Frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 10:51:42 (5886)

1998-04-29 10:51:42# 122. lþ. 114.93 fundur 329#B frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[10:51]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eins og ég veit að forseta er kunnugt er nú orðið samkomulag um alla hluti milli A-flokkanna þessa dagana. Það sem ég vildi segja, herra forseti, er að auðvitað er staðan fullkomlega óeðlileg. Umræðan um sveitarstjórnarlög snýst að verulegu leyti í kringum málamiðlun sem lögð er fyrir þingið, til kynningar í formi frv. um breytingar á skipulagslögum. Ljóst er að það var forsenda málamiðlunar sem náðist hjá stórum hluta félmn.

Nú hefur það hins vegar komið í ljós að af þeim þremur stjórnarþingmönnum sem hafa tjáð sig um málið er einn algerlega á móti því. Einn hefur lýst því yfir að það gangi ekki nógu langt til þess að fullnægja hans sjónarmiðum. Jafnframt kom í ljós að þriðji þingmaðurinn, sem reyndar gumaði af því í umræðum í gær að eiga höfundarrétt að frv., hún skildi það ekki. Málin eru í mjög undarlegri stöðu hérna og það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin skýri hvað er í rauninni á seyði. Frv. er lagt fram til kynningar en hér hafa a.m.k. tveir stjórnarþingmenn lýst því yfir að þeir muni beita sér fyrir verulegri breytingu á því.

Hér er um að ræða lykilatriði, herra forseti, og nauðsynlegt að málið verði skýrt á einhvern hátt. Í mjög stuttri ræðu í gær má eiginlega segja að hæstv. umhvrh. hafi mælt fyrir þessu máli og þar með leitt það inn í umræðuna. Mér finnst, frá þeim sjónarhóli sem Alþb. og óháðir hafa talað í dag, fullkomlega eðlileg krafa af þeirra hálfu að málið komi til afgreiðslu. Ég tel málið stórkostlega gallað. Það veldur mér auðvitað ákveðnu angri að þegar hæstv. umhvrh. mælti fyrir frv., þá var ræða hans og sú túlkun sem kom fram í ræðunni öll önnur en venjulegir skynibornir menn geta lesið úr greinargerðinni. Ég tel því að málið sé í algeru uppnámi og ekki hjálpar það okkur til að komast að einhvers konar niðurstöðu.