Svör við fyrirspurn um kaup Landsbankans á veiðileyfum í Hrútafjarðará

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 10:36:00 (5877)

1998-04-29 10:36:00# 122. lþ. 114.92 fundur 328#B svör við fyrirspurn um kaup Landsbankans á veiðileyfum í Hrútafjarðará# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[10:36]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 13. þm. Reykv. fyrir að taka þetta mál upp vegna þess að það vekur athygli á því að málið þarf að ræða áður en þinginu lýkur. Það er alveg óhjákvæmilegt að þegar þessi svör berast, ef þau koma nú í næstu viku eins og hæstv. ráðherra er að lofa ef ég skildi hann rétt, þá verða þau auðvitað að koma til umræðu í þinginu þannig að hægt verði að fjalla um þau í samhengi við aðra hluti sem er óhjákvæmilegt að ræða hér.

Ég vil bæta því við, herra forseti, að þingflokkur Alþb. og óháðra óskaði eftir því að Ríkisendurskoðun gerði sérstaka úttekt á Búnaðarbankanum og Seðlabankanum, hliðstæða úttekt og fram fór á Landsbankanum og kynnt var fyrir nokkru og þjóðfræg varð á sínum tíma. Ég vil bæta því við, herra forseti, að ég tel mjög æskilegt, að ekki sé meira sagt, að Ríkisendurskoðun flýti svo þeirri úttekt að hún geti einnig komið til umræðu áður en þinginu lýkur því að þessi mál eru þess eðlis að Alþingi verður að fá að ræða þau í heild. Þess vegna leyfi ég mér að nota tækifærið til að fara fram á það við hæstv. forseta að hann kanni hvort ekki verði tryggt að Ríkisendurskoðun geti skilað þessum skýrslum um Búnaðarbankann og Seðlabankann upp úr næstu helgi þannig að þessi mál geti komið hér til umræðu í næstu viku áður en þinginu lýkur.