Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 16:52:55 (5811)

1998-04-28 16:52:55# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[16:52]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki mun ég fella tár þó að Hjörleifur Guttormsson komi hér enn einu sinni upp og lýsi ábyrgð á hendur Alþfl. og ekki heldur þó hann ásaki mig um lýðskrum. Ég hef fylgt minni sannfæringu í málflutningi eins og ég hef alltaf gert og hann veit, en í hvert skipti sem umhverfismál hefur borið á góma og málefni hálendisins hefur hann komið og ráðist á Alþfl. Hins vegar sagði hann sjálfur skilmerkilega í umræðu fyrr í vetur að umhvrh. Alþfl. hefði borið inn tillögu um eitt stjórnsýslu- og skipulagssvæði á hálendinu en þingið hefði hafnað því.

Ég hins vegar hef hugsað um Alþingi þannig að jafnvel þó þingmaður hafi fengið samþykkta tillögu 1971 um að upprekstrarsvæði skuli tilheyra sveitarfélögum og jafnvel þó Alþingi Íslendinga hafi hafnað tillögu frá Eiði Guðnasyni og sent til baka hugmynd um samvinnunefnd sem ekki gaf neina forskrift að því að deila landinu upp í sveitarfélög, þá sé óviðfelldið að sífellt skuli vera komið hér með þeim hætti sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerir.