Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 20:30:36 (5848)

1998-04-28 20:30:36# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[20:30]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér erum við að fjalla um eitt stærsta og umdeildasta mál þessa þings, mál sem skipta mun þjóðina miklu um ókomna framtíð. Talsmaður minni hluta félmn., Rannveig Guðmundsdóttir, hefur gert sjónarmiðum okkar jafnaðarmanna ítarleg skil í þessari urmæðu og skilað mjög ítarlegu nál. þar sem hún tekur fyrir meginefni frv. og þetta stóra álitamál sem við fjöllum um. Ég tel að ekkert sé ofsagt hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur þegar hún segir að tillaga um skiptingu miðhálendis milli fárra sveitarfélaga sé atlaga að almannarétti hér á landi.

Það kemur fram í nál. Rannveigar Guðmundsdóttur að ýmislegt á erindi í þessa umræðu og heldur alveg gildi sínu að mínu mati þrátt fyrir þá tillögu eða frumvarp sem hæstv. umhvrh. kynnti hér í dag. Það er afdráttarlaus skoðun jafnaðarmanna að líta beri á miðhálendið sem eina stjórnsýslu- og skipulagslega heild en það er ekki hægt að gera ef svæðinu er skipt í sneiðar milli þeirra sveitarfélaga sem liggja að hálendinu eins og 1. gr. frv. gerir ráð fyrir. Með því verður hvert einstakt sveitarfélag allsráðandi hvert á sínum hluta miðhálendisins.

Í áliti minni hlutans kemur fram að veigamesta breytingin sem lögð er til á sveitarstjórnarlögunum í þessu frumvarpi og jafnframt sú afdrifaríkasta er að landið allt skuli skiptast í sveitarfélög en ekki einungis byggðin og afréttirnir. Einnig kemur fram í álitinu að með þeirri breytingu sé verið að stíga skref í átt til skipulags sem ekki mun verða einhugur um meðal íslensku þjóðarinnar um ókomna framtíð. Síðan er lagt til í áliti minni hlutans að í ljósi þess að samstaða er um að miðhálendið verði áfram eign þjóðarinnar þá telja jafnaðarmenn höfuðnauðsyn að ekki verði á þessu þingi bundið með óafturkræfum hætti hvernig stjórnsýslu- og skipulagsmálum verður háttað þar og meiri tími verði gefinn til opinnar umræðu þannig að öll þjóðin fái að taka þátt í að ákveða hvernig með þessi mál verður farið í framtíðinni.

Það er ekki ofsögum sagt, herra forseti, að um þetta mál hafi verið mjög skiptar skoðanir bæði innan þings og utan. M.a. hefur komið fram áskorun til Alþingis og ríkisstjórnarinnar um að fresta þessu ákvæði í 1. gr. frv. og ákvæði til bráðabirgða. Áskorunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Á Alþingi liggja nú fyrir lagafrumvörp sem m.a. munu ákveða um alla framtíð, hver fer með stjórnsýslu og skipulagsrétt á miðhálendinu. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa lýst ánægju sinni yfir þjóðlendufrumvarpinu, sem gerir ráð fyrir að mestur hluti hálendisins verði þjóðareign, enda er það skilningur flestra Íslendinga að svo hafi alltaf verið, sbr. forn lög og dóma. Mikill ágreiningur er hins vegar um frumvarp til breytingar á sveitarstjórnarlögum, sem gerir ráð fyrir að skipta miðhálendi og jöklum milli sveitarfélaga.

Í ljósi þess að samstaða er um að miðhálendið verði áfram eign þjóðarinnar, teljum við undirrituð höfuðnauðsyn, að ekki verði á þessu þingi bundið með óafturkræfum hætti hvernig stjórnsýslu- og skipulagsmálum verður háttað þar. Meiri tími verði gefinn til opinnar umræðu, þannig að öll þjóðin fái að taka þátt í að ákveða hvernig með mál þessi verður farið í framtíðinni.``

Herra forseti. Ég tek eindregið undir það sem þarna kemur fram og tel að með engu móti sé komið til móts við sjónarmið níutíumenninganna sem skrifa undir þessa áskorun með því frv. sem hæstv. umhvrh. hefur kynnt hér í dag.

Ég vil spyrja, herra forseti, hvort hæstv. umhvrh. er í húsinu.

(Forseti (StB): Hæstv. umhvrh. er í salnum.)

Herra forseti. Ég sagði að ég teldi að þetta frv. mundi á engan hátt koma til móts við sjónarmið þessara níutíumenninga og ég furða mig nokkuð á því að það frv. sem hér hefur verið kynnt skuli koma til móts við sjónarmið þeirra þingmanna sem deildu hart á þetta frv. við 1. umr. málsins. Einnig vil ég mótmæla þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið viðhöfð að frv. er tekið út úr nefndinni án þess að frv. umhvrh., sem á að sætta sjónarmið einhverra í þinginu, sé formlega kynnt í nefndinni og farið yfir greinargerð frumvarpsins og tillögugreinina sjálfa, en þinginu boðið upp á það að þegar umræðan er hafin, raunar liðinn einn og hálfur tími af umræðunni og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sem er helsti gagnrýnandi á þetta frv. sem hér er til umræðu er í ræðustól, sé því frv. loksins dreift. Ég velti því fyrir mér hvort þeir þingmenn sem telja að þetta frv. sætti sjónarmið og það sé nægjanlegt til þess að þeir fylgi frv. hæstv. félmrh., hafi yfirleitt gert sér grein fyrir því innihaldi sem er í frv. umhvrh. og greinargerðinni sem með því fylgir vegna þess að þar kemur mjög athyglisvert fram sem ég tel ástæðu til þess að fara nokkrum orðum um, herra forseti. Þó að það frv. sé ekki beinlínis hér á dagskrá þá tengist það mjög frv. til sveitarstjórnarlaga sem við erum að ræða og er liður í einhverju sáttasamkomulagi sem einhverjir þingmenn hafa fallist á að sé nægjanlegt til að þeir styðji ákvæði til bráðabirgða og 1. gr. í frv. félmrh. Ég vil því gera tilraun til að greina hvað er í frv. hæstv. umhvrh. ef það yrði til þess að einhverjir þingmenn sem hafa fallist á að styðja þetta frv. mundu athuga sinn gang heldur betur en mér virðist þeir hafa gert.

Ég verð að segja að ég fagna afstöðu hv. 11. þm. Reykv. í þessu máli. Hann hefur skoðað það greinilega mjög ítarlega, gert upp hug sinn vandlega og ætlar ekki að láta beygja sig fyrir því sem fram kemur í frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum sem hann telur engan veginn nægja til þess að koma til móts við þau sjónarmið sem hann hefur sett fram í þessu máli og skil ég það mætavel þegar ég hef lesið þetta frv. Aftur á móti skil ég ekki afstöðu hv. 4. þm. Reykn. sem mjög hefur haft sig frammi í þessu máli. Ég efa ekki að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur ekkert dregið af sér til að reyna að ná ásættanlegri lendingu í þessu máli en ég undrast að þetta sé ásættanleg lending fyrir hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. En ég tel hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson, 11. þm. Reykv., mann að meiri að lýsa yfir andstöðu eða a.m.k. hlutleysi þá með því að sitja hjá við frv. félmrh. af því að það er auðvitað ljóst miðað við hvað hann hefur sagt í þessu máli, t.d. á stórum fundi á Hótel Borg, að þetta getur engan veginn komið til móts við þau sjónarmið sem hann kynnti Reykvíkingum að hann mundi berjast fyrir. Að vísu er frv. um breytingu á skipulags- og byggingarlögum spor í áttina. En mig furðar á því að það nægi þeim sem deildu hart á þetta mál við 1. umr.

Hvað felur frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum í sér? Það felur í sér að það á að koma ný grein í skipulags- og byggingarlög undir heitinu Svæðisskipulag miðhálendisins. Umhvrh. á að skipa samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins til fjögurra ára í senn að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Sveitarfélög, sem liggja að miðhálendinu, tilnefna samtals tólf fulltrúa. Tólf fulltrúa af átján eiga sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu að skipa. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir fjóra fulltrúa og skulu tveir þeirra eiga búsetu í Reykjavík --- það var nú allt og sumt. Tveir þeirra eiga búsetu í Reykjavík --- einn á Reykjanesi og einn á Vestfjörðum, félagsmálaráðherra tilnefnir einn og umhverfisráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður.

Ég held að við þurfum að líta á þetta nokkuð nánar, herra forseti, vegna þess að við stöndum frammi fyrir því með þessari tillögu að við á suðvesturhorninu, þar sem búa 67% þjóðarinnar, eigum að hafa þrjá fulltrúa í þessari mikilvægu nefnd sem á að skipuleggja miðhálendið. Það er nú allt og sumt. Og ætli það séu ekki kannski 5% þjóðarinnar sem búa í sveitarfélögum sem liggja að hálendinu eftir sameininguna? Þau eiga að hafa tólf fulltrúa. 5% þjóðarinnar eiga að hafa tólf fulltrúa, þ.e. íbúar þeirra sveitarfélaga sem liggja að hálendinu eiga að hafa tólf fulltrúa. En Reykjavík á að hafa tvo fulltrúa og Reykjanes einn fulltrúa. Það eru raunverulega 94--95% þjóðarinnar sem eiga að hafa hér samtals sex fulltrúa meðan 4% hafa tólf fulltrúa. Þetta er allt lýðræðið, herra forseti, í þessu. Þetta er nú allt lýðræðið.

Og hvernig skyldi nú gangurinn vera í þessari 18 manna mikilvægu nefnd sem á að skipuleggja miðhálendið þegar 12 fulltrúanna eru fulltrúar sveitarfélaga sem liggja að hálendinu? Hvernig fer í þessari nefnd ef ágreiningur verður og atkvæðagreiðslur? Er ekki hætta á því, herra forseti, --- ég sé að hæstv. umhvrh. er flúinn úr salnum --- að þessir 12 fulltrúar beri fulltrúana t.d. á höfuðborgarsvæðinu, sem vilja fara aðrar leiðir í skipulagningu á hálendinu, ofurliði í atkvæðagreiðslum um þessi mál?

Hlutföllin í þessu eru alveg með ólíkindum. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh. ef hann heyrir mál mitt sem ég veit reyndar ekki, herra forseti, af því ég kem ekki auga á hann í salnum --- mér finnst nú hann eigi að sýna okkur þá virðingu að vera við þessa umræðu --- ég vil spyrja hæstv. umhvrh.: Hvað ræður vali í nefndina, þessu hlutfalli milli fulltrúa höfuðborgarsvæðisins og fulltrúa sveitarfélaga sem liggja að hálendinu? 4--5% þjóðarinnar hafa 12 fulltrúa af 18. Höfuðborgarsvæðið og Reykjanes þrjá fulltrúa og í heildina eru þessir 12 fulltrúar fulltrúar 4% þjóðarinnar, 4% íbúanna búa í þessum sveitarfélögum. Þessi samsetning kemur mér því mjög á óvart, ef hæstv. ráðherra hefur talið sig vera að koma til móts við þann ágreining sem hefur verið um þetta frv.

Síðan komu við að efni frv., með leyfi forseta:

,,Samvinnunefndin fjallar um svæðisskipulag miðhálendisins og gefur Skipulagsstofnun umsögn um tillögu að aðalskipulagi sveitarfélaga á svæðinu og breytingar á þeim.``

Það er sem sagt svæðisskipulagið sem þessi samvinnunefnd á að fjalla um, en hún á einungis að gefa Skipulagsstofnun umsögn um tillögu að aðalskipulagi sveitarfélaga á svæðinu og breytingar á þeim.

[20:45]

Hvað þýðir þessi umsögn? Við þekkjum það vel að iðulega er ekki farið eftir umsögnum sem gefnar hafa verið um ákveðin mál. Ég nefni t.d. hina stóru tillögu, miðhálendistillögu, þar sem fjöldi umsagna kom frá ýmsum aðilum, ekki síst þeim sem koma að umhverfismálum, aðilum í atvinnuvegi o.s.frv. Þetta voru grafalvarlegar athugasemdir. Þeir hafa enga tryggingu fyrir því að eftir þeirra umsögn sé farið. Hvaða tryggingu hefur samvinnunefndin fyrir því að farið verði eftir umsögn sem hún gefur að því er varðar tillögu um aðalskipulag?

Ef við lítum á svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag, hvað felur það í sér? Svæðisskipulagið er vitanlega mjög mikilvægt. Þar eru lagðar línurnar að því er varðar skipulagsmálin. Aðalskipulagið, sem sveitarfélögin annast, útfærir nánar svæðisskipulagið og getur breytt því innan ákveðinna marka. Í deiliskipulaginu er skipulagningin ákveðin í smærri atriðum. Þetta virðist því allt skipast upp í búta og ræmur, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði í ræðu sinni hér áðan.

Herra forseti. Ég staldra náttúrlega við greinargerðina. Fróðlegt væri að vita hvort hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur lesið þessa greinargerð og séð út á hvað hún gengur. Hún sýnir auðvitað hvernig umhvrh. sjálfur, yfirmaður skipulags- og byggingarmála, hugsar sér framkvæmdina og útfærsluna á þessu. Ég ætla að fara aðeins nánar ofan í þau atriði. Í athugasemdum við frv. segir, með leyfi forseta:

,,Miklar umræður hafa orðið um skipulag miðhálendisins að undanförnu en sérstök nefnd, samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins, sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 73/1993, um breyting á skipulagslögum, nr. 19/1964, er að fara yfir athugasemdir sem bárust við tillögur nefndarinnar og á að skila tillögum til Skipulagsstofnunar fyrir 1. desember nk.``

Hún á sem sagt að skila tillögunum fyrir 1. des. nk. og síðan segir:

,,Skipulagsstofnun gerir síðan tillögu til umhverfisráðherra um lokaafgreiðslu svæðisskipulagsins, ...``

Þegar nefndin hefur skilað af sér 1. des. gerir Skipulagsstofnun tillögu til umhvrh. og hann getur samkvæmt þessu staðfest tillögur núverandi miðhálendisnefndar, áður en þessi nýja samvinnunefnd hefur verið skipuð. Hér kemur fram að hin nýja samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins á að taka til starfa 1. jan. 1999.

Hvernig getum við nú tryggt þau litlu áhrif sem Reykvíkingar og fólk á suðvesturhorninu á að hafa gegnum þessa samvinnunefnd ef gamla miðhálendisnefndin hefur skilað tillögum sínum til Skipulagsstofnunar, Skipulagsstofnun til ráðherra og ráðherra staðfest þær fyrir áramótin? Hvernig getum við tryggt það áður en þessi samvinnunefnd, þessi dúsa sem duga á fyrir marga þingmenn, tekur til starfa? Hvaða tryggingu höfum við fyrir því, herra forseti, að umhvrh. staðfesti ekki þessar tillögur, áður en þessi nýja samvinnunefnd sem öllu á að breyta varðandi miðhálendið, tekur til starfa? Þó hér komi fram að endurskoða eigi svæðisskipulagið á fjögurra ára fresti þá er erfitt að breyta því þegar það hefur verið staðfest.

Þar fyrir utan, herra forseti, má gera ráð fyrir því að þeir tólf einstaklingar sem nú sitja í gömlu miðhálendisnefndinni verði áfram í nýju samvinnunefndinni. Ég spyr, herra forseti, hvort það sé líklegt, þegar minni hlutinn er kominn þarna inn, tveir fulltrúar frá Reykjavík og einn frá Reykjanesi, að þeir ráði eitthvað við þá tólf sem þegar hafa gengið frá skipulaginu. (Umhvrh.: Einn frá Vestfjörðum, það má ekki gleyma neinum.) Einn frá Vestfjörðum, já. Ég hugsa að þeir dugi ekki gegn þeim tólf sem örugglega munu vinna sterkt saman sem fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu.

Getur hæstv. umhvrh. gefið okkur tryggingu fyrir því hér og nú að skipulag á miðhálendinu hafi ekki þegar verið staðfest þá samvinnunefndin tekur til starfa, 1. jan. 1999? (Gripið fram í: Hvar eru Vestmanneyingar í því sambandi? Skyldu þeir eiga fulltrúa? Ég spyr.) Já, skyldu þeir eiga fulltrúa þarna? Það má auðvitað spyrja hver eigi miðhálendið. Hver á miðhálendið? Er það ekki þjóðin öll? Líka Vestmannaeyingar. (Gripið fram í: Ég hefði haldið það.) (Umhvrh.: Gera það upp með þjóðlendufrv.) Og Akureyringar, eiga þeir fulltrúa þarna? Eiga þeir fulltrúa? (Gripið fram í: Og hvað með Grímseyinga?)

Síðan spyr ég, herra forseti, af því að í frv. 1993 var talað um að fulltrúar héraðsnefnda ættu sæti í miðhálendisnefnd. Í frv. sjálfu er sagt: ,,sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu tilnefna samtals tólf fulltrúa``. Eru það héraðsnefndirnar? Eða hverjir eru það? Hv. þm. Jón Kristjánsson brosir hér breitt. Hann hlýtur að vita það. (JónK: Það eru héraðsnefndirnar.)

Á Akureyri fulltrúa í þessari nefnd? Akureyringum kemur kannski miðhálendi ekkert við. Mér finnst þetta frv. litlu breyta. Og ég er alveg sannfærð um að þetta mun ekki duga til þess að fullnægja sjónarmiðum níutíumenninganna sem skrifuðu áskorun sína.

Ég held að það sé nokkuð ljóst að eftir að þetta ákv. til brb. og 1. gr. frv. hafa verið samþykkt, þá verði ekki aftur snúið. Í 1. gr. er kveðið á um að ,,landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð``. Síðan kemur ákv. til brb. eins og við þekkjum. Með þessu fær hæstv. umhvrh. þá lagastoð sem hann þarf til þess að geta staðfest þær tillögur miðhálendisnefndarinnar sem nú liggja fyrir og mikil gagnrýni hefur beinst að. Fyrir liggur heill bunki af umsögnum, þar sem gagnrýnt er hvernig staðið hefur verið að málum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann ekki sammála mér í því að um leið og búið er að staðfesta þessa tillögu þá fái hann þá lagastoð sem hann þarf til þess að geta staðfest þetta skipulag?

Að svo komnu máli vil ég fá að lesa umsögn um þessa 1. gr. frv. til sveitarstjórnarlaga og ákv. til brb. sem ég og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir, sem sæti eigum í allshn., sendum til hv. félmn. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Minni hluti allshn. leggst gegn ákvæði 1. gr. og ákv. til brb. og leggur til að ákv. til brb. verði fellt brott og 1. gr. verði breytt.

Minni hlutinn telur það óeðlilegt og varasamt að nokkrar sveitarstjórnir fái stjórnsýsluvald og þar með vald til ákvarðana um landnýtingu og skipulagsvald á hálendinu, sem er um 40% af öllu Íslandi.

Skýrt þarf að kveða á um að hálendið og allt landsvæði utan eignarlanda sé sameign íslensku þjóðarinnar og að hálendið verði ein skipulags- og stjórnsýsluheild, en ofangreind ákvæði í frv. til sveitarstjórnarlaga ganga þvert á þau markmið. Þannig er stjórnsýslunni skipt á milli þeirra sveitarfélaga sem liggja að hálendinu. Hætta er á því að hagsmunir einstakra sveitarfélaga ráði of mikið ferðinni í stjórnsýslunni á hálendinu fremur en þjóðarheildarinnar.

Grundvallaratriði er að hálendið verði með lögum lýst sem sameign þjóðarinnar. Með sama hætti er einnig eðlilegt að stjórnsýslan á hálendinu verði í höndum ríkisvaldsins en ekki örfárra sveitarfélaga sem liggja að hálendinu, því að skipulag hálendisins skiptir alla íbúa landsins máli, en ekki bara þá sem búa í nálægð við það.

Ljóst er einnig að verði þessi ákvæði í frv. félmrh. að lögum, þá getur umhvrh. staðfest þær tillögur að svæðisskipulagi miðhálendisins sem nú liggja fyrir. Þær tillögur hafa verið harðlega gagnrýndar af fjölda aðila og mjög alvarlegar athugasemdir við þær gerðar. Í samantekt sem allshn. hefur fengið úr formlegum athugasemdum sem gerðar hafa verið við tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins kemur m.a. fram að ekki sé nægjanlegt tillit tekið til stefnumörkunar stjórnvalda í orkumálum, ferða- eða umhverfismálum. Iðnrn. vekur m.a. athygli á að ekkert samráð hefur verið haft við það eða landb.- og samgrn. varðandi vinnu skipulagsnefndar. Í stórum málaflokkum eins og orkumálum, umhverfis- og ferðamálum er því beinlínis haldið fram að samvinnunefndin um svæðisskipulag miðhálendisins hafi búið til sínar eigin forsendur um vægi einstakra sjónarmiða.``

Þetta er ekkert smáræði, herra forseti. Umsagnaraðilar halda því beinlínis fram að samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins hafi búið til sínar eigin forsendur um vægi einstakra sjónarmiða, sem ,,sumar ganga þvert á lög og stefnu stjórnvalda, eins og í orkumálum``.

Ég spyr hvort hæstv. umhvrh. sé sammála því sem fram kemur í þessum umsögnum um tillögur miðhálendisnefndarinnar. Þar kemur fram að iðnrn. veki athygli á að ekkert samráð hafi verið haft við það eða landb.- og samgrn. Ekkert samráð haft við landbrn. varðandi vinnu skipulagsnefndar. (Umhvrh.: Það var nú verra.) Já, það var nú verra.

Það er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra tjái sig um það að í stórum málaflokkum eins og orku-, umhverfis- og ferðamálum er því beinlínis haldið fram að samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins hafi búið til sínar eigin forsendur um vægi einstakra sjónarmiða, sem sumar gangi þvert á lög og stefnu stjórnvalda, t.d. í orkumálum. Auðvitað er það mjög alvarlegt ef þetta er rétt.

Í álitinu segir síðan:

,,Ljóst er einnig að í aðalskipulagi einstakra sveitarfélaga eru teknar ákvarðanir um mikilvæga þætti sem snúa að þjóðarheildinni eins og varðandi mannvirkjagerð, verndarsvæði, uppgræðslu, landsvæði, og beitarafnot.

Verði þessar tillögur staðfestar með lagastoð í 1. gr. frv. og ákv. til brb. í frv. félmrh. væri í reynd tekin úr höndum þingsins stefnumótun í stórum málaflokkum sem ákvarðanir um landnýtingu á miðhálendinu ættu að byggja á. Minni hlutinn varar því alvarlega við samþykkt ofangreindra ákvæða og telur það vera stórslys verði þau samþykkt.``

Máli mínu til stuðnings vil ég vísa í minnisblað sem ég óskaði eftir frá Tryggva Gunnarssyni hrl. um frv. Nefndin fékk minnisblað hans um það hvernig háttað væri staðfestingu á svæðisskipulagi miðhálendisins fyrir og eftir að frv. félmrh. yrði að lögum. Ég tel fulla ástæðu til að lesa það, herra forseti, en þar kemur fram:

,,Á fundi nefndarinnar 17. apríl svaraði ég munnlega fyrirspurn frá Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hún beindi til mín um hvort umhvrh. hefði heimild til að staðfesta tillögur samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins, ef fyrirliggjandi tillaga um staðarmörk sveitarfélaga skv. frv. til sveitarstjórnarlaga næði ekki fram að ganga.

Nú hefur verið óskað eftir að ég láti nefndinni í té skriflegt álit á tengslum staðfestingar á skipulagi miðhálendis við bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlög. Ég lít svo á að verið sé að leita eftir skriflegu svari við áðurnefndri spurningu, sem ég svaraði á fundinum. Ég tek það fram að ég hef aðeins haft takmarkaðan tíma til að setja neðangreint svar á blað, en eins og ég nefndi á fundi nefndarinnar þarf í þessu efni að huga að ýmsum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.

Til starfs samvinnunefndar um skipulag miðhálendis og tillögur nefndarinnar var stofnað með lögum, nr. 73/1993, um ákv. til brb. við skipulagslög, nr. 19/1964. Í lok þessa ákvæðis sagði: ,,Um málsmeðferð tillögu að skipulagi miðhálendisins fer skv. 16. gr. skipulaga, nr. 19/1964. Að öðru leyti skal fresta frekari afgreiðslu tillögunnar uns ný skipulags- og byggingarlög hafa verið samþykkt á Alþingi.````

16. gr. laga nr. 19/1964 fjallar um samvinnunefndir vegna svæðisskipulags. Í 26. gr. frv. til skipulags- og byggingarlaga var sérstakt ákvæði um svæðisskipulag miðhálendisins, það var fellt niður að tillögu umhvn. Alþingis og því voru engin sérstök ákvæði um svæðisskipulag miðhálendis tekin inn í nýju lögin. Í lögunum voru hins vegar sérstök ákvæði um svæðisskipulag á svæðum þar sem ágreiningur er milli sveitarstjórna um landnotkun eða þar sem stefnumörkun í landnotkun varðar verulega hagsmuni þeirra sem búa utan viðkomandi svæðis.

[21:00]

Með lögum nr. 135/1997, um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, var m.a. bætt við 12. gr. laganna nýju ákvæði um heimild ráðherra til að fresta staðfestingu á svæðisskipulagi fyrir ákveðið landsvæði ef nauðsyn þykir til að samræma skipulagsáætlanir aðliggjandi sveitarfélaga. Slík svæði skal auðkenna á uppdrætti. Þá var aukið við ákvæði til brb. svohljóðandi grein:

,,Samvinnunefndir um svæðisskipulag sem eru að störfum við gildistöku laganna skulu starfa áfram en um málsmeðferð fer samkvæmt þessum lögum.``

Í samræmi við framangreint fer um afgreiðslu og staðfestingu ráðherra á fyrirliggjandi tillögu að skipulagi miðhálendisins eftir reglum skipulags- og byggingarlaga um svæðisskipulag. Svæðisskipulag er samkvæmt skilgreiningu í 2. gr. laganna skipulagsáætlun sem tekur yfir fleiri en eitt sveitarfélag. Lagaákvæði um svæðisskipulag byggja á aðkomu sveitarstjórna að samþykkt þess áður en kemur að staðfestingu ráðherra. Telja verður því að ráðherra geti ekki á grundvelli gildandi laga staðfest svæðisskipulag að því marki sem það tekur til lands utan sveitarfélaga, þó með fyrirvara um svæðisskipulag sem unnið er á grundvelli reglna 15. gr. um sérstaka svæðisskipulagsmeðferð.

Ljóst er að eins og lögum er nú háttað liggja einhver svæði utan staðarmarka sveitarfélaga, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar um Þórsmörk, en á miðhálendinu er þar um að ræða svæði sem liggja ofan afrétta, einkum jökla. Í samræmi við þá viðbót sem samþykkt var við 12. gr. skipulags- og byggingarlaga með lögum nr. 135/1997, um heimild fyrir ráðherra til að fresta staðfestingu á svæðisskipulagi, tel ég að umhvrh. geti á grundvelli núgildandi laga, þar með talið sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, staðfest tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins að því marki sem það tekur til lands innan staðarmarka sveitarfélaga en frestað staðfestingu á tillögunni vegna lands utan staðarmarka sveitarfélaga. Þau svæði sem frestunin tekur til skal auðkenna á uppdrætti. Áður en kemur að staðfestingu ráðherra þarf að leggja tillöguna fyrir sveitarstjórnir á því landsvæði sem skipulagstillagan tekur til og hún þarf að hljóta samþykki þeirra.

Síðan kemur í lokin, herra forseti:

,,Verði ákvæði til brb. við sveitarstjórnarlög samþykkt samkvæmt fyrirliggjandi brtt. félmrh. og eftir að búið er að skipta öllu landinu innan staðarmarka sveitarfélaga samkvæmt því verður hægt á grundvelli gildandi skipulags- og byggingarlaga að staðfesta svæðisskipulag sem tekur til þess lands sem nú er utan stðarmarka sveitarfélaga, enda séu uppfyllt þau skilyrði sem lög setja um samþykkt svæðisskipulags.``

Hér með lýkur þessari tilvitnun, sem er alveg ljós um það að umhvrh. getur, eftir að þetta ákvæði hefur verið staðfest í frv. félmrh., staðfest tillögur að skipulagi á miðhálendinu. Þá þarf ekki þessar breytingar við frv. til laga sem hæstv. ráðherra var að kynna í dag þannig að það er alveg ljóst að með þessu fær ráðherra þá lagastoð sem hann þarf til þess að staðfesta það.

Það kom okkur nokkuð á óvart í allshn. um þá brtt. sem félmrh. lagði fram eftir að hann hafði lagt fram frv. að fulltrúar Sambands sveitarfélaga sem komu á fund allshn. og fulltrúar frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum höfðu ekki séð þá brtt. sem hæstv. ráðherra hafði lagt fram. Það fannst mér afar sérstætt þar sem verið var að fjalla um svo mikilvægt mál að fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga hefðu ekki séð brtt. sem hæstv. ráðherra hafði gert.

Mér finnst ástæða til þess að benda á það, úr því að þessi lending er fengin og þetta frv. fram komið, af því að þetta hlýtur að hafa verið rætt í ríkisstjórninni hvort ekki hafi aðrar leiðir komið til greina til að ná sátt um þetta mál en hér hefur verið kynnt af hæstv. umhvrh. Ég nefni í því sambandi það fyrirkomulag sem gildir t.d. um varnarsvæðið á Miðnesheiði. Þar eru skipulagsmálin alfarið í höndum skipulagsnefndar varnarsvæða undir forræði utanrrh. Ég man ekki betur en að hæstv. forsrh. hafi hreyft því við 1. umr. um þjóðlendur þegar nokkuð var farið inn á þetta mál hvort þetta gæti verið leið sem hægt væri að skoða. Ég spyr um það: Var sú leið einhvern tíma skoðuð í ríkisstjórninni? Ég ætla að lesa það sem hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sagði við 1. umr. um þjóðlendur þegar hann var spurður um þetta mál en þá sagði hann, með leyfi forseta:

,,Þetta er eins og félmrh. hefur skýrt það og hans skilningur á því er réttur. Ég ætla ekki að fara að skera úr um einstök önnur atriði en ég bendi á að þeir þættir sem þurfa að vera til staðar með sveitarstjórnarlegu valdi eftir að lögin liggja fyrir, verða þá til staðar. Ég ítreka á nýjan leik að það er áfram hægt, þrátt fyrir þjóðlendufrv., að skipa sveitarstjórnarlegu þáttunum hvernig sem menn vilja. Menn gætu til að mynda, þjóðlendufrv. breytir því ekkert, tekið allan skipulagsþáttinn undan. Það höfum við gert áður. Það höfum við gert t.d. varðandi varnarsvæðið í Keflavík. Þar eru svæði tekin undan, óháð því hvernig því er almennt skipað í landinu.``

Mér finnst að sú leið, sem forsrh. greinilega sá ástæðu til þess að nefna við 1. umr. um þjóðlendufrv., miklu nær því að koma til móts við þau sjónarmið almennt sem eru uppi í þessu máli og þá gagnrýni sem hefur verið á þetta frv. Ég spyr hæstv. umhvrh. um það hvort sú leið hafi ekki komið til greina. Við höfum þar líka ákveðið fordæmi þó það sé kannski ekki af nákvæmlega sama toga sem varðar t.d. lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þrátt fyrir sveitarstjórnarvaldið er það sérstök nefnd, skipuð af Alþingi, sem fer með skipulags- og byggingarmálin og er með þau mál á sinni hendi. Þarna er um að ræða Þingvelli, eina af náttúruperlum landsins sem hefur verið skipað með þessum hætti að því er varðar skipulags- og byggingarmálin. Maður veltir fyrir sér hvort ekki verður horft til þessara tveggja dæma sem ég nefni um þjóðgarðinn og síðan annað svæði, sem er náttúrlega ekki af sama toga, sem er varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli. Varnarsvæðið á Miðnesheiðinni er alfarið í höndum sérstakrar skipulagsnefndar. Ef við tölum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, veit ég ekki til þess að skipulagsnefnd, varðandi skipulags- og byggingarmálin, lúti valdi t.d. Þingvallahrepps eða Grafningshrepps. Ég spyr hvort þetta hafi ekki verið skoðað, herra forseti. Mér finnst ef menn hafa verið að leita sátta í þessu máli, sem greinilega hefur ekki tekist, herra forseti, að þá hefði verið nær að líta til þeirra tilvika sem ég nefndi.

Það er alveg ljóst að t.d. hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, 11. þm. Reykv., passar vel upp á að sjónarmið umbjóðenda sinna í Reykjavík komist til skila í umræðunni, talar máli þeirra. Hann er bara maður að meiri að gera það og láta ekki stinga upp í sig svona dúsu eins og hér er komið fram. Ég átti ekki von á því að hann ætti einhverja sérstaka samleið með okkur jafnaðarmönnum en hann virðist eiga það og ég fagna því. (Gripið fram í.) Ekki í þessu máli, hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, ég hélt það ekki. En hann stendur fast á sínu. (Gripið fram í.) Nei, greinilega ekki. Ég vona að hann fylgi málinu til enda og mér finnst bara sómi að því hvernig hann stendur að þessu máli. Það er náttúrlega ljóst að ekki standa allir stjórnarliðar að þessu frv. félmrh.

Herra forseti. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, finnst það stefni raunverulega í það að meira og minna verði tillögur miðhálendisnefndarinnar ofan á í því hvernig á að skipa þessum málum í frv. um breytingu á skipulagslögum og með ákvæði til brb. í frv. félmrh. Í 1. gr. frv. finnst mér allt benda til þess að tillögur miðhálendisnefndar, sem hafa verið mikið gagnrýndar, að það sé a.m.k. hætta á því að ekki verði miklar breytingar þar á. Það er auðvitað alvarlegt, herra forseti, og ég vara enn og aftur við því ef það er rétt sem haldið er fram að í stórum málaflokkum, það er verið að tala um umhverfis- og ferðamál, hafi þessi nefnd haldið þannig á málum að hún hafi búið til eigin forsendur um mikilvæga og stóra málaflokka. Þess vegna tel ég nauðsynlegt, herra forseti, að fara nokkuð yfir a.m.k. örfáar glefsur úr þeim umsögnum sem liggja fyrir um tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins til þess að við sjáum hvað við erum að fá yfir okkur ef þetta frv. verður samþykkt.

Þetta eru bæði aðilar í umhverfismálum, ferðamálum, þetta eru mikið aðilar úr orkugeiranum, sem tefla því mjög fram að ekki hafi verið gætt jafnvægis í verndar- og nýtingarsjónarmiðum að því er varðar þessar tillögur. Hér segir t.d. Ferðamálaráð Íslands, og herra forseti, ég skal alveg hlífa þingheimi við því að fara alveg yfir þennan stóra bunka af þeim umsögnum sem liggja hér fyrir og fara aðeins yfir glefsur sem mér fannst áhugaverðar í þessu, samantekt sem hefur verið tekin saman frá einstaka aðilum, en þar segir:

,,Ferðamálaráð telur að tillaga að skipulagi miðhálendis Íslands, sem kynnt hefur verið í greinargerð Miðhálendi Íslands, svæðisskipulag 2015, taki ekki tillit til stefnumótunar í ferðamálum sem unnið hefur verið að.``

Taki ekki tillit til stefnumótunar í ferðamálum. Hvar er nú hæstv. samgrh.? Hæstv. samgrh. á enga aðild að fá að þessari nýju samvinnunefnd sem á að koma á laggirnar í haust, það er bara félmrh. og umhvrh. sem hafa fulltrúa sína þar inni. En samgrh., sem fer með samgöngu- og ferðamál, fær enga fulltrúa í þessa nefnd og því er þó haldið fram af Ferðamálaráði Íslands að ekki sé tekið tillit til stefnumótunar í ferðamálum sem unnið hefur verið að. Mér finnst full ástæða til, herra forseti, áður en við ljúkum umræðunni, það væri a.m.k. æskilegt að hæstv. ferða- og samgöngumálaráðherra væri viðstaddur umræðuna og tæki þátt í henni og skýrði okkur frá því hvort virkilega væri verið að ganga gegn stefnumótun í ferðamálum sem unnið hefur verið að með þessum skipulagstillögum miðhálendisnefndar. Það er mjög alvarlegt ef svo er.

Það virðist ekki bara vera í ferðamálum, herra forseti, vegna þess að ef við tökum til við álit Landsvirkjunar þá segir, með leyfi forseta:

,,Slíkt skipulag á þvert á móti og eðli málsins samkvæmt að endurspegla stefnumið stjórnvalda á viðkomandi sviðum. Samvinnunefndin hefur hins vegar búið til sínar eigin forsendur um vægi einstakra sjónarmiða, sem sumar ganga þvert á lög og stefnu stjórnvalda í orkumálum.``

Hvað segir formaður iðnn. við því að miðhálendisnefnd er að ganga þvert á stefnu stjórnvalda í orkumálum? Þessu er haldið fram af því merka fyrirtæki Landsvirkjun. Hvar er hæstv. iðnrh. þegar þessi umræða fer fram og við erum að samþykkja frv. sem felur í sér að miðhálendisnefnd geti samþykkt tillögu sem gengur þvert á lög og stefnu stjórnvalda í orkumálum og samvinnunefndin hafi búið til eigin forsendur um vægi einstakra sjónarmiða?

Ekki nóg með það vegna þess að Landsvirkjun segir einnig:

,,Hefur Landsvirkjun þegar bent á í bréfi sínu frá 25. júlí sl. að ekki sé farið að samþykktum Alþingis um mótun forsendna skipulagsins. Nægjanlegt tillit er ekki tekið til stefnumörkunar stjórnvalda í orkumálum, þar á meðal Landsvirkjunar, en fyrirtækinu er að lögum fengið skýrt hlutverk í þessu efni. Að óbreyttum lögum er það ekki í verkahring samvinnunefndarinnar að samræma mismunandi stefnu og sjónarmið ólíkra hagsmunahópa.``

Það er líka alveg rétt. Það er það sem við höfum haldið, að ekki sé rétt farið í þessi mál, herra forseti.

[21:15]

Áður en farið er út í svæðisskipulag á miðhálendinu þarf stefna í orkumálum, stefna í ferðamálum, stefna í samgöngumálum og stefna í umhverfismálum að liggja fyrir. Síðan á að byggja skipulagið á þeirri stefnumörkun, en ekki að miðhálendisnefndin, sem er skipuð fulltrúum sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu, þar sem íbúar sveitarfélaganna teljast 4% þjóðarinnar, búi sér til sínar eigin forsendur um skipulag á miðhálendinu.

Þetta er ekki það sem ég er að segja, herra forseti, heldur er ég bara að lesa upp úr því sem Landsvirkjun og Ferðamálaráð heldur fram og þingmenn hér inni hafa nú tekið mark á þeim aðilum sem ég nefni.

Og síðan er kemur að Landgræðslu ríkisins, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Álítur Landgræðslan að við skipulag miðhálendis skuli ganga út frá þeirri grundvallarforsendu að stefna skuli að endurheimt vistkerfa og bæta ástand eyddra og vangróinna landa hvarvetna á skipulagssvæðinu. Þetta álit byggir Landgræðslan ekki einungis á lögum heldur má í þessu efni einnig vísa til ýmissa alþjóðasáttmála um umhverfisvernd og stefnumið ríkisstjórnar Íslands.``

Og þá komum við að Orkustofnun, og ber vel í veiði að hv. formaður iðnn. er hér inni, því að við erum að lesa upp úr áliti aðila eins og Landsvirkjunar og Orkustofnunar, og við í iðnn. fjöllum nú iðulega um þá þætti sem snúa einmitt að Orkustofnun og Landsvirkjun. En Orkustofnun segir um þessa miðhálendistillögu:

,,Það sem þarf að taka tillit til er samþykkt stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi, en þar segir m.a.: Iðnrh. í samráði við umhvrh. láti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skal henni lokið fyrir árslok 2000. Áætlunin sé í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum auk ferðaþjónustu. Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnssvæða og niðurstöður felldar að skipulagi.``

Og síðan kemur iðnrn. Þar finnst mér að hv. formaður iðnn., fyrst hæstv. iðnrh. heiðrar okkur ekki með nærveru sinni, þurfi nú að hlusta. Og ekki veit ég hvort hv. formaður iðnn., fulltrúi ráðherra, geti svarað því sem hér kemur fram og hver skoðun hans raunverulega er. Hér stendur frá iðnrn. um þessar miðhálendistillögur:

,,Ráðuneytið telur að stefna ríkisstjórnarinnar og raunar flestra ríkisstjórna undanfarna áratugi varðandi nýtingu orkulindanna, sem er að finna á miðhálendinu, endurspeglist ekki í tillögunni.``

Það er nú hvorki meira né minna. Það er ekki bara stefna þessarar ríkisstjórnar heldur fyrri ríkisstjórna, sem endurspeglast ekki í þessum tillögum sem liggja fyrir, heldur er miðhálendisnefndin, skipuð 12 fulltrúum sveitarfélaga sem liggja að svæðinu, að búa sér til sínar eigin forsendur. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt. Þetta er alveg grafalvarlegt ef þetta er rétt. Og það á bara að gefa þessari miðhálendisnefnd umboð áfram. Þeir eiga að fá umboð áfram, það á að festa þessa nefnd í sessi hér með lögum. Hún á bara að fá umboð áfram til þess að móta tillögur um skipulag á miðhálendinu. Með tveimur fulltrúum frá Reykjavík og einum frá Reykjanesi og einum frá Vestfjörðum. Tólf á móti fjórum. Auðvitað ræður hún ferðinni þarna ef það kemur að atkvæðagreiðslu í nefndinni.

Þarf hún eitthvað að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem liggja fyrir um stefnumótun í orku- og ferðamálum? Það virðist ekki vera, alla vega hefur hún ekki gert það samkvæmt því sem hér liggur fyrir.

Náttúruvernd ríkisins segir:

,,Nauðsynlegt er hins vegar að nú þegar hefjist endurskoðun á skipulaginu með söfnun upplýsinga og athugasemda um forsendur þess og að þeirri endurskoðun verði lokið eigi síðar en árið 2000. Lögð er áhersla á að náttúruverndaryfirvöld komi að því verki.``

Framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs segir:

,,Fyrirliggjandi tillaga felur í sér stefnumörkun fyrir ferðaþjónustuna án þess að nokkur fulltrúi greinarinnar hafi komið þar nærri`` --- þetta er bara stefnumörkun, hvorki meira né minna, herra forseti, --- ,,né heldur nokkur fulltrúi þeirra stjórnvalda sem hafa með málefni ferðaþjónustunnar að gera, og vinnur nú að stefnumótun fyrir greinina.``

Hér er athugasemd frá Jakobi Björnssyni sem virkilega á erindi inn í þessa umræðu, en hann segir:

,,Almenn markmiðssetning í kafla 1.5.1 á blaðsíðu 15 er óskýr og ruglingsleg. Það er ekki markmið heldur leið að markmiði að samþætta landnotkun og landnýtingu. Kaflinn Skipulagshugmyndir á þessari blaðsíðu er svo grautarlegur að hann er ónothæfur í núverandi formi sem grundvöllur skipulagshugmynda. Sérstaklega er aðfinnsluvert að orðið ,,verndarheildir`` er gersamlega óskilgreint enda þótt hugtakið sé notað sem einn aðalgrundvöllur skipulagsvinnunnar.``

Og hér kemur inngangur að undirskriftalista 137 manna sem hafa tekið sig saman og skrifað undir þá setningu sem allir hljóta að geta tekið undir, þó að þeir hagi sér öðruvísi með gjörðum sínum hér á Alþingi t.d. með því að fela skipulagið á miðhálendinu með þeim hætti sem gera á. En þessi 137 manna hópur segir:

,,Við teljum að miðhálendi Íslands sé sameign allra Íslendinga og eigi að skipuleggjast í samvinnu allra landsmanna.``

Ég tel það ekki vera að skipuleggja miðhálendið í samvinnu allra landsmanna með þeirri leið sem hér er farin. Auðvitað er mjög skiljanlegt að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson vilji ekki leggja nafn sitt við þessa leið.

Fram kemur hjá Landsvirkjun í seinni athugasemd, eins og það er kallað hér:

,,Á ráðstefnu um svæðisskipulag miðhálendisins, sem haldin var 20. sept. sl.`` --- þar er vitnað í Stefán Thors skipulagsstjóra um þetta efni og það er einmitt mjög athyglisvert, herra forseti, að Stefán Thors skipulagsstjóri segir: ,,Auðvitað má segja svo að áður en ráðist var í gerð svæðisskipulags fyrir miðhálendið hefði átt að gera fimm ára áætlun um víðtækar rannsóknir á svæðinu. Að þeim loknum hefði ríkisstjórn átt að marka stefnu í landnotkun og landnýtingu hinna ýmsu málaflokka. Þegar sú stefna hefði legið fyrir hefði þurft að gera landskipulag sem næði til landsins alls þar sem mörkuð hefði verið stefna og teknar bindandi ákvarðanir í veigamiklum atriðum. Að því loknu hefði þurft að taka ákvarðanir um stjórnsýslulega skiptingu alls landsins og í kjölfar þess að setja lög um eignarhald á afréttum og almenningum. Að þessu loknu hefði ríkisstjórnin getað skipað nefnd að fengnum tilnefningum frá forsrn., iðnrn., samgrn. og Sambandi ísl. sveitarfélaga til þess að gera tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins.``

Þetta, herra forseti, sem ég er að lesa eftir skipulagsstjóra Stefáni Thors er eins og talað út úr mínu hjarta. Það eru nákvæmlega svona vinnubrögð sem átti að viðhafa varðandi þetta mál í heild sinni. Og það er skipulagsstjóri sjálfur, undirmaður hæstv. umhvrh., sem heldur þessu fram. Þetta eru vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar.

En hér er gengið þveröfugt í hlutina, byrjað á öfugum enda á öllu saman. Stefnumótunin kemur eftir á þegar hún dugar ekki lengur af því að einhver samvinnunefnd, skipuð nokkrum fulltrúum sveitarfélaga, sem liggja að miðhálendinu, hefur búið sér til sínar eigin forsendur um hvernig eigi að haga svæðisskipulaginu.

Ég ætla að spyrja hæstv. umhvrh. um þessa leið sem skipulagsstjóri nefnir vegna þess að hún er auðvitað mjög skynsamleg. Og ég held það sé ekkert of seint, það er alls ekkert of seint að fara þá leið sem skipulagsstjóri leggur til, ef menn vilja. Vegna þess að það er auðvitað erfitt að breyta þeim ákvörðunum sem nú á að fara að taka á Alþingi og í framhaldi af því í framkvæmdinni, þó að menn vildu, eftir tuttugu, þrjátíu, fjörutíu ár, þegar menn fara að sjá eftir því hvernig haldið hefur verið á þessum málum.

En skipulagsstjóri segir: ,,Áður en ráðist er í gerð skipulags fyrir miðhálendið þá á að gera fimm ára áætlun`` --- það er skynsamlegt --- ,,um víðtækar rannsóknir á svæðinu. Að þeim loknum hefði ríkisstjórnin átt að marka stefnu í landnotkun og landnýtingu hinna ýmsu málaflokka.``

Hvað segir hæstv. umhvrh. um það? Liggur fyrir stefna í landnotkun og landnýtingu hinna ýmsu málaflokka á miðhálendinu? Ég spyr um það, herra forseti, og ég mun ítreka þá fyrirspurn þannig að ég vona að hæstv. ráðherra taki það nú til skoðunar þegar hann kemur í ræðustól væntanlega á eftir.

Þegar þessi stefna hefur verið mörkuð um landnotkun og landnýtingu þá hefði þurft að gera landskipulag sem næði til landsins alls þar sem mörkuð hefði verið stefna og teknar bindandi ákvarðanir í veigamiklum atriðum. Að því loknu hefði þurft að taka ákvarðanir um stjórnsýslulega skiptingu alls landsins. En það á greinilega að byrja á því. Það á greinilega að byrja á því sem skipulagsstjóri leggur til að verði gert síðast, og í kjölfar þess að setja lög um eignarhald á afréttum og almenningum. Og að þessu loknu hefði ríkisstjórnin getað skipað nefnd, að fengnum tilnefningum frá forsrn., iðnrn., samgrn. og Sambandi ísl. sveitarfélaga til þess að gera tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins.

Það er slík tillaga sem við hefðum átt að vera að ræða hér, nákvæmlega svona tillaga um málsmeðferð og vinnubrögð, málsmeðferð og vinnubrögð, en ekki þetta klúður sem ríkisstjórnin ætlar þinginu að standa að.

Enn og aftur vekur iðnrn. athygli á því að ekkert samráð hefur verið haft við það varðandi vinnu skipulagsnefndarinnar, og það vekur raunar athygli ráðuneytisins að ekki hefur heldur verið haft samband við landb.- og samgrn.

Verkfræðistofnun Háskóla Íslands, sem menn taka nú yfirleitt mark á, segir: ,,Það er veikur þáttur í greinargerðinni að samhengið milli gagna og niðurstöðunnar, sem er sjálf skipulagstillagan, vantar að mestu.``

Sveinn Helgi Sverrisson segir, með leyfi forseta: ,,Það er náttúrlega vont að vinna skipulagstillögu út frá ákveðnum forsendum eignarréttar, vitandi það að á sama tíma er nefnd á vegum Alþingis og forsrh. að skoða leiðir til að breyta þeim forsendum.``

Náttúruverndarsamtök Íslands segja: ,,Samtökin telja að það brjóti í bága við tilmæli skipulagsreglugerðar að gera ekki grein fyrir og sýna ekki á skipulagsuppdrætti allar fyrirliggjandi frumforsendur um landnotkun, þar með talið virkjunarhugmyndir. Annars fæst röng mynd af landnotkuninni og forsendur fyrir skipulaginu verða þar með rangar.``

Náttúrufræðistofnun Íslands segir: ,,Óskiljanlegt er hvernig hægt er að leggja til skipulag á hálendinu án þess að jarðfræðilegar minjar hafi verið skilgreindar og tilraun verið gerð til að flokka þær. Náttúrufræðistofnun telur skýlaust að meta eigi umhverfisáhrif uppgræðsluáforma sem fyrir eru á svæðinu.``

Samorka segir, með leyfi forseta: ,,Því er mótmælt að svæði, sem ekki er áætlað að verði tekin til nýtingar á skipulagstímanum, eru ekki auðkennd og aðskilin frá verndarsvæðum. Þar á meðal eru öll helstu háhitasvæðin á hálendinu svo dæmi sé tekið.``

Hér kemur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem hefur gert sínar athugasemdir og segir: ,,Svo virðist sem ráðgjafar samvinnunefndarinnar hafi verið misjafnlega í stakk búnir og út á aðferðafræði sumra þeirra má ýmislegt setja. Þetta á m.a. við um opinberar stofnanir eins og Orkustofnun og Landsvirkjun og Landgræðslu ríkisins. Í greinargerð og fylgiritum er ekki að finna skýra frásögn af hugmyndalegum forsendum nefndarinnar fyrir skipulagsvinnunni.``

Landvarðafélag Ísland segir, með leyfi forseta: ,,Hugtakið náttúruverndarsvæði, eins og tillöguhöfundar skilgreina það, virðist ekki byggja á sömu skilgreiningu og hugtakið gerir í náttúruverndarlögum. Þá er skilgreiningin svo víð að alveg er óljóst hvort um er að ræða þjóðgarða, fólkvanga eða annað.`` Hvorki meira né minna, herra forseti. ,,Hvað varðar hugtakið ,,verndarsvæði`` verður ekki séð að það eigi sér nokkra stoð í lögum.``

Herra forseti. Ég held að engum eigi að koma á óvart þessi gagnrýni sem hefur verið hér innan og utan þings. Það eru margir utan þings, eins og fram hefur komið, sem hafa virkilegar áhyggjur af þeirri þróun og þeim vinnubrögðum sem á að viðhafa að því er varðar miðhálendið.

[21:30]

Síðan finnst mér mjög athyglisverð sú athugasemd sem fram kemur hjá Ingva Þorsteinssyni:

,,Við skipulagsgerð eins og hér er um að ræða hlýtur að vera grundvallaratriði að leitað sé allra gagna sem máli skipta um náttúrufar landsins og að trúverðugleiki þeirra gagna og þar með notagildi sé síðan metið. Hafi þetta verið gert hvað varðar gróðurfar hálendisins er niðurstaðan vægast sagt furðuleg. Þær tillögur sem gerðar eru um beitarnýtingu hálendisins taka ekki tillit til þeirrar þekkingar sem fyrir hendi er um ástand gróðurs og jarðvegs á hálendinu.``

Það er mjög alvarleg athugasemd sem hér kemur fram, að þær tillögur sem gerðar eru um beitarnýtingu hálendisins taki ekki tillit til þeirrar þekkingar sem fyrir hendi er um ástand gróðurs og jarðvegs á hálendinu. Þeirrar þekkingar var m.a. aflað með gróðurkortum RALA og með rofkortum RALA og Landgræðslu ríkisins.

Herra forseti. Ég er að verða búin að fara yfir þessa tillögu þó að ég hafi aðeins stiklað á stærstu atriðunum en framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs segir:

,,Ekki er annað að skilja en það vaki fyrir skýrsluhöfundum að benda á það sem staðreyndir að hinir ævintýragjörnu ferðamenn skapi mestar tekjur og þeir komi aðeins þar sem aðstæður á hálendinu verði sem frumstæðastar sem aftur kallar á spurninguna: Hvernig fer það saman að hafa mestar tekjur af frumstæðri aðstöðu? Þetta virðist vera meginröksemd skýrsluhöfunda fyrir því að öll uppbygging á hálendinu skuli vera í lágmarki. Ekki er að sjá að þessi skoðun sé studd með niðurstöðum neinna kannana eða rannsókna.``

Náttúruverndarsamtök Íslands segja:

,,Víða skortir grundvallarupplýsingar og rannsóknir sem eru forsenda svæðisskipulagsáætlana. Gögn og tilmæli er varða gróður- og jarðvegseyðingu, beitarstjórn og stefnu opinberra yfirvalda í náttúruverndarmálum eru lítt eða ekkert reifuð í skipulagstillögunni.``

Síðan kemur: ,,Náttúrufræðistofnun Íslands bendir á að í heild vanti skilgreiningar og viðmiðanir um hvað sé merkilegt og hvað þurfi að vernda. Enn fremur er ljóst að mikið skortir á skipulegar skráningar á hinum ýmsu náttúrufarsþáttum.``

Síðan er það Landvarðafélagið:

,,Ekki eru birtar á grunnkortum allar frumstaðreyndir, t.d. um legu núverandi vega og slóða.``

Trausti Valsson og Birgir Jónsson segja:

,,Rétt er að benda á orð skipulagsstjóra á ráðstefnu um svæðisskipulag 20. september að e.t.v. var rétt að svæðisskipulagsnefnd miðhálendisins væri skipuð fulltrúum frá þremur ráðuneytum, forsrn., iðnrn. og landbrn. auk fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Rétt væri að sérstök nefnd á vegum forsrn., landsnefnd, gengi frá grunnlínum skipulags á vegum stjórnvalda á landsvísu áður en að frekari vinnu að svæðisskipulagi miðhálendisins kemur.``

Iðnrn. lætur aftur í sér heyra, herra forseti, og segir að það fagni því að vinna við skipulag miðhálendisins sé hafin en margt í tillögum skipulagsnefndar sé gott en því miður séu að mati ráðuneytisins svo stórir annmarkar á tillögunni að gera þurfi verulegar breytingar á henni áður en tímabært sé að afgreiða hana og staðfesta.

Ferðafélag Íslands leggur til við Skipulag ríkisins og umhvrh. að svæðisskipulagi miðhálendisins verði frestað uns eignarréttarmál verða komin á hreint og þá verði skipulag tekið til gagngerrar endurskoðunar í ljósi nýrra viðhorfa og þá komi fulltrúar allra landsmanna að þeirri vinnu. Í þeirri vinnu verði miðað við að hálendið verði ein skipulagsleg heild til framtíðar.

Framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs bendir á að ekki sé lokið við gerð þeirrar stefnumótunar í ferðaþjónustu sem hófst 1995 og séu hópar hagsmunaaðila enn þar að störfum. Rannsóknum á ferðavenjum og ferðaþjónustu á miðhálendinu sé ábótavant og því bendir framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs Íslands á að eðlilegast væri að fresta afgreiðslu málsins í tvö til þrjú ár og kalla fulltrúa allra atvinnuráðuneytanna að framhaldsvinnunni.

Greinilega er verið að benda á það aftur og aftur að í tillögunum sé ekki nægilega gætt jafnvægis milli verndar- og nýtingarsjónarmiða. Síðan í lokin, herra forseti, segir framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs:

,,Þá er rétt að minna aftur á frv. um þjóðlendur þar sem gert er ráð fyrir nokkurs konar þjóðareign á hluta landsins. Þrátt fyrir það yrði ekki um breytingu að ræða á rétti til skipulags. Skipulag þjóðlendna yrði í höndum viðkomandi sveitarfélaga. Framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs vill enn benda á þá skoðun að tillaga umhvrn. um miðhálendið sem sérstakt stjórnsýsluumdæmi verði tekin upp að nýju og skipuð um það sérstök stjórn og sú stjórn látin gera tillögu að skipulagi þess stjórnsýsluumdæmis miðhálendisins.``

Rarik segir:

,,Nú er svo komið að sú lagaheimild sem samvinnunefndin byggði störf sín á er fallin niður við það að búið er að samþykkja ný skipulags- og byggingarlög. Í nýjum lögum er ekkert fjallað um störf þessarar nefndar eða skipulag miðhálendisins. Í upphaflegu frv. var ákvæði um það en það var fellt út í meðförum þingsins. Því verður ekki betur séð en störf nefndarinnar nú eigi enga stoð í lögum.``

Auðvitað er verið að setja lagastoð undir þessa nefnd og festa hana í sessi til frambúðar í því frv. sem hér liggur fyrir frá umhvrh. í þessu máli.

Herra forseti. Mér fannst nauðsynlegt að benda á hversu alvarlegar þessar athugasemdir eru um miðhálendið og hve gagnrýnd eru vinnubrögðin, hvernig gengið er til verka í þessu máli, hvernig byrjað er á öfugum enda, hvernig ekki er tekið tillit til stefnu stjórnvalda í stórum málaflokkum o.s.frv.

Mér fannst ýmislegt mjög athyglisvert koma fram á ráðstefnu sem var haldin um framtíðarskipulag miðhálendisins á Íslandi fyrir þó nokkru en þar var verið að fjalla um þessi mál. Þar kom m.a. fram það sem mér finnst líka eiga erindi inn í umræðuna, herra forseti, og skal ég ekki þreyta þingheim með því að lesa þetta nákvæmlega yfir þó að það væri e.t.v. ástæða til en hér kemur Magnús Jóhannesson inn á ákveðin atriði og segir:

,,Það sætir vissulega nokkurri undrun að hve miklu leyti umræðan um auðlindir okkar hefur á síðustu árum snúist um þá auðlegð sem fólgin er í miðhálendi Íslands ef frá er talin sú umræða sem orðið hefur um virkjun fallvatna og nýtingu jarðhita. Lítil áhersla hefur verið lögð á lífríki hálendisins og náttúrufar fyrr en á allra síðustu árum. Æ fleiri landsmenn gera sér grein fyrir nauðsyn þess að umgangast miðhálendið og lítt snortna náttúru þess með varúð vegna þess hversu svæðið er vistfræðilega viðkvæmt. Allar breytingar, svo sem um aukna umferð og ný mannvirki ber að ígrunda og reyna að meta áhrif þeirra til framtíðar áður en teknar eru ákvarðanir um framkvæmdir á þessu svæði.``

Þetta er auðvitað hárrétt. Síðan segir: ,,Í raun er þessi nálgun í fullu samræmi við meginsjónarmið nýrrar stefnu í umhverfismálum sem við köllum sjálfbæra þróun og byggist á því að áður en ákvörðun um framkvæmd eða nýtingu náttúruauðlinda er tekin skal leitast við að meta áhrif hennar á samfélagið, þ.e. vistkerfið, svo og langtíma efnahagsleg, félagsleg menningarleg áhrif.``

Auðvitað hefur ekkert af þessu verið gert, herra forseti, eða hvað? Síðar segir Magnús Jóhannesson:

,,Miðhálendi landsins hefur einnig mikið verndargildi fyrir þá sök að þar er að finna flestar uppsprettur grunnvatns sem myndar verðmætasta ferskvatnsforða landsmanna. Að margra mati munu ferskvatnslindir landsins verða með verðmætari auðlindum þjóðarinnar í framtíðinni og því ber við nýtingu miðhálendisins að taka fullt tillit til nauðsynlegrar vatnsverndar á svæðinu. Þá eru einnig ónefndir miklir möguleikar á nýtingu jarðhita víða á miðhálendinu.``

Ég ætla ekki að lesa fleira upp úr þessu þó að full ástæða væri til, herra forseti. En ég tel mig hafa í máli mínu farið ítarlega yfir það hvað við erum að fjalla um grafalvarlegt mál sem mun hafa áhrif um ókomna framtíð og þess vegna eigum við auðvitað að vanda til verka og ekki vera að hlaupa til þess að ákvarða stjórnsýsluna á hálendinu með þeim hætti sem hér á að gera. Ég tel að það sé frumhlaup að gera þetta svona og við séum að fara leið, móta framtíð fyrir miðhálendið, fyrir framtíð komandi kynslóða án þess að menn hafi raunverulega áttað sig á hvert á að stefna í þessu máli, t.d. varðandi stefnumörkun í ýmsum stórum málaflokkum eins og ég hef nefnt hér.

Ég segi það enn og aftur, herra forseti, að það er ekki of seint að fara þá skynsamlegu leið sem Stefán Thors skipulagsstjóri bendir á. Það er ekki of seint að fara hana.

Ég tel ástæðu til þess síðar í umræðunni að fara frekar yfir þær tillögur sem hafa komið fram og ýmislegt athyglisvert sem kom fram í framtíðarskipulagi miðhálendisins á þeirri ráðstefnu sem ég nefndi. Ég vil segja það, herra forseti, að ég teldi skynsamlegast að standa þannig að málum núna að samþykkja frv. forsrh. um þjóðlendur. Að vísu eru ákveðnar breytingar sem þarf að gera á því en grundvallarhugsunin og hugmyndin á bak við það er að miðhálendið sé sameign þjóðarinnar. Það er stórmál sem ég hygg að allur þingheimur styðji og ætti að lögfesta. En ég harma að farið sé í skipulagsþáttinn og stjórnsýsluna á miðhálendinu eins og hér er gert ráð fyrir, eins og hér á að lögfesta á þeim dögum sem eftir lifa af þinginu, herra forseti, og tel að komandi kynslóðir muni ekki þakka okkur sérstaklega fyrir hvernig við stöndum að málinu ef það fer á þann veg sem mér sýnist að stefni í.

Ég vil að síðustu, herra forseti, ítreka þær spurningar sem ég hef lagt fyrir hæstv. umhvrh. sem getur haft mjög mikið um það að segja að skynsamlega sé staðið að þessum málum. Ég þykist vita að hæstv. umhvrh. hafi verið að reyna að leggja sitt af mörkum til að svo geti orðið. En ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst alls ekki að vel hafi tekist til. Mér finnst mikið klúður sett þarna fram að því er varðar svæðisskipulag miðhálendisins, þá breytingu sem boðuð er á skipulags- og byggingarlögum. Mér finnst vinnubrögðin fyrir neðan allar hellur hvað þinginu er boðið upp á. Í miðri 2. umr. um þetta mál er dreift á borð þingmanna hvernig eigi að standa að þeim skipulags- og byggingarþætti sem hefði þurft að vera til umræðu í félmn. um leið og fjallað var um frv. ráðherra. Ég spyr hv. formann umhvn. hvort hann telji ekki ástæðu til þess að hafa frumkvæði að því að boða umhvn. til fundar til að ræða þetta mál. Þó að frv. hafi ekki verið vísað til umhvn., lít ég á þetta sem mikilvægt fskj. við þetta frv. um framkvæmdina á þessu máli og ég spyr formann umhvn. hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að umhvn. verði kölluð saman þannig að hún geti á þeim dögum sem við höfum til stefnu lagt mat sitt á þá þætti sem eru boðaðir í þessu frv. Mér fyndist mjög mikilvægt innlegg við 3. umr. þessa frv. til sveitarstjórnarlaga, ef málið fer svo langt, að umhvn. og jafnvel félmn. sem hefur fjallað hvað mest um málið taki það frv. sem hér er lagt fram til kynningar inn í nefndina og fjalli um það efnislega vegna þess að ég er alveg sannfærð um að það mun hafa mikil áhrif á þá atkvæðagreiðslu sem fer væntanlega fram um þetta frv. hvernig menn meta og túlka það sem lagt er fram í þessu frv. og hvernig eigi að standa að svæðisskipulaginu. Eru menn sáttir við þá breytingu sem lögð er til, að festa í sessi þessa miðhálendisnefnd ásamt því að setja þrjá fulltrúa af suðvesturhorninu í nefndina ásamt einum af Vestfjörðum? Eru menn sáttir við það að miðhálendisnefndin sem nú situr, 12 fulltrúar frá héraðsnefndum aðliggjandi sveitarfélaga, geti staðfest þær tillögur sem liggja fyrir áður en þessi samvinnunefnd tekur til starfa sem er ekki fyrr en 1. janúar 1999?

[21:45]

Ég legg alla áherslu á það, herra forseti, að alla vega umhvn. og helst félmn. líka verði gefið svigrúm til að fara yfir þessa þætti í frv. þannig að við getum fengið glögga mynd af málinu, gleggri en okkur er færð nú við 2. umr. málsins þegar við tökum það aftur til 3. umr. Það er ekki boðlegt af framkvæmdarvaldinu að bjóða þinginu upp á það að þegar umræðan er hafin í þessu máli, einum og hálfum klukkutíma síðar, þá sé dreift mikilvægu gagni í þessu máli, mikilvægu frv. sem hefur úrslitaáhrif á afstöðu margra þingmanna. Það kom bersýnilega í ljós að hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Örn Haraldsson, hafði átt von á allt öðru en því sem hæstv. ráðherra kynnti úr ræðustól. Ég heyrði ekki betur en að hv. þm. sjálfstæðismanna, 2. þm. Reykn., gerði sínar athugasemdir við það. Ég gat ekki beint heyrt að hann væri stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Þetta voru menn sem heyrðu það hér úr ræðustól hvað umhvrh. var að boða. Hvað þá með aðra sem ekki höfðu tækifæri til að vera hér og hlýða á þennan boðskap? Mér finnst að það þurfi virkilega að leggja mat á þetta af hálfu þeirrar nefndar sem um þetta á að véla.

Ég spyr formann félmn. sem kominn er í salinn hvort hún telji ekki ástæðu ...

(Forseti (StB): Forseti vill minna hv. þm. á að hér eru ekki einstakir þingmenn spurðir.)

Ég vil þá spyrja herra forseta að því hvort ekki væri ástæða til þess að formaður félmn. beiti sér fyrir því að hv. félmn. fjalli sérstaklega um þetta frv. á milli 2. og 3. umr., um þetta frv. sem hefur verið dreift til kynningar um breytingu á skipulags- og byggingarlögum og gegnir mikilvægu hlutverki í þeirri umræðu sem hér fer fram og sem ræður afstöðu margra þingmanna til þessa máls sem hér er til umræðu og sem a.m.k. tveir þingmenn og sérstaklega hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hefur gagnrýnt í þessari umræðu og sagt að hann geti ekki fylgt frv. við þessa breytingu. Auðvitað hefðu vinnubrögðin átt að vera þau að félmn. hefði fengið þetta frv. til umfjöllunar og ég er ekki viss um að allir þingmenn hefðu þá stutt málið á þann hátt sem virðist vera vegna þess að mjög margt er við þetta frv. að athuga og ekki síst bið ég hv. þingmenn að lesa þessa greinargerð.

Ég skal fara að ljúka máli mínu. Ég vara mjög alvarlega við því frv. sem hér á að fara að lögfesta, þá þætti þess sem snúa að miðhálendinu. Við erum auðvitað að fjalla um helstu náttúruperlur landsins og auðlindir þjóðarinnar og hér verður að vanda vel til verka. Og, herra forseti, það skulu verða mín lokaorð, það hefur ekki verið gert að mínu mati. Ég tel mig hafa fært fyrir því ítarleg rök og mun væntanlega fylgja þeim eftir nánar síðar við þessa umræðu eins og tilefni gefst til. Ég ítreka spurningar mínar til hæstv. umhvrh., formanns félmn. og formanns umhvn.