Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 18:42:03 (5836)

1998-04-28 18:42:03# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[18:42]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel að spurningar hv. þm. Sighvats Björgvinssonar hafi átt fullan rétt á sér, ekki síst eftir ræðu hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Lítum yfir umræðuna eins og hún hefur verið hingað til. Á hverju hefur hún byggst? Hún hefur byggst á frv. sem hæstv. umhvrh. dreifði hér í dag. Hér hafa menn til að mynda lýst skoðunum sinna flokka og sagt að þær byggist á því að sjónarmið þeirra hafi náð fram að ganga, ákveðin sátt hafi náðst, m.a. vegna þrýstings þeirra. Ég vísa í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Með öðrum orðum ganga menn út frá því að þetta frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir. Svo kemur hv. þm. Kristján Pálsson og segir: Það er lagt fram til kynningar.

Ég spyr: Er verið að draga þingmenn á asnaeyrunum? Er verið að kynna frv. sem ætlunin er að breyta síðan? Ég spyr líka í tilefni af ræðu hv. þm. Árna M. Mathiesens fyrr í dag. Hann lýsti andstöðu við frv. og sagði: Því verður breytt. Hann sagði: Vonandi gefst færi til að nota sumarið til að breyta frv. Með öðrum orðum grundvallast þessi umræða á sáttatillögu sem komið fram hjá hæstv. ráðherra. Hins vegar liggur fyrir að engin sátt er um hana, ekki einu sinni í stjórnarliðinu. Umhverfisráðherraefni Sjálfstfl. hefur lýst vantrú á meginþætti í henni og oddviti stjórnarliðsins í umhvn., hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, hefur lýst beinni andstöðu við það. Er nema von að við spyrjum, sér í lagi eftir ræðu hv. þm. Kristjáns Pálssonar: Er verið að draga þingið á asnaeyrunum með því að leggja hér fram frv. sem á síðan e.t.v. að gjörbreyta?