Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 22:28:11 (5862)

1998-04-28 22:28:11# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[22:28]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt satt að segja að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir væri talsmaður jöfnunar á kosningarrétti. Nú ætlar hv. þm. að sætta sig við í þessu stóra máli sem skiptir svo miklu fyrir framtíð þjóðarinnar að 4--5% þjóðarinnar hafi 12 fulltrúa í að skipuleggja miðhálendið en 95% þjóðarinnar fjóra fulltrúa. Ekki nóg með það heldur hafa þessir fjórir fulltrúar ekki einu sinni ákvörðunarrétt, þeir hafa eingöngu samráðsrétt vegna þess að núverandi miðhálendisnefnd gæti verið búin að ganga frá tillögunum, ráðherra að staðfesta þær og þá þarf einungis að leita álits þessara fjóra fulltrúar sem koma af þessum svæðum.

Ég vil líka spyrja hv. þm. að því með tilliti til þess frv. sem hér liggur fyrir og við erum fyrst að fá á borðin í dag, hvort hún muni sem varaformaður félmn. beita sér fyrir því að þetta mál fari milli 2. og 3. umr. til umfjöllunar í félmn. þannig að nefndin geti metið hvað er á ferðinni því ég held að hér sé á ferðinni allt annað en margir þingmenn áttu von á samanber afstöðu hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar.