Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 23:52:33 (5874)

1998-04-28 23:52:33# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[23:52]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg skilið þau rök að fulltrúar fjölmennra sveitarfélaga telji sig þurfa að hafa íhlutunarrétt um lyktir mála. En ég er ekki endilega sammála þeim. Ef menn telja það fyrirkomulag að skipulagsmál séu almennt verkefni á sveitarstjórnarstigi og telji ekki rétt að breyta því þá á ég bágt með að fallast á að á þessu svæði einu eigi að gilda önnur útfærsla en annars staðar. Ég tel t.d. miklu meira áríðandi að svæðisbundið skipulag sé á höfuðborgarsvæðinu en á miðhálendinu því að þar er miklu meira í húfi. Þar eru miklu fleiri úrlausnarefni sem þurfa að ganga upp en á miðhálendinu. Ég sé ekki að þar sé margt sem þurfi að glíma við umfram það að skipuleggja umferð manna og hesta um það, kannski bíla, ég skal ekki segja um það. Ég get því ekki tekið undir þær áherslur að fulltrúar hinna fjölmennu sveitarfélaga þurfi endilega að eiga þar hlutdeild að ákvörðunum. Mér finnst svo sem engin sérstök ástæða fyrir Vestfirðinga til þess að skipta sér þar af málum. Og jafnvel þó að þar yrði einhver Vestfirðingur þá veit ég að hann verður ekkert kosinn af fólkinu. Hann verður tilnefndur af einhverri fámennri klíku og hann gæti þess vegna líklegast verið einhver embættismaður þannig að ég á helst von á því að þeir sem munu vera valdir í þetta sem fulltrúar fólksins verði einhverjir kontóristar.