Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 17:38:04 (5824)

1998-04-28 17:38:04# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[17:38]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Af því að hv. þm. Árni Mathiesen tók svo til orða að umhvrh. Alþfl. hefðu beitt sér fyrir skipan þeirrar svæðisnefndar sem hér hefur lítillega komið til umræðu þá er vert að geta eftirfarandi:

Árið 1993 samþykkti þingið með öllum greiddum atkvæðum þá breytingu á skipulagslögum að skipuð skyldi slík nefnd. Það var í tíð þáv. umhvrh. Eiðs Guðnasonar. Þegar ég var orðinn umhvrh. kom það í minn hlut að skipa þessa nefnd. Hv. þm. var að vísu ekki að fetta fingur út í það heldur fagnaði þeirri skipun. En ég vil einungis árétta að þegar ég gerði það, þá var ég að fylgja lögum sem hið háa Alþingi hafði sett. Ég átti auðvitað engan annan kost en gera það.

Ég vildi þó koma aðallega upp til að spyrja hv. þm. um eftirfarandi: Telur hann að það sé til bóta að með þeim breytingum sem hæstv. umhvrh. kynnti áðan er búið að tryggja aðkomu fulltrúa hinna stærri sveitarfélaga eins og Reykjavíkur og líka þeirra sem búa í Reykjanesi en liggja ekki beint að miðhálendinu? Það er til bóta, ég tek undir það með hv. þm. Það er skref fram á við og sannarlega til bóta. En ef við horfum til þess, herra forseti, að á þessu svæði búa 67% allrar þjóðarinnar, þ.e. í Reykjanesi og Reykjavík samanlagt. Þessi stóri hópur fær einungis þrjá fulltrúa til þess að véla um miðhálendið sem sannarlega er nýtt til útivistar fyrst og fremst af þessu fólki, þá spyr ég hv. þm.: Telur hann virkilega að þetta sé nóg? Telur hann að þetta sé sanngjarn hlutur sem þessi stóru byggðarlög fá samkvæmt þessum breytingum sem hér eru lagðar fram og eru óhjákvæmilega undir í umræðunni?