Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 22:35:03 (5868)

1998-04-28 22:35:03# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[22:35]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá miklu umræðu sem þetta stjfrv. Alþb. og óháðra fær hér í kvöld þó það sé ekki komið á dagskrá í raun. Við erum eini flokkurinn hér í þinginu sem viljað hefur kannast við þetta mál. Ráðherrann hefur hótað að bregða fæti fyrir málið og stöðva það en við munum freista þess eins og kostur er, þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður, að ná því fram hér í þinginu.

Út af orðum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur vil ég segja að ég mun beita mér fyrir því að málið komist á dagskrá og komist síðan til nefndar. Ég heiti á hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson að tryggja að málið fái afgreiðslu í umhvn. Það þarf ekkert að sitja fleiri, fleiri daga yfir máli af þessu tagi. Málið er bersýnilega þannig að fólk hefur setið lengi yfir því og náð um það pólitísku samkomulagi og þá á að vera hægt að leysa málið á þeim grunni.

Og hv. 13. þm. Reykv. sagði reyndar fyrr í kvöld að málið væri skref í rétta átt þó það væri stutt skref. Ég er því nokkuð sannfærður um að hægt verði að leysa málið ef okkur tekst að brjóta á bak aftur andstöðu ráðherranna sem flytja það.