Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 17:43:47 (5827)

1998-04-28 17:43:47# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[17:43]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hagsmuni þess fólks sem ég er kjörinn á Alþingi fyrir sé hægt að tryggja með núgildandi 12. gr. Ég geri mér hins vegar ljóst að það er tortryggni gagnvart þeirri skipan mála og því tel ég að ganga þurfi til móts við þá tortryggni, eyða henni með því að styrkja það fyrirkomulag sem 12. gr. gerir ráð fyrir. Ég tel að það frv. sem hæstv. umhvrh. lagði fram í dag geri það ekki nægjanlega vel. Ég met hins vegar þann vilja sem kemur fram í að leggja það fram núna á þessu stigi málsins og við höfum möguleika til þess að vinna í málinu í sumar og klára málið á haustþinginu þannig að það sé klárt fyrir næstu áramót þegar hálendisskipulagstillagan á að vera tilbúin eða reyndar í desember í lok ársins. Þannig tel ég að við eigum að geta staðið að málinu og þá þurfi ekki að vera nein vandkvæði.

Hins vegar ef ekki næst samkomulag eru lagaheimildirnar í dag þess eðlis að hæstv. umhvrh. getur gert nákvæmlega þá hluti sem ég vil að gerist. Hann hefur heimildir til þess og þá vil ég að hann axli hina pólitísku ábyrgð á því að allir þeir sem hagsmuna eiga að gæta á miðhálendinu fái að koma að þeirri vinnu sem felst í því að gera svæðisskipulag á miðhálendinu.