Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 17:16:32 (5820)

1998-04-28 17:16:32# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[17:16]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nokkrum spurningum var beint til mín. Ég vona að ég hafi náð þeim. Út af fyrir sig var þetta ekki framsaga með frv. enda sagði hv. þm. ,,mælt fyrir með óbeinum hætti``. Það er fyrst og fremst dregið inn í umræðuna til þess að hv. þm., sem hafa ritað undir meirihlutaálit félmn., sé ljós vilji umhvrh. og ríkisstjórnarinnar til að gera breytingar á skipulags- og byggingarlögum og þá lít ég á það sem svar mitt við næstu spurningu hvort frv. sé stjfrv. Það er það, það er samþykkt af ríkisstjórninni og framlagning þess af stjórnarflokkunum hefur verið samþykkt. Þess vegna er það komið hér. Það er nokkru síðar en hefði kannski verið æskilegt. Það hefði kannski mátt vera einhverjum klukkustundum fyrr á borðum hv. þm. Ekki er gert ráð fyrir því að frv. verði afgreitt á þessu vori. Það er seint fram komið og það hefur ekki fengið víðtæka kynningu en þó verið sýnt forsvarsmönnum hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga þannig að þeir vita af tilurð frv. og efni þess.

Áðan gerði ég aðeins grein fyrir því svæðisskipulagi sem er nú í vinnslu en ég get ítrekað að núverandi svæðisskipulagsnefnd hefur fengið frest til vinnu sinnar til 1. des. Ég álít að það sé nokkuð ljóst að það muni ekki klárast fyrir áramót að vinna þannig úr þeim athugasemdum sem þar liggja fyrir og svæðisskipulagsnefndin er þegar með til úrvinnslu. Skipulagsstofnun, sem skal leggja tillögur fyrir ráðherra, mun varla klára það fyrir áramót þannig að hin nýja nefnd sem til verður ef þetta frv. verður samþykkt þó það verði ekki fyrr en á haustþingi. Þegar hún kemur til starfa um áramót mun hún geta komið að málinu eins og 2. gr. þessa frv. gerir ráð fyrir. Ég vonast til þess að það takist að staðfesta svæðisskipulag miðhálendisins. Ég tel að það sé afar mikilvægt. Það er eindregin skoðun mín. Frv. hefur verið kynnt núverandi nefnd, að vísu ekki fullskipaðri, en ég hef átt fund með meiri hluta svæðisskipulagsnefndarinnar og þeim hefur verið sagt efnislega frá frv. þessu og hvað er á ferðinni.