Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 16:51:18 (5810)

1998-04-28 16:51:18# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[16:51]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það liggur við að talsmaður Alþfl. eða þingflokks jafnaðarmanna sé að setja þingmet í lýðskrumi. Ég hef vakið athygli á því oftar en einu sinni þegar þessi mál hefur borið á góma hvernig á þessum málum hefur verið tekið undanfarin átta ár. Alþfl. ber meiri ábyrgð en nokkur annar flokkur í þinginu á þessum tíma á þeim farvegi sem þessi mál fóru í. Ég bið menn, þar á meðal fjölmiðla- og þingmenn, að lesa 455. mál frá 116. löggjafarþingi, frv. til laga um breytingu á skipulagslögum. Þar er verið að afla heimilda fyrir þær héraðsnefndir sem hafa unnið að svæðisskipulagi miðhálendisins og sem hæstv. fyrrv. umhvrh., Össur Skarphéðinsson, setti af stað. Í greinargerðinni stendur skýrt að það komi fleira til. (ÖS: Samkvæmt lögum.) Samkvæmt lögum? Við skulum rétt fara betur yfir það í umræðum á eftir og það stendur fleira í greinargerð sem ég mun rifja upp síðar í þessari umræðu.