríkja einhugur meðal þjóðarinnar. Þar segir einnig:

,,Landsmenn allir verða að ráða hvar byggingar og aðrar verklegar framkvæmdir verða og einnig hvaða svæði eru friðuð eða umferð takmörkuð. Félagið telur að slíkum einhug verði stefnt í hættu ef einungis þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendi Íslands hafi þar lögsögu. Það er afar vont að ekki skuli liggja fyrir formleg umsögn frá Ferðafélagi Íslands, Útivist, Ferðamálaráði, Félagi ísl. landslagsarkitekta, Félagi ísl. náttúrufræðinga, Félagi skipulagsfræðinga, Arkitektafélagi Íslands, Orkustofnun og Skotveiðifélaginu. Margir fulltrúar félaga og félagasamtaka komu þó fyrir nefndina og komu þar fram sterkar efasemdir um skiptingu hálendisins upp milli sveitarfélaganna.``

Virðulegi forseti. Ég lýsti í upphafi máls míns tillögu jafnaðarmanna eða minni hlutans um miðhálendið sem sjálfstæða stjórnsýslueiningu. Þar er lagt til að miðhálendi Íslands verði sérstök stjórnsýsluleg heild sem lúti einni stjórn með aðkomu fulltrúa allra landsmanna. Að öðru leyti skiptist landið í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.

Þá er lagt til að bráðabirgðaákvæði frv. verði fellt niður en inn komi nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem mælt verði frekar um mörk og fyrirkomulag hins sérstaka stjórnsýsluumdæmis miðhálendisins Íslands. Nákvæm mörk miðhálendisins skipta ekki höfuðmáli þar sem eingöngu er verið að ákvarða lögsögu stjórnsýslunnar en ekki verði hróflað við eignar- eða afnotarétti á miðhálendinu. Veigamesti þáttur stjórnsýslunnar eru skipulagsmálin sem leggja grunn að framtíðarmótun hagnýtingar hins viðkvæma svæðis, friðun, stýringu ferðamanna inn á svæðið, beitarafnotum, landgræðslu og umferð manna og búfénaðar.

Það er mikilvægt að nú þegar verði ráðist til atlögu við helstu vandamál miðhálendisins og þau sem ekki mega bíða því mörg viðkvæm svæði liggja undir skemmdum vegna aukins ágangs manna og dýra vegna skipulagsskorts. Þá liggur beinast við að setja í gang nauðsynlega forvinnu, svo sem víðtækar rannsóknir á þessu svæði sem síðan verði grundvöllur að stefnu um landnýtingu, landnotkun, friðun, friðlýsingu og ferðamál á þessu svæði. Þegar þetta liggur fyrir er hægt að ráðast í gerð landsskipulags sem nær til landsins alls þar sem mörkuð verði stefna og teknar bindandi ákvarðanir í veigamiklum atriðum. Þá er hægt að fara að skipuleggja svæðið.

Tryggja verður að fulltrúar fagráðuneytanna komi að stjórn þeirri er fer með stjórnsýsluna á miðhálendi Íslands svo og fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga.

[16:30]

Verði tillaga minni hlutans samþykkt er nauðsynlegt að breyta skipulags- og byggingarlögum með tilliti til sérstöðu miðhálendisins þar sem önnur ákvæði laganna geta eðli máls samkvæmt ekki átt við. Stjórn þessa sameiginlega svæðis gæti síðan framselt ákveðna þætti stjórnsýslunnar til sveitarfélaganna.

Virðulegi forseti. Enn einu sinni verður íslenska þjóðin vitni að því hvernig Framsfl. og Sjálfstfl. skipta á milli sín verðmætunum í þjóðfélaginu. Sjálfstfl. hefur gulltryggt hagsmuni manna sinna með yfirráðum yfir auðlindum þjóðarinnar í hafi, öllum fiskimiðunum og keppist við, eins og þjóðin veit, að verja það kerfi sem tryggir hinum fáu útvöldu ókeypis aðgang að þeirri auðlind.

Nú hafa ríkisstjórnarflokkarnir samið um ítök Framsfl. á auðlindum þjóðarinnar til landsins. Með frv. þessu er verið að tryggja fáum sveitarfélögum yfirráðarétt yfir verðmætum auðlindum okkar sem er ekki minna virði en allur fiskurinn sem við erum að veiða í dag. Hér er komið gamla helmingaskiptakerfið milli þessara flokka sem þeir hafa teiknað í sögu þjóðarinnar og afleiðingarnar sjást alls staðar sem fjármuni er að finna.

Eftir stendur fólkið í landinu allslaust. Búið er að svipta það auðlind sinni í hafi og nú á að svipta það sameign sinni á miðhálendinu. Það stendur meira að segja til að svipta það rétti sínum til friðhelgis með frv. sem frestað hefur verið í nokkrar vikur. Ég sagði fyrr í ræðu minni að orðið ,,valdníðsla`` komi upp í hugann. Hroki, virðingarleysi, yfirgangssemi og fyrirlitning. Hvaða mynd hefur þessi ríkisstjórn af fólkinu í landinu?

Virðulegi forseti. Ég hef lagt á það mikla áherslu hvað verið er að taka afdrifaríka og óafturkræfa ákvörðun til framtíðar með þessu frv. Ef landinu er öllu skipt upp í sveitarfélög þá er það skref sem verður ekki aftur tekið. Þetta er því ein mikilvægasta ákvörðun sem komið hefur til kasta löggjafans hin síðari ár. Verði þessi breyting á skipan landsins alls þvinguð í gegnum þingið á grundvelli þingstyrks stjórnarflokkanna er hætt við að þar verði um hæpinn minnisvarða stjórnarflokkanna að ræða þegar frá líður. Meiri hluti landsmanna mun aldrei sætta sig við þetta til frambúðar. Það er ljóst að skipting hálendisins milli sveitarfélaganna byggir á gömlum og íhaldssömum hugsunarhætti þar sem einstökum hreppum og sveitarfélögum eru falin aukin völd í málefnum sem varða þjóðina alla. Þetta hefur ekkert að gera með hugmyndina um aukið sjálfstæði og völd sveitarfélaganna í eigin málefnum. Sú þróun mun halda áfram ef rétt er á málum haldið.

Þá er og rétt að undirstrika þá veigamiklu staðreynd að tillaga minni hlutans byggir ekki á því að taka vald af sveitarfélögunum. Hún gerir ráð fyrir að sveitarfélögin fari áfram með valdið en hún gerir ráð fyrir því að fleiri komi að þessu valdi.

Virðulegi forseti. Ég ætla í lok máls míns að minna á ný á áskorun þeirra fjölmörgu sem skoruðu á Alþingi og ríkisstjórn og hvetja til þess að staldrað sé við og orðum þeirra gefinn gaumur. Til þess að freista þess að samstaða náist um að þetta mál í sumar, að því verði unnið og fleiri aðilum hleypt að því, munum við jafnaðarmenn flytja tillögu um að málinu verði vísað til ríkisstjórnar í trausti þess að þar verði unnið að málinu og það komi með farsælli blæ til baka.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu en mun í síðari ræðu minni í dag koma nánar inn á þá þætti sem tilheyra sveitarstjórnarfrv., brtt. sem ég tel minni háttar, ef þurfa þykir.