Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 18:35:33 (5833)

1998-04-28 18:35:33# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[18:35]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta er að hér hefur nokkuð gerst sem við þingmenn þurfum að fá frekari skýringar á. Lagt hefur verið fram frv. frá hæstv. umhvrh. um breytingu á lögum um skipulags- og byggingarmál. Sá maður sem öðrum fremur á að fjalla um það mál í þinginu, formaður umhvn., hefur lýst sig andvígan málinu. Sama máli gegnir um oddvita Sjálfstfl. í umræðu um umhverfismál og umhverfisráðherraefni flokksins, Árna Mathiesen. Þannig hafa oddvitar stjórnarflokkanna í umhvn., sem fjalla á um málið, báðir lýst andstöðu sinni við frv. Til viðbótar hefur talsmaður Alþb., hv. þm. Ögmundur Jónasson sem talaði hér áðan, lýst því yfir að af hálfu Alþb. sé það skilyrði fyrir stuðningi við frv. um sveitarstjórnarmál sem hér er til umræðu að frv. um breytingar á lögum um skipulags- og byggingarmál verði afgreitt á þessu vorþingi.

Ég held það sé alveg nauðsynlegt, áður en mikið lengra er haldið, herra forseti, að fá að vita frá forsetum og ráðherra hver hugmyndin er um framgang málsins. Mun hæstv. umhvrh. halda fast við þetta frv. sitt þótt oddvitar stjórnarflokkanna í umhvn. hafi lýst andstöðu við það? Mun hann leggja til eða knýja á um að málið verði afgreitt á þessu þingi til að koma til móts við skilyrði Alþb. um stuðning við frv. um sveitarstjórnarmál? Það er nauðsynlegt að fá að vita þetta, virðulegi forseti, áður en áfram verður haldið.

Það þarf að liggja ljóst fyrir hvort hæstv. umhvrh. heldur fast við frv. þrátt fyrir andstöðu oddvita stjórnarflokkanna við frv. Eins þarf að vera ljóst hvort hann ætlar að verða við skilmálum Alþb. um að tryggja afgreiðslu málsins á þessu vorþingi, eða hvort alþýðubandalagsmenn eigi e.t.v. að ganga til atkvæða um sveitarstjórnarfrv. í trausti þess að frv. umhvrh. verði samþykkt. Eiga þeir kannski að komast að raun um það, eftir að atkvæðagreiðslu er lokið, að það hafi aldrei verið ætlunin?

Það er nauðsynlegt, herra forseti, að fá þetta upplýst. Ég geri það að tillögu minni, ef ég má, að hæstv. forseti ræði þessa stöðu við formenn þingflokkanna í kvöldmatarhléinu og gefi okkur alþingismönnum síðan vitneskju um þær hugmyndir sem eru um framgang málsins.