Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 16:58:10 (5815)

1998-04-28 16:58:10# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[16:58]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsti því yfir að ég mundi ekki fjalla um meginefni frv. til sveitarstjórnarlaga sem er mjög í takt við þau lög sem gilda í dag og sem hafa ekki fengið mjög miklar athugasemdir sveitarfélagnana og brtt. meiri hlutans eru ekki stórvægilegar. Ég tjáði Alþingi að ég mundi fjalla um það nánar í síðari ræðu minni í kvöld og jafnaðarmenn mundu taka afstöðu til tillagna eftir því sem þurfa þykir.

Þetta frv. var rifið með offorsi úr félmn. þrátt fyrir miklar almennar óskir um að það yrði ekki gert a.m.k. fyrr en næsta dag í fjarveru undirritaðrar sem sótti það fast að geta verið viðstödd er málið væri tekið út. Því var ekki ansað. Málið var tekið út á fyrsta degi þriggja samfelldra daga til nefndastarfs og því má vera að jafnaðarmenn velji það að leyfa meiri hlutanum að eiga þetta mál sitt og brtt. Um það höfum við ekki tekið ákvörðun.