Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 22:26:31 (5860)

1998-04-28 22:26:31# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[22:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði líka þannig á fyrri stigum umræðunnar að hún vildi að íbúar þéttbýlisins hefðu sinn rétt til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ber að skilja orð hv. þm. með þeim hætti að sá réttur sé tryggður með því að einn fulltrúi úr Reykjanesi komi að málinu? Má ég minna hv. þm. á að framsóknarmenn í Reykjaneskjördæmi gerðu sérstaka samþykkt til þess að brýna hv. þm. og hv. þm. Hjálmar Árnason til þess að gefa hvergi undan.

Við sjáum hverjar lyktir þessa máls eru. Af því að hv. þm. segir að það sé búið að ráða til lykta skipulags- og byggingarmálum á þessum svæðum langar mig til að spyrja hv. þm.: Hver á að gefa út byggingarleyfi á miðhálendinu?