Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 23:48:42 (5872)

1998-04-28 23:48:42# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[23:48]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið sammála um það, eins og löggjöfin um stjórn fiskveiða hefur þróast á síðustu árum að veruleg ástæða er til að gera greinarmun á þeim sem fara með réttindin og þeim sem eiga þau. Ég geri ekki ágreining við hv. þm. um það að eignarréttur er ekki sama og yfirráðréttur að öllu leyti. Skipulagsmál eru í höndum sveitarfélaga. Sveitarfélög eru partur af ríkinu, partur af hinu opinbera og menn hafa ákveðið að sveitarfélög skuli fara með þessi skipulagsmál yfir löndum sínum, líka löndum sem sveitarfélögin eiga ekki sjálf heldur einstaklingar eða ríkið.

Ég gat um það að ég teldi vel koma til greina að ákveðinn hluti skipulagsmála væri svæðisbundinn en ég gæti ekki séð rökin fyrir því að á ákveðnum stað á landinu væri ómögulegt að hafa þau sveitarfélagabundin, en á öðrum stöðum á landinu væri það í lagi. Þar finnst mér bresta röksemdafærslan í málinu.

Ég er hins vegar enginn sérstakur áhugamaður um það að sveitarfélög fari með skipulagsmál út í ystu æsar. Ég segi það alveg eins og er. Ég er miklu frekar á þeirri skoðun að þetta eigi að vera svæðisbundið verkefni. Ég tel reyndar að miklu fleiri verkefni sem í dag eru í höndum ríkisins eigi að vera svæðisbundin. Sum af verkefnum sveitarfélaga tel ég að eigi að vera svæðisbundin eins og t.d. rekstur grunnskóla sem ég hef aldrei getað samþykkt eða fellt mig við að væri verkefni sveitarfélaga. Ég tel að það eigi að vera fyrst og fremst í höndum ríkisins og ef menn geta ekki fallist á það eigi það að vera svæðisbundið.