Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 17:45:30 (5828)

1998-04-28 17:45:30# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[17:45]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu stór og mikill lagabálkur, öllu heldur frv. til sveitarstjórnarlaga. Í þessu frv. eru sveitarstjórnarlögin tekin til heildstæðrar skoðunar enda hefur þetta kallað á mikla vinnu, umsagnir fjölmargra aðila og fyrri tillögur og frumvörp sem hafa komið til kasta þingsins hafa einnig verið skoðuð í því samhengi. Það má t.d. geta þess að frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur flutt á Alþingi í tvígang þar sem er að finna tillögur um sitthvað sem lýtur að skilgreiningum og stjórnsýslu sveitarfélaganna, er fellt inn í þetta frv. sem ríkisstjórnin lagði fram. Í þessari endurskoðun er kafli um kosningar felldur út úr sveitarstjórnarlögunum enda hefur verið tekið á þeim málum í öðru frv. sem hefur fengið samþykki á Alþingi og er orðið að lögum.

Ég ætla að gera að umtalsefni ýmsar greinar frv. en víkja fyrst að þeim hluta frv. sem hefur kallað á mestar umræður hér og snýst um skipulagsmál. Það er 1. gr. frv. þar sem segir að landinu skuli skipt í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð. Ég er í hópi þeirra alþingismanna sem telja að óheppilegt og óeðlilegt sé að skipulags- og byggingarmálum miðhálendisins sé skipt milli fjölmargra sveitarfélaga sem eiga sér enga samsvörun í lögun og landslagi. Ég hef skipað mér í hóp þeirra sem vilja tryggja það meginmarkmið að miðhálendið sé skipulagt sem ein heild og að í skipulagi miðhálendisins sé tekið rækilega tillit til umhverfisþátta, umhverfissjónarmiða.

Hér höfum við átt samleið, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, form. félmn., sem hefur leitt starf þingnefndarinnar mjög vel og við skrifum undir álitsgerð um frv. með fyrirvara sem lýtur m.a. að þessum þætti. Okkar fyrirvari er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Kristín Ástgeirsdóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara sem m.a. lýtur að því að gera þurfi breytingu á skipulags- og byggingarlögum samhliða afgreiðslu þessa frumvarps eigi skipulag hálendis Íslands að vera með ásættanlegum hætti. Þær breytingar verði að fela í sér á afdráttarlausan hátt að miðhálendið verði skipulagt sem heild og að fleiri komi að þeirri vinnu og ákvarðanatöku en aðliggjandi sveitarfélög. Er þar átt við fulltrúa tilnefnda af ríkinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd þjóðarinnar allrar.``

Hvers vegna höfum við lagt áherslu á þessa þætti? Ég held að rökin séu þríþætt. Það eru lýðræðisleg rök. Það eru rök sem flokka má sem umhverfisrök eða sem lúta að umhverfismálum og það eru hagkvæmnisjónarmið.

Ef ég vík fyrst að hinum lýðræðislega þætti þá er óeðlilegt að einvörðungu þau sveitarfélög sem eru aðliggjandi hálendinu komi að þessum málum eða fulltrúar íbúa þeirra sveitarfélaga. Við teljum það óeðlilegt. Hins vegar verð ég að segja alveg eins og er að ég gef mjög lítið fyrir allan prósentureikning í þessum efnum. Því er haldið fram að komi einvörðungu íbúar þeirra sveitarfélaga sem liggja að hálendinu að skipulagi hálendisins þá séu þar aðeins á ferðinni fulltrúar 30% þjóðarinnar eða þaðan af minna og 70% þjóðarinnar hér á þéttbýlissvæðinu komi þar hvergi nærri málum. Ég gef mjög lítið fyrir röksemdir af þessu tagi. Ég minni á að Íslendingar hafa nú ekki látið það trufla sig á vettvangi Sameinuðu þjóðanna svo dæmi sé tekið þótt við höfum sama atkvæðisvægi og t.d. Indverjar, þjóð sem er mörg hundruð milljónir manna. Og við höfum ekki látið það trufla okkur mjög mikið á vettvangi Norðurlandasamstarfs þótt ekki sé í einu og öllu og öllum ákvörðunum taldir hausarnir sem búa að baki hverjum fulltrúa um sig þannig að ég gef mjög lítið fyrir þennan prósentureikning sem menn eru bæði að setja á blað og halda fram í ræðustól.

Engu að síður finnst mér eðlilegt að fulltrúar sveitarfélaga á öllu landinu komi að allri ákvarðanatöku. Vissulega getur fámennið haft varasamar afleiðingar þegar kemur að skipulagi óbyggðanna eða skipulagi yfirleitt. Til dæmis er ástæða til að ætla að mjög fámenn fjárhagslega vanmegna sveitarfélög ráði tæpast við þessi mál eins og þörf er á. Mér finnst ástæða til að nefna að fjárhagurinn eða fjárþörfin má ekki skipta menn of miklu máli þegar verið er að ráðstafa þessari sameiginlegu eign þjóðarinnar sem við ætlum að vernda til ókomins tíma fyrir ókomnar kynslóðir. Við þurfum að fara mjög gætilega í allt skipulag á hálendinu og það er óeðlilegt og getur verið varasamt að fjárvana aðilar komi þar að málum um of. Það þarf að tryggja jafnvægi í allri ákvarðanatöku. Þetta var um hinn lýðræðislega þátt.

Umhverfisrökin vega mjög þungt. Ekki er nóg með að óeðlilegt sé að skipulagt sé þvert á landslagsheildir svo sem jökla, hraunbreiður, sanda og gróðurbletti svo vitnað sé í þann fyrirvara sem hv. þingmenn Siv Friðleifsdóttir og Pétur H. Blöndal settu í álitsgerð sinni um frv. heldur er ljóst að taka þarf rækilega mið af umhverfisþáttum. Það var athyglisvert í umfjöllun um frv. hvernig þeir sem lögðu áherslu á heildstætt skipulag nálguðust viðfangsefnið úr tveimur ólíkum áttum. Annars vegar voru það eindregnir umhverfissinnar sem vildu að þeir sem skipulegðu þetta svæði ættu ekki fjárhagslegra hagsmuna að gæta sérstaklega þegar um er að ræða fjárvana aðila eins og fámenn, fjárvana sveitarfélög og hins vegar var það orkugeirinn sem varaði við þeim erfiðleikum sem það gæti haft í för með sér að margir aðilar kæmu að málum, t.d. þegar verið væri að skipuleggja virkjunarframkvæmdir. Það var athyglisvert að menn nálguðust þetta úr tveimur mjög ólíkum áttum. (ÖS: Hver er niðurstaða þingmannsins af því?) Niðurstaða þingmannsins af því er sú að að sjálfsögðu á að skoða hagkvæmnissjónarmið. Það á að vera auðvelt að skipuleggja miðhálendið. Ég legg höfuðáherslu á umhverfisþáttinn. Ég legg mjög mikla áherslu á umhverfisþáttinn og þess vegna hef ég lagt áherslu á að svæðið sé skipulagt heildstætt og að umhverfissjónarmið vegi mjög þungt.

Hér hefur verið lögð fram tillaga af hálfu ríkisstjórnarinnar um breytingu á skipulags- og byggingarlögum. Ég get lýst því yfir að ástæðan fyrir því að ég var reiðubúinn að skrifa undir þetta frv., með fyrirvara þó, var sú að mér var kunnugt um að vilji væri til að ná fram málamiðlun af því tagi sem hér hefur verið kynnt. Það er ástæðan fyrir því að ég sá mér fært að styðja þetta frv. þrátt fyrir þær ólíku áherslur sem ég hef og hér hafa farið saman sjónarmið okkar hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur.

Í tillögum ríkisstjórnarinnar, því frv. sem hæstv. umhvrh. kynnti hér áðan, segir að umhvrh. skuli skipa:

,,... samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins til fjögurra ára í senn að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Sveitarfélög, sem liggja að miðhálendinu, tilnefna samtals tólf fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir fjóra fulltrúa og skulu tveir þeirra eiga búsetu í Reykjavík, einn á Reykjanesi og einn á Vestfjörðum, félagsmálaráðherra tilnefnir einn og umhverfisráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður.``

Ég ætla ekki að vitna meira í þessa lagagrein en hér er verið að skipa nefnd sem svarar þessum lýðræðislega þætti að tryggja að fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem ekki liggja að hálendinu fái aðkomu að málinu með tveimur fulltrúum úr Reykjavík, með fulltrúa af Reykjanesi og með fulltrúa af Vestfjörðum. Það sem mér finnst skipta miklu máli líka er að fulltrúar ríkisvaldsins hér eru auk félmrh. umhvrh. og þetta voru þau meginmarkmið sem við lögðum áherslu á. Og þetta eru þau meginmarkmið sem Alþb. og þingfl. Alþb. og óháðra hefur lagt áherslu á, þ.e. að tryggja heildstætt skipulag þar sem umhverfissjónarmið vegi þyngst. Þetta voru þau meginmarkmið sem við lögðum áherslu á. En ég legg áherslu á eitt. Það er að þessar lagabreytingar sem hér eru lagðar til, breytingar á skipulags- og byggingarlögum nái fram að ganga í vor. Við munum ekki fallast á að þetta frv. verði látið bíða til haustsins heldur er það afdráttarlaus krafa af okkar hálfu að þær tillögur sem hér eru lagðar fram nái fram að ganga sem lög frá Alþingi í vor samhliða hinu frv. Þetta er lykilatriði sem við leggjum mikla og ríka áherslu á.

[18:00]

Ég gat um það í upphafi máls míns að ég ætlaði að víkja að öðrum greinum frv. einnig, ekki aðeins 1. gr. og öllu sem henni fylgir, heldur öðrum lagagreinum líka. Ég vil þá fyrst víkja að 7. gr. frv. sem er svohljóðandi með leyfi forseta:

,,Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum.

Sveitarfélög skulu vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma.

Sveitarfélög geta tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum.

Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.``

Hér hefði ég viljað setja punktinn í lokamálsgreininni heldur fyrr en gert er. Ég ætla að endurtaka lokamálsgreinina, hún er svohljóðandi: ,,Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana ...`` Punktur. Hér hefði ég viljað ljúka þessari setningu, því að framhaldið er þetta: ,,... til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.``

Hér er kominn mjög takmarkandi þáttur á möguleikum sveitarfélagsins til að ráðstafa því gjaldi sem fæst fyrir selda þjónustu. Hér er takmarkandi þáttur á ferðinni, og mér finnst vera gegnumgangandi í allri lagasetningu í dag að reyna með öllum ráðum að takmarka vald lýðræðislega kjörinna stjórna, hvort sem það eru stjórnir ríkisstjórna eða sveitarstjórna. (Gripið fram í.) Varðandi rétt ríkisstjórna til að fara sínu fram, þá eru það EES-skuldbindingar og reglugerðir margvíslegar sem setja stjórnvöldum skorður, og hér er verið með lagasetningu að takmarka vald sveitarstjórna.

Hér er bent á það úr sal að það sé ekki í samræmi við stjórnarskrá landsins að sveitarstjórn stofni til skattheimtu af þessu tagi. Við höfum náttúrlega oft deilt um það í þingsal og í þjóðfélaginu almennt hvernig eigi að skilgreina skatta. Eru komugjöld á heilsugæslustöðvar, margvísleg gjaldtaka í heilbrigðiskerfi og annars staðar skattar eða gjöld? Þetta er að ýmsu leyti grátt svæði sem við erum komin inn á hvernig skilgreina eigi þessa hluti nákvæmlega.

Þegar óeðlilega mikill arður var tekinn af t.d. hitaveitunni og þegar stjórnvöld í Reykjavík ákváðu að nota þann arð til að búa til eitt stykki veitingahús, Perlu --- sem mér finnst nú reyndar ágætlega falleg --- án þess að það hafi verið borið undir kjósendur eða um það hafi farið fram eðlileg umræða, þá sé eðlilegt að gera það sem kjósendur í Reykjavík gerðu. Þeir gáfu þeim sem þar stýrði ferðinni og lét stjórnast af því einu að rétta puttann upp í loftið við alla áætlanagerð, þeir gáfu þeim aðila reisupassann. Þetta er það aðhald sem ég tel að við eigum að búa við, aðhald frá kjósendum, frá fólkinu, en ekki aðhald frá reglugerðum og lögum umfram það sem nauðsynlegt er. Ég tel að með þessari þrengingu hér séum við þrengja um of að lýðræðislega kjörnum stjórnum.

En nú var ljóst að yrði þetta samþykkt þá yrði þetta mjög þrengjandi fyrir hlutafélög í eign sveitarstjórna. Við vitum að það er mjög vinsælt nú um stundir, það er tískan í dag að stofna hlutafélög um alla starfsemi, það er hluti af markaðsvæðingu samfélagsins sem er haldið á lofti og fylgt eftir af stjórnmálafylkingum sem standa til hægri og einnig þeim sem kenna sig við félagshyggju en fara fram undir fánum markaðshyggjunnar, reyndar ekki undir fánum markaðshyggjunnar en í reynd fylgja þeir þeirri stefnu. Þá hafa menn óttast að með þessari lagagrein sé verið að þrengja möguleika sveitarstjórna, sem skipuleggi hluta síns rekstrar, til þess að taka arð umfram það sem á að nota til beinna þarfa hér og nú. Vegna þess að niðurlagið á lagagreininni er þetta:

,,Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.``

Menn hafa því óttast að þetta kynni að setja sveitarstjórnum, sem eru með fyrirtæki eða reka einhver fyrirtæki hvort sem það eru orkufyrirtæki eða önnur fyrirtæki, of þröngar skorður. Þess vegna er komin fram tillaga um breytingu sem ég ætla að hafi komið fyrir ábendingar frá sveitarfélögunum, sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Við 7. gr. bætist ný málsgrein er orðist svo:

Sveitarfélög skulu setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og er heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra.``

Hér telja menn sem sagt nauðsynlegt að skapa sveitarfélögum, sem eru með einhvern atvinnurekstur á sinni könnu, möguleika til að afla arðs. Það er það sem þessi lagabreyting gengur út á. Reyndar var það nú svo að fyrst í umfjöllun þótti þetta orka nokkuð tvímælis og ég hélt því fram að menn væru að gera þá kröfu til allra stofnana á vegum sveitarfélaga að þær yrðu reknar samkvæmt arðsemissjónarmiðum, --- skólar, sjúkrahús, barnaheimili og leikskólar og þar fram eftir götunum. Á því var ráðin bót í umsögn og allri umfjöllun um frv. þannig að það orkaði ekki tvímælis. Hins vegar þyrfti það ekki að koma neinum á óvart að hugsanir af þessu tagi skytu upp kollinum vegna þess að allt þjóðfélagið er farið að ganga meira og minna út á slíka hugsun, því miður. Ég vona að sá tími renni bráðum upp að þeir sem vilja halda merki félagshyggjunnar á lofti nái að snúa þessari þróun við því ekki veitir af.

Þetta var um 7. gr. frv. og ætla ég að víkja lítillega að 42. gr. frv., sem er svohljóðandi með leyfi forseta:

,,Starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá.``

Það hefur reyndar komið fram brtt. við þessa grein sem bætir ,,nefndum og ráðum`` inn í þessa skilgreiningu. En í athugasemdum um þessa grein lagafrv. segir, með leyfi forseta:

,,Greinin samsvarar 59. gr. gildandi laga, en lagt er til að reglan verði þrengd nokkuð. Hún verði þannig látin ná til allra starfsmanna viðkomandi fyrirtækja eða stofnana en ekki eingöngu til forstöðumanna og annarra stjórnenda. Er það gert til að koma í veg fyrir þá aðstöðu að forstöðumaður stofnunar teljist vanhæfur til setu í stjórn þeirrar stofnunar en undirmaður hans geti hins vegar setið í stjórninni. Slík aðstaða þykir óeðlileg í ljósi almennra reglna um hæfi í stjórnsýslunni. Greinin á einungis við um þá sem sveitarstjórnir kjósa beint í nefndir, ráð eða stjórnir, en ekki fulltrúa sem aðrir aðilar tilnefna samkvæmt lögum eða sérstökum samþykktum, t.d. starfsmenn viðkomandi stofnunar.``

Þetta var úr greinargerð með þessari lagagrein.

Ég er í sjálfu sér ekki mjög ósammála þeirri hugsun sem þarna kemur fram. Ég er ekkert viss um að heppilegt sé að pólitískir aðilar skipi starfsmenn þeirrar stofnunar sem þeir starfa hjá í stjórn stofnunarinnar. Ég er ekkert viss um að það sé heppilegt. Ég vek athygli á því að samkvæmt þessari grein þá er ekki tekið fyrir það eða útilokað að starfsmenn eigi sæti í stjórn stofnana, alls ekki, ef þeir eiga lögbundinn rétt til þess eða rétt samkvæmt öðrum samþykktum. En það sem verið er að útiloka er að stjórnmálaflokkar tilnefni starfsmenn viðkomandi stofnana í stjórn þeirra.

En eitt atriði langar mig engu að síður til að benda á í þessu sambandi. Í sambandi við Reykjavíkurborg þá erum við að segja með samþykkt þessarar lagagreinar að allir þeir sem starfa t.d. hjá skólum séu óhæfir í skólaráð og fræðsluráð. Starfi viðkomandi einstaklingur við skóla Reykjavíkur, sé hann starfsmaður þeirra, þá er bannað með lögum að stjórnmálaflokkar, sem fara með stjórn borgarinnar eða eru í stjórnarandstöðu ef því er að skipta, skipi viðkomandi t.d. í fræðsluráð. Mér finnst þetta vafasamt þó ég geti alveg tekið undir hitt að þegar við erum komin inn í stofnun að þá sé óeðlilegt að stjórnmálaflokkur skipi starfsmann þeirrar stofnunar í stjórn hennar. Hins vegar sé eðlilegt, og ég er fylgjandi því --- enda atvinnulýðræði --- að fulltrúar starfsmanna eigi setu í stjórn stofnana og hafi áhrif á gang mála þar. En það er allt annar handleggur.

Þetta er atriði sem ég vildi vekja athygli á við umræðuna. Ég ætla þá að víkja lítillega að 50. gr. frv. Hér segir með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn er skylt að ákveða kjörnum fulltrúum í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélags hæfilega þóknun fyrir þau störf samkvæmt mati sveitarstjórnar í samræmi við reglur er hún setur, svo og greiðslu ferða- og dvalarkostnaðar í samræmi við 35. gr.

Sveitarstjórn er heimilt að ákveða að greiða áheyrnarfulltrúum þóknun fyrir störf þeirra í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélags.``

Þetta var atriði sem við ræddum mikið í nefndinni. Á að skylda sveitarstjórnina eða stjórnvaldið til að greiða fyrir einhver tiltekin störf eða á það að vera lýðræðislegur réttur og ákvörðun viðkomandi sveitarstjórnar hvernig hún hagar sér í þessum málum sem öðrum?

[18:15]

Af hverju er löggjafinn að setja lýðræðislega kjörnum aðilum einhverjar skorður í þessu efni? Ég var á því máli að það ætti ekki að gera þetta, þetta ætti hins vegar að vera heimildarákvæði. Nefndin ræddi þetta mjög rækilega og var um tíma komin á þá skoðun að þetta ætti að vera heimildar\-ákvæði en síðan varð niðurstaðan að þetta skyldi vera skylda og ég er feginn því.

Ástæðan fyrir því að ég tek málið upp hér og vek máls á því er ekki einvörðungu sú að þetta fékk mikla umfjöllun í nefndarstarfinu heldur hitt að tilteknir ráðherrar í ríkisstjórninni, og er ég þar t.d. að vísa til hæstv. menntmrh., eru farnir að taka það upp í lagafrumvörpum sem þeir flytja hér og hafa fengið samþykkt að ekki sé greitt fyrir nefndarstörf. Þetta getur verið bagalegt fyrir fólk sem verður fyrir tekjutapi vegna þess að það er frá vinnu og getur hugsanlega ekki tekið þátt í nefndarsetu eða sinnt lýðræðislegum störfum af fjárhagslegum sökum. Það er svo allt annar handleggur hvernig á að haga greiðslum fyrir nefndastörf, t.d. hjá þeim sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum og eru stundum í vinnutímanum í nefndastörfum. Það finnst mér allt annar handleggur og ég er andvígur slíku.

Fyrir þá sem koma annars staðar að er óeðlilegt annað en greitt sé fyrir nefndastörf. Ég minni á að á síðustu öld þegar verkalýðshreyfingin var að berjast fyrir lýðræðislegum umbótum, t.d. í Bretlandi. Um miðja síðustu öld var það ein höfuðkrafa kröfuskrárhreyfingarinnar í Bretlandi að þingmenn fengju greitt fyrir störf sín og þetta er af sama toga. Við erum að tryggja að fólk geti sinnt lýðræðislegu starfi. Ég nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því að ráðherrar í ríkisstjórninni, og ég vísa sérstaklega til nefndarstarfs sem er unnið á vegum menntmrn. þar sem hefur verið tekin upp sú nýbreytni samkvæmt lögum samþykktum á Alþingi að ekki skuli greitt fyrir nefndarstörf. Ég held að lýðræðinu sé hættulegt að fara út á þessa braut vegna þess að þetta þýðir það og getur haft þær afleiðingar í för með sér að þeir sem hafa litlar tekjur sjái sér ekki fært að sinna starfi af þessu tagi.

Það eru fleiri greinar þessa frv. sem ég vildi ræða og ætla ég að víkja að 74. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ráðherra skipar þriggja manna eftirlitsnefnd sem hefur það hlutverk að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga. Einn fulltrúi í nefndina skal skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera löggiltur endurskoðandi. Þrír varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann nefndarinnar.

Nefndin skal árlega athuga reikningsskil sveitarfélaga og bera þau saman við viðmiðanir skv. 4. mgr. Leiði athugun í ljós að fjármál sveitarfélags stefni í óefni skal nefndin aðvara viðkomandi sveitarfélag og samhliða upplýsa ráðuneytið um álit sitt. Sveitarstjórn er skylt í slíkum tilvikum að gera eftirlitsnefndinni innan tveggja mánaða grein fyrir hvernig sveitarstjórnin hyggst bregðast við aðvörun nefndarinnar.

Þóknun til eftirlitsnefndarmanna skal ákveðin af ráðherra. Þóknunin og annar kostnaður af starfi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Ráðherra setur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga reglugerð um störf og málsmeðferð eftirlitsnefndar og viðmiðanir varðandi fjárhagsleg málefni sveitarfélaga. Fjárhagsviðmiðanir skulu taka til þeirra atriða sem meginmáli skipta við mat á rekstri og efnahag sveitarfélaga.``

Síðan stóð fram að breytingartillögum:

,,Ákvarðanir eftirlitsnefndar eru endanlegar og verða eigi kærðar til ráðherra.``

Síðasta setningin var felld niður samkvæmt breytingartillögum sem fram komu og það finnst mér hið besta mál vegna þess að í þessu var enn og aftur verið að takmarka valdsvið sveitarfélaganna. Verið er að búa til þarna sjálfstætt apparat sem var í rauninni ekki lýðræðislegt og sú tenging hefur verið tekin aftur upp með þeirri brtt. sem kom þarna fram og mér finnst vera mjög góð.

Hins vegar er eitt svolítið sláandi þegar farið var að skoða verksvið þessarar nefndar að þar er vísað í þessa grein þar sem skilgreint er hvað hún á að gera og það er einnig vísað í 61. gr., í setningu sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn skal árlega gæta þess svo sem kostur er að heildarútgjöld sveitarfélags, þar með talin rekstrarútgjöld, fari ekki fram úr heildartekjum þess.``

Í annarri brtt. var búið að taka þennan málslið og setja hann sem sjálfstæða málsgrein. Þegar hlutverk eftirlitsaðilans er skilgreint er vísað m.a. í þennan þátt og aftur er verið að takmarka valdsvið sveitarstjórnarmanna. Ég furða mig svolítið á því hve sáttir fulltrúar sveitarfélaganna voru við þessar breytingar. Þetta er alls ekki gert í andstöðu við þá. Ég er að vekja athygli á þessu hér en þetta er ekki í andstöðu við tillögur sem komu frá sveitarstjórnarmönnum en mér finnst, og það er rauði þráðurinn í því sem ég er að vekja máls á hér, að ekki eigi að takmarka um of valdsvið lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Takmarkanir gagnvart valdinu eiga að liggja í lýðræðinu, í hinu opna samfélagi og lýðræðislegu eftirliti, umræðu en ekki í lögum og reglugerðum af þessu tagi. Ég vek athygli á því aftur að hér er verið að vísa sérstaklega í lagagrein þar sem segir að sveitarfélögin skulu ekki fara fram úr heildartekjum í útgjöldum. Auðvitað vill maður að jafnvægi sé jafnan á milli tekna og útgjalda, fyrr mætti nú vera. Auðvitað á það að vera keppikefli að ná niður skuldum og reka hallalausan búskap. En það geta komið upp aðstæður að það er hreinlega skynsamlegt að ráðast í skuldir til framkvæmda og það á ekkert síður við um sveitarfélög en hjá ríkisvaldinu. Þess vegna þótti mér a.m.k. mjög varasamt að setja eftirlitsnefnd sem hefði endanlegt úrskurðarvald, ætti að starfa samkvæmt skilgreiningum af þessu tagi, að sveitarfélagið mætti ekki ráðast í skuldasöfnun umfram tekjur, hefði endanlegt neitunarvald gagnvart slíkum ráðstöfunum. Þar með væri valdsviði lýðræðislega kjörinna fulltrúa settar of miklar skorður að mínum dómi þannig að ég tel að það hafi alla vega verið til mikilla bóta að fá tenginguna inn í lýðræðið aftur en ég vek athygli á þeim takmörkunum sem mér finnst þessi lagabálkur vera að setja lýðræðislega kjörnum stjórnum.

Eins og ég gat um áðan er um að ræða heildarendurskoðun á stórum lagabálki. Það er ekki um neinar stórvægilegar og miklar breytingar að ræða. Ég vek athygli á því og ítreka að margt af því sem menn hafa vakið máls á í þinginu er að finna í þessu frv. eins og þær tillögur til lagabreytinga sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lagði til og hefur gert á tveimur þingum, 120. og 121. löggjafarþingi, um ýmislegt sem lýtur að stjórnsýslunni og skilgreiningum. Þetta er að finna í þessu frv. og það er mjög vel að svo sé.

Ég ítreka að lokum að við lögðum upp með það af hálfu þingflokks Alþb. og óháðra að tryggja að miðhálendið yrði skipulagsleg eining þar sem fulltrúar allra landshorna kæmu að máli og þar sem umhverfissjónarmið væru virt. Við teljum að með þeirri tillögu sem liggur fyrir um breytingu á skipulags- og byggingarlögum sem hæstv. umhvrh. skýrði áðan frá sé komið til móts við þau sjónarmið sem við höfum verið að beita okkur fyrir og teljum að með málflutningi okkar og með þrýstingi sem við höfum haft uppi höfum við náð niðurstöðu sem er ásættanleg að því leyti að fulltrúar allra landshorna koma að þessu máli og umhverfisþátturinn er styrktur verulega frá því sem áður var. En ég legg áherslu á að sú tillaga að lagabreytingu, það frv., verður að samþykkja í vor og við verðum að fá bindandi skuldbindingar frá ríkisstjórninni um að svo verði vegna þess að fyrirvari okkar er algerlega undir því kominn að þessar lagabreytingar nái einnig fram að ganga.