Frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 11:01:31 (5891)

1998-04-29 11:01:31# 122. lþ. 114.93 fundur 329#B frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum# (um fundarstjórn), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[11:01]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Við kvennalistakonur eigum ekki aðild að hv. félmn. og erum enn þá ekki komnar á dagskrá í þessu umdeilda máli sem um er rætt, þ.e. sveitarstjórnarlögunum. En áður en lendingin varð í sambandi við álit bæði félmn. og allshn. í sambandi við þjóðlendufrv., þá höfðum við spurnir af þessari lausn sem var í smíðum í sambandi við breytingar á skipulagslögum. Ég verð að segja það fyrir mig að ég vildi fá að vita hvernig sú lausn yrði áður en ég ákvæði hvort ég mundi leggjast gegn þessum ákvæðum sveitarstjórnarlaganna og koma með brtt. við þjóðlendufrv. í samræmi við það. Mér heyrðist að lausnin yrði ekki fullnægjandi. Við kvennalistakonur styðjum þá afstöðu sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og þingflokkur jafnaðarmanna hefur tekið í þessu máli og ég vil að það komi fram vegna fréttaflutnings þar sem við erum ekki enn þá komnar á mælendaskrá.

Mér sýnist á þessu frv. sem var dreift hér í gær að það sé allsendis óviðunandi til að tryggt verði að hálendið verði skipulagsleg heild í stað ,,tertusneiða``. Ég er ekkert hissa á afstöðu formanns umhvn. og þeirra stjórnarliða sem telja það ófullnægjandi. Mér sýnist því þetta mál núna vera allt hið undarlegasta. Mér er engan veginn ljóst t.d. hvort Alþb. styður málið núna eða ekki þar sem málamiðlunarlausnin virðist vera mjög veik og sama er að segja um stjórnarflokkana, þ.e. þá liða sem upphaflega bundu vonir við þessa lausn.

Ég styð það að þetta frv. hæstv. umhvrh. komist hér á dagskrá því að málið er allt hið undarlegasta eins og það stendur núna.