Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 18:51:11 (5840)

1998-04-28 18:51:11# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[18:51]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er búinn að sitja hérna í þessari stofnun í nokkur missiri eins og menn þekkja. Ég hef eiginlega aldrei lent í öðru eins. Þingflokkur Alþb. og óháðra hefur tekið vel í ákveðið stjfrv. Þingflokkurinn hefur ekki gert samþykkt frv. að skilyrði fyrir einu eða neinu. Við verslum ekki með okkar afstöðu í málum. En við hefðum talið betra að málið yrði afgreitt. Það er alveg ljóst. Og við knýjum á um að málið verði afgreitt og óskum eftir því að málið verði tekið hér á dagskrá, fari til nefndar og komi svo aftur til atkvæða.

Og hvað gerist þá? Þá lýsir hæstv. umhvrh., aðalflutningsmaður málsins, því yfir að hann muni bregða fæti fyrir málið í þinginu. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, eins og maðurinn sem við þekkjum öll segir stundum: ,,Þetta finnst mér skrýtið.`` Þetta er skrýtið og mikil nýlunda og það liggur við að þetta frv. sé þá héðan í frá ekki venjulegt stjfrv. heldur stjfrv. Alþb. og óháðra. Það má segja að það sé kominn tími til að þessir aðilar, Alþb. og óháðir, eignist eitt stjfrv. þó fyrr hefði verið. Ég segi það því alveg eins og er að manni kann að vera nokkur vandi á höndum í málinu. En ég verð þá bara endurtaka það sem ég sagði áðan að ég mun beita mér fyrir því að þetta mál komist á dagskrá og til umræðu. Við þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna höfum líka aðeins pínulítið um það að segja hvaða mál eru tekin á dagskrá og til umræðu og við munum knýja á um að þetta mál komi til umræðu og komist til nefndar. Þingið á auðvitað að taka afstöðu til svona máls.

Af hverju ekki núna? Hæstv. ráðherra sagði áðan að málið yrði flutt óbreytt í haust. Af hverju má þá ekki fjalla um það núna? Þingheimur nauðaþekkir þetta mál vegna þess að málið er hluti af umfjölluninni um sveitarstjórnarmálin þannig að ekki þarf að draga þetta stundinni lengur.

Vandinn er væntanlega sá að það eru einhverjar innantökur í einum og einum þingmanni hjá íhaldinu í þessu máli og kannski einum eða tveimur framsóknarmönnum, örugglega ekki mjög mörgum. En af hverju ekki að prófa þá að nudda málinu áfram? Hver veit nema t.d. þingflokkur Kvennalistans gæti stutt málið eða þingflokkur jafnaðarmanna? Ég veit ekki um það. Ef svo væri þá þokast þetta náttúrlega í áttina. Því þá ekki að leyfa meiri hluta þingsins að ráða um þetta einingarmál sem Alþb. og óháðir flytja hér og hafa breytt í raun í sitt eigið stjfrv.? Og við munum halda því til streitu þó að ráðherrann sem á það sé á móti því. Við munum halda því til streitu.