Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 16:36:02 (5798)

1998-04-28 16:36:02# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[16:36]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Fram kom í máli síðasta ræðumanns að nú þekja sveitarfélögin hluta Íslands og með samþykkt þessa frv. væri verið að færa framkvæmdarvaldið á helmingi Íslands, sumir segja 40%, til sveitarfélaganna. Þetta er ekki rétt. Þetta taldi ég sjálf um tíma en þetta er ekki rétt. Afréttir falla undir sveitarfélög í dag þannig að við erum einungis að tala um jökla og smáræmu efst á miðhálendinu, sem eru ekki undir afréttum, sem bætast núna við.

Ég get hins vegar verið sammála síðasta ræðumanni um að eitt stjórnsýslusvæði gæti verið góð leið til þess að ná utan um skipulagsþáttinn því þannig væri svæðið ein skipulagsleg heild og hugsanlega kæmu fleiri að skipulagsmálum en einungis hrepparnir sem eru aðliggjandi. Einmitt þess vegna hef ég sett fyrirvara á þetta mál ásamt hv. þm. Pétri Blöndal.

Það á að taka á þessu máli í samkomulagi sem á að dreifa í dag og hæstv. umhvrh. gerir grein fyrir hér á eftir að í því samkomulagi, stjfrv., er gert ráð fyrir því að miðhálendið verði heildstætt skipulagssvæði og það verði aðkoma fulltrúa af öllu landinu, þ.e. Reykjavík, Reykjanesi og Vestfjörðum og ríkisvaldinu, sem koma að þeirri vinnu. Þannig verður náð eiginleikum eins stjórnsýslusvæðis, nánast öllum eiginleikum slíks svæðis. Að vísu er þar ekki inni heilbrigðiseftirlit og önnur verkefni sveitarfélaga eins og öldrunarþjónusta, skólamál og annað, sem skiptir hvort eð er engu máli af því að það eru engir íbúar uppi á miðhálendinu.

Ég heyrði að hv. síðasti ræðumaður taldi að jafnaðarmenn vildu hafa eina stjórnsýslu og skipulagslega heild á miðhálendinu. Það er verið að koma til móts við þessi sjónarmið, þetta verður ein skipulagsleg heild. Önnur verkefni sveitarfélaga eru út undan en þau skipta ekki máli uppi á miðhálendinu.