Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 16:48:48 (5808)

1998-04-28 16:48:48# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[16:48]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þegar Alþfl. fór með umhverfismálin og skipulagsmálin gátu sveitahrepparnir leyft sér að skipuleggja á hálendinu í leyfisleysi ýmsar byggingar án þess í sjálfu sér að spyrja kóng eða prest. Með þeim lögum sem verið er samþykkja nú og samþykkt voru í fyrra og er verið að breyta núna reyndar, ekki til að víkka það ákvæði heldur að þrengja það, þá er komið í veg fyrir slíkt skipulagsleysi sem ríkti meðan Alþfl. réð yfir skipulagsmálum á hálendinu. Það er nefnilega staðreynd málsins, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, að með þessum breytingum sem núverandi meiri hluti hefur gert á skipulagslögunum er verið að reyna að ná tökum á því stjórnleysi sem ríkti þarna og var farið að valda verulegum erfiðleikum á hálendinu, sérstaklega á viðkvæmum ferðamannastöðum. Ég held að hv. þm. ætti aðeins að fletta upp í þeim gögnum sem eru til frá því kjörtímabili sem hún réð og þá áttar hún sig kannski á misskilningnum sem er uppi í málflutningi hennar.