Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 18:31:43 (5831)

1998-04-28 18:31:43# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[18:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er lofsvert að hv. þm. skuli ekki gera sér rellu út af því að Indverjar og Íslendingar hafi svipað atkvæðavægi hjá Sameinuðu þjóðunum. Hins vegar vill svo til að þetta frv. er ekki að færa Indverjum ráðstöfunarrétt yfir miðhálendinu.

Hv. þm. vék hið minnsta þrisvar að lýðræðinu í ræðu sinni hér áðan. Ég spyr hv. þm.: Hvernig samrýmist það lýðræðishugsjón hans að tveir fulltrúar komi úr þéttbýlasta kjördæmi landsins, þrír fulltrúar samtals frá þeim landshlutum sem 67% þjóðarinnar byggja?

Ég get fallist á að það er falleg og göfug hugsjón hjá hv. þm. að dreifbýlið eigi að koma ríkulega að stjórn miðhálendisins. Ég veit þó, herra forseti, að á bestu bæjum, jafnvel hjá Alþb., greinir menn á. Hvernig reyna menn að gera út um deilur? Þeir reyna að ná málamiðlunum. Gangi það ekki, fara menn hina lýðræðislegu leið sem byggist á atkvæðagreiðslu. Það er alveg ljóst, herra forseti, að ef deilur koma upp innan þeirrar stjórnar sem hér er verið að leggja til, þá mun það snúast um hagsmuni, annars vegar dreifbýlisins og hins vegar þéttbýlisins. Þessir hagsmunir rekast á og valda vandræðum en þá er niðurstaðan gefin samkvæmt því lýðræði sem birtist í þessu frv. Lýðræðið sem hv. þm. Ögmundur Jónasson blessaði í ræðu sinni en er allt öðruvísi en það lýðræði sem hv. þm. hefur um mörg ár innrætt mönnum eins og mér. Ég virði auðvitað hv. þm. og þakka honum að öðru leyti fyrir ræðu hans en ég varð fyrir vonbrigðum með þennan part hennar.