Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 11:11:22 (5897)

1998-04-29 11:11:22# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[11:11]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir hv. Alþingi um sveitarstjórnarmál er heilmikill lagabálkur sem hefur verið til meðferðar í hv. félmn. í nokkra mánuði. Ég tel að meðferð þess máls og málatilbúnaður allur af hálfu nefndarinnar og ráðuneytisins sé til fyrirmyndar og leitað hafi verið álits um allt land þar sem hægt er að fá álit á slíku máli til að hægt sé að betrumbæta það sem hægt er að laga. Hygg ég að það hafi tekist að ná fram frv. sem ætti að geta lifað nokkuð lengi og þjóðin og sveitarstjórnarmenn að geta sætt sig við til nokkuð langs tíma.

Þetta frv. nær yfir alla þætti sveitarstjórnarmála sem koma að sjálfsögðu í dag að öllum hugsanlegum þáttum mannlífsins og er því af mörgu að taka ef á að ræða slíkt mál til hlítar. Ég mun að sjálfsögðu ekki gera það, enda margir sem ræða þetta og þeir sem mikinn áhuga hafa lesa að sjálfsögðu slík lög sem þessi, greinargerðir og málflutning sem því fylgir.

Ég vildi aðeins tæpa á fáeinum atriðum og vil byrja á því að minnast á fjármál sveitarfélaganna en fjármál sveitarfélaga hafa verið mesta áhyggjuefni ríkisstjórna og sveitarstjórna almennt, þ.e. að fjármálin fari fram með eðlilegum hætti og ekki sé hægt að gagnrýna meðferð fjármuna og arðgreiðslna til að mynda innan sveitarstjórna sem tíðkast hafa í langan tíma.

Í 7. gr. frv. er sérstaklega tekið á arðgreiðslum fyrirtækja í eigu sveitarfélaga. Við þetta frv. kom ákveðin brtt. frá hæstv. félmrh. til nefndarinnar sem var á þá leið að sveitarfélög eigi að setja sér stefnu um arðgjöf og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og þeim sé heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra. Þessi viðbót kemur inn í 7. gr. eins og hún er í frv. þar sem sagt er að sveitarfélög skuli hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanir annast.

Þetta er að sjálfsögðu mikið og stórt mál. Hér er verið að tala um arðgreiðslu fyrirtækja eins og Hitaveitu Reykjavíkur, Rafmagnsveitu Reykjavíkur og annarra stórra fyrirtækja sem fyrst og fremst eru á höfuðborgarsvæðinu en eru þó víða um land. Samkvæmt ársreikningum Reykjavíkurborgar fara milljarðar úr þessum fyrirtækjum í borgarsjóð til þess að standa undir verkefnum á vegum Reykjavíkurborgar. Þetta getum við sagt að sé eðlilegt ef um væri að ræða fyrirtæki sem einungis væru að selja þjónustu til Reykjavíkur og þeirra sem njóta þá arðsins en svo er nú ekki heldur er verið að taka þessar arðgreiðslur af sölu af heitu vatni og hugsanlega annarri þjónustu, rafmagnsveitu og vatnsveitu sem er seld til sveitarfélaga í kringum höfuðborgina, sem sagt flestallra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

[11:15]

Mörgum hefur þótt dálítið súrt að greiða miklu hærra orkuverð en er í raun nauðsynlegt til að standa undir eðlilegum rekstri Hitaveitu Reykjavíkur og hafa sveitarfélög í kring gagnrýnt að slík gjaldtaka skuli vera í svo miklum mæli sem raun ber vitni. Ég vildi vekja sérstaka athygli á þessu hér, samkvæmt þeim yfirlýsingum sem við höfum fengið í hv. félmn. og er ástæðan fyrir að ég geri ekki sérstaka athugasemd við þetta er að borgaryfirvöld hafa á prjónunum að gera sérstakan samning við þau sveitarfélög sem njóta þjónustu frá Hitaveitu Reykjavíkur og annarrar þjónustu frá veitustofnunum Reykjavíkurborgar og semja um hlutdeild þessara aðila í arðgreiðslum. Mér fyndist mjög eðlilegt að það yrði gert og af þessu verði sem er þá eina ásættanlega lausnin svo hægt sé að réttlæta slíka arðtöku sem er í eins stórum mæli og raun ber vitni.

Mér er kunnugt um að ekki hefur farið fram nein sérstök umræða um þetta enn þá en ég vænti þess að svo verði. Ef ekki, má búast við verulegum mótmælum af hálfu sveitarfélaga í kringum höfuðborgina gagnvart þessu gjaldi og spurning um hvort löggjafinn þurfi með einhverju móti að koma að slíku ef ekki rætist úr í samningum milli sveitarfélaga. Þetta vildi ég sagt hafa í þessari umræðu, herra forseti, þannig að það komi fram að við höfum rætt um arðgreiðslurnar í hv. félmn. og teljum að þar verði að bæta úr í frjálsum samningum sem er eðlilegast en ef það tekst ekki verði að grípa til annarra ráða.

Í þessu frv., herra forseti, eru mörg önnur mál sem teljast kannski ekki til stórtíðinda en ég vil vekja athygli á einu litlu, varðandi t.d. fyrsta fund sveitarstjórnar. Hingað til hefur verið tíðkað að til fyrsta fundar sveitarstjórnar kallar aldursforseti sveitarstjórnar saman og stýrir honum og kjöri á embættismönnum sveitarstjórnarinnar sjálfrar. Nú er verið að breyta þessu ákvæði skv. 13. gr. þannig að nú er það sá sem hefur lengsta setu í sveitarstjórn sem kallar til fyrsta fundar og stýrir honum þar til þeir embættismenn eru kosnir sem samkomulag er um af hálfu sveitarstjórnarinnar sjálfrar. Þarna er því verið að fara inn á sömu braut og hefur tíðkast í þinginu þar sem fer saman aldur og starfsaldur þingmanna sem leiðir til þess að hann stjórni fyrsta fundi þings eftir kosningar, (Gripið fram í: Reynsla.) sem er reynsla.

Önnur atriði sem koma inn í þetta eru t.d. hæfi sveitarstjórnarmanna til að taka þátt í stjórnum fyrirtækja í eigu sveitarfélagsins og stofnana í umsjá sveitarfélagsins. Nokkuð er tekið á því að sveitarstjórnarmenn geti ekki verið beggja megin við borðið ef hægt er að orða það þannig. Það hefur tíðkast nokkuð lengi að menn hafa getað starfað hjá sveitarfélagi og setið í sveitarstjórn um leið en það er litið á það nokkru hornauga og við gerum ráð fyrir að eðli máls samkvæmt gæti sveitarstjórnarmenn sín.

Annað mál sem er kannski ekki stórmál er í 50. gr. og er um þóknun fyrir nefndarstörf. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að þóknun fyrir nefndarstörf yrði skylda en ekki var fallist á það í félmn. Ég hefði talið í lagi út af fyrir sig að hafa það sem skyldu að sveitarstjórnir og nefndir á vegum sveitarstjórna fengju einhver laun. Í mínum huga eru allar nefndir jafnmikilvægar og ef hægt er að borga einni nefnd á að vera hægt að borga öllum nefndum. Spurningin er einvörðungu sú hvernig á að skipta þeirri köku sem snýr að fjármálum og launum nefndarmanna, ekki það hvort sumar nefndir eigi að fá greitt frekar en aðrar. Í mínum huga er eðlilegt að sveitarstjórnir geti ekki raðað þannig upp mikilvægi nefnda að sumar fái ekki neitt en aðrar verulegt, að það væri skylda að greiða nefndum og fulltrúum í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélaga hæfilega þóknun og vildi ég að það kæmi fram að slíkt finnst mér eðlilegt og óeðlilegt að mismuna þeim.

Ef við komum að fjárfrekum fjárfestingum skv. 65. gr., þ.e. fjármálum sveitarfélaga, er hægt að segja um fjármál sveitarfélaganna að þar hefur gætt vaxandi ábyrgðar af hálfu sveitarstjórnarmanna og almennt er farið að líta það mun alvarlegri augum en áður var þegar ráðist er í fjárfrekar framkvæmdir eða þegar verið er að setja meiri byrðar á sveitarsjóð en menn sjá fyrir að hann geti risið undir nema á mjög löngum tíma. Vil ég benda þar á ýmislegt sem sveitarstjórnir hafa gert til að sjá betur yfir rekstur sinn en það er með útgáfu árbókar sveitarfélaganna sem hefur verið með mikinn samanburð á ýmsum rekstrarþáttum sveitarfélaganna sem er mjög mikilvægur fyrir sveitarstjórnarmenn til að geta borið saman. Einnig hefur verið af hálfu Sambands íslenskra sveitafélaga gefinn út samræmdur ársreikningur sveitarfélaga eða bókhaldslykill þannig að sveitarfélög færi upp bókhald sitt samanburðarhæft. Hefur þetta allt orðið til þess að menn eiga auðveldara með að sjá hvort eitthvað hefur farið úrskeiðis og hvort ástæða sé til að skoða það frekar.

Í kaflanum um fjármál sveitarfélaga er margt nýtt sem er sett í lög og m.a. um fjárfrekar fjárfestingar, sbr. 65. gr. Þar er gert ráð fyrir því ef fjárfestingar fari yfir ákveðið hlutfall af skatttekjum sé það skylda að fá umsögn sérfróðs aðila um kostnaðaráætlun og væntanleg áhrif hennar á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á fyrirhugðum verktíma og áætlun um árlegan rekstrarkostnað fyrir sveitarsjóð sé um hann að ræða. Samt er náttúrlega ljóst að í sumum tilvikum getur verið erfitt fyrir lítil sveitarfélög að uppfylla þetta en það getur líka verið að menn sjái þá þó frekar hvernig ætti að snúa sér í fjárfestingum en þeir hafa gert. Við þekkjum að lítil sveitarfélög, 500--1.000 manna sveitarfélög, hafa stundum verið að reisa sér hurðarás um öxl með byggingu stórra mannvirkja eins og íþróttamannvirkja af ýmsum toga. Þetta hefur tekið svo í sum sveitarfélög að það hefur tekið árafjölda að ná niður þessari fjárfestingu og annað setið á hakanum þannig að það hefur heft getu sveitarfélagsins til að sinna öðrum verkefnum. Ég er ekki að segja að þessi verkefni hafi ekki verið nauðsynleg eins og íþróttamannvirki heldur er það oft spurning við nánari athugun á fjármálum og fjárfestingum til framtíðar hvort menn hefðu farið hægar. Ég ætla ekki að segja neitt sérstakt um það annað en að það getur verið erfitt í mörgum tilvikum fyrir þessi litlu sveitarfélög að uppfylla þetta en gæti orðið þeim til góðs.

Við þekkjum fjárfestingar sem hafa verið gerðar þannig að það kemur ekki fram í ársreikningum nema við hvert ár að um fjárfestingu sé yfirleitt að ræða. Þá er ég að meina að sum sveitarfélög hafa gert fjárfestingarsamninga áratugi fram í tímann, t.d. í landakaupum hafa menn einungis gefið út afsal fyrir hluta af kaupunum þannig að kaupin teljast ekki skuld í þess orðs merkingu á efnahagsreikningi heldur er það fjárfesting á hverju ári sem stendur yfir í áratugi. Ef slík fjárfesting yrði tekin í einu lagi, þar sem um skuldbindingar er að ræða, mundi hún geta fallið undir ákvæði 65. gr. Ég velti því fyrir mér hvernig menn komist fram hjá slíkum ákvæðum en þetta er eitt af því sem verður að hafa í huga að er tíðkað og í sjálfu sér kannski ekki ástæða til að agnúast neitt út í.

Eitt atriði sem er mjög merkilegt í þessari frumvarpssmíð og lagasmíð er eftirlitsnefnd skv. 74. gr. 74. gr. gefur ákveðinni þriggja manna eftirlitsnefnd það hlutverk að fylgjast með fjármálum sveitarfélaganna. Það kemur í raun í stað ráðuneytisins sem hefur hingað til haft þá skyldu. Nefndin á að geta farið ofan í fjármálin og gert athugasemdir og ráðstafanir skv. 75. gr. ef um fjárþröng er að ræða og gripið inn í til aðgerða hafi sveitarstjórn ekki sinnt ákvörðun nefndar eða ef nefndin telur viðbrögð sveitarstjórnar í framhaldi af viðvörun nefndarinnar ófullnægjandi. Í 2. mgr. 75. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Eftirlitsnefnd skal þá tafarlaust láta fara fram rannsókn á fjárreiðum og rekstri sveitarfélagsins og leggja síðan fyrir sveitarstjórn að bæta það sem áfátt kann að reynast innan hæfilegs frests.``

Nefndin getur fyrir það fyrsta sett ofan í við sveitarstjórnina. Hún getur farið yfir öll skjöl og málsskjöl sem eru í sveitarstjórninni til að grafast fyrir um ástæður og framvindu og síðan eru ýmis ákvæði um það sem nefndin getur gert til að koma málum sínum á framfæri sem varða jöfnunarsjóð og önnur mál. Nefnd eins og þessi á sér engin fordæmi svo vitað sé annars staðar í heiminum. Ekki er ég að segja að það sé ekki gott heldur er þetta mjög sérstakt. Einu áhyggjurnar sem ég hef af þessu eru þær að menn geti skýlt sér á bak við slíka nefnd, sveitarstjórnarmenn geti sagt að það hafi ekki komið viðvaranir ef í óefni er komið og þar með sagt sem svo: Ja, eftirlitsnefndin hafði ekki samband og við héldum að við værum í góðum málum og mættum halda áfram fjárfestingum okkar. En þar sem eftirlitsnefndin mundi ekki gera þær ráðstafanir sem lögin kveða á um þá sé enginn ábyrgur. Ég held samt að maður eigi ekki að þurfa að taka þann pólinn í hæðina og það verði alltaf bara einn skipstjóri á skútunni, í þessu tilfelli sveitarstjórnin og bæjarstjóri eða sveitarstjóri eftir atvikum. Við verðum að líta jákvætt á þetta sem ábyrgðar- og metnaðarfulla aðferð sveitarstjórnarmanna því þetta er tillaga frá þeim til að ná enn betur utan um fjármál sveitarfélaganna. Að þessu leyti vona ég því að þetta verði til að styrkja fjármál sveitarfélaganna en ekki að draga úr ábyrgðarhlutverki sveitarstjórnarmannanna.

[11:30]

Eitt atriði enn varðandi fjármálin er 73. gr., um ábyrgðir sveitarfélaga. Það er þekkt úr fjármálasögu og atvinnusögu sveitarfélaga á síðustu áratugum að sveitarstjórnir hafa gengið í ábyrgðir fyrir fyrirtæki úti í bæ til að halda atvinnulífinu gangandi í sveitarfélaginu, til að bjarga atvinnulífinu frá hruni að mati sveitarstjórna og/eða að koma af stað nýjum atvinnurekstri í stað þess sem hefur orðið að víkja eða flust úr bænum. Þetta var gert mjög ótæpilega á sínum tíma þegar leyfilegt var að taka sjálfskuldarábyrgðir í nafni sveitarfélagsins og einfaldar ábyrgðir jafnframt. Sjálfskuldarábyrgðir voru mjög algengar og fóru mjög illa með fjárhag margra sveitarfélaga og ætla ég ekki að telja upp nein dæmi þess, menn þekkja það úr fréttum. Eftir að sjálfskuldarábyrgð var bönnuð var samt heimilt að taka einfaldar ábyrgðir, sem þýðir að ekki er hægt að krefja sveitarfélagið um greiðslu ábyrgðarskuldbindingar sinnar fyrr en viðkomandi fyrirtæki hefur verið lýst gjaldþrota og gert upp, þá er hægt að ganga að sveitarfélaginu. Þetta var gert mjög mikið og ég þekki dæmi þess þar sem sveitarfélag var að tapa allt upp í 25% af tekjum sínum á einu ári í greiðslur á slíkum ábyrgðum og dæmi um miklu alvarlegri mál. Oft var þetta gert í því augnamiði eins og fyrr að bjarga fyrirtækjum sem voru komin í þrot. Því miður er það staðreynd bæði hjá sveitarfélögum og bönkum að slíkar björgunaraðgerðir eru venjulega of seint á ferðinni og eru einungis lenging í hengingaról sem færist þá frá banka eða einhverjum sjóðum, eða jafnvel einstaklingum yfir á sveitarsjóð og hann þarf að blæða.

Með þessari grein er tekin út sú heimild sveitarfélaga að veita einfalda ábyrgð. Nú mega sveitarfélög ekki binda sveitarsjóð í ábyrgðum vegna skuldbindinga annarra aðila, mega ekki binda nema stofnanir sveitarfélagsins. Í þessu felst verulega mikil breyting sem ég hygg að eigi eftir að létta áhyggjum af mörgum sveitarstjórnarmanninum því þetta hefur oft verið mjög erfið ákvörðun fyrir sveitarstjórnarmenn að taka. Í litlum sveitarfélögum er þetta mjög nærri sveitarstjórnarmönnum og þeir oft í erfiðleikum með að hafna ósk vina og kunningja og kannski atvinnufyrirtækja sem staðið hafa í eldlínunni áratugum saman og eiga í erfiðleikum um aðstoð eftir langan og farsælan feril, en samkvæmt þessu verður það ekki hægt.

94. gr. er lítil grein um sameiningu sveitarfélaga og sameiningu yfir kjördæmamörk. Stækkun sveitarfélaga er heiti kaflans, VIII. kaflans, og er að sjálfsögðu mikill og góður bálkur. Ekki er breytt þeim ákvæðum sem hafa verið inni að sveitarfélög sem eru með 50 íbúa og fleiri geti haldið áfram að vera sjálfstæð sveitarfélög. Það er einungis þegar þau eru með færri íbúa en 50 að það má með stjórnvaldsákvörðun sameina það næsta sveitarfélagi. Nú má sameina sveitarfélög yfir kjördæmamörk, sem var ekki hægt áður nema með sérstakri lagabreytingu og er þetta ákvæði þó ekki hugsað þannig að hvaða sveitarfélag sem er geti sameinast öðru, t.d. að Raufarhöfn geti sameinast Reykjavík af því að sveitarstjórnarmönnum líkaði það betur eða að Garður mundi sameinast Garðabæ af því það passaði vel upp á nafnið, sem er nú reyndar í sama kjördæmi. Margt gæti komið upp í hugann til gamans en þetta er hugsað til að sveitarfélög geti sameinast samliggjandi sveitarfélagi sem er í öðru kjördæmi og fyrst og fremst hugsað til að koma til móts við praktísk sjónarmið og er það mjög eðlilegt að slíkt sé leyfilegt. Spurningin er náttúrlega alltaf sú hvort hækka eigi mörkin þar sem sveitarfélög geti verið sjálfstæð, hækka þau sem sé upp fyrir 50 íbúa markið og hefur það svo sem verið til umræðu í mjög langan tíma hjá sveitarfélögum en aldrei náðst samkomulag um það. Ég get tekið undir þau sjónarmið sem komið hafa fram hjá hæstv. félmrh. að best og eðlilegast sé að þetta frumkvæði komi frá sveitarstjórnunum sjálfum, frá íbúunum sjálfum í stað þess að setja það í lög og skikka sveitarfélög til sameiningar. En það hefur oft heyrst hjá sveitarstjórnarmönnum, og ég hef heyrt það sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður, að markið upp í 300 íbúa væri eðlilegra og mundi flýta mjög fyrir sameiningum.

Ekki er hróflað við þessu enda kannski ekki ástæða til þar sem enn er mikil sameiningarbylgja í landinu og ljóst að sveitarstjórnir með vaxandi verkefnum og aukinni ábyrgð sjá sér ekki annað fært en reyna að sameinast og ná betri og traustari rekstri undir sín fjölbreyttu verkefni.

Herra forseti. Ég hef tæpt hér á nokkrum atriðum. Síðasta atriðið sem ég ætla að minnast á er ákvæði til bráðabirgða um að staðarmörk sveitarfélaga skuli liggja upp til miðju landsins en skv. 1. gr. skal allt landið vera skipulagt eða eins og segir:

,,Landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.``

Samkvæmt skipulagslögum er landið síðan allt skipulagt en í bráðabirgðaákvæði segir:

,,Gengið skal út frá að staðarmörk sveitarfélaga, sem liggja að miðhálendi Íslands, verði framlengd inn til landsins. Sama gildir um staðarmörk sveitarfélaga á jöklum. Skal miðað við sýslumörk þar sem það á við, en heimilt er að víkja frá þeim með samkomulagi viðkomandi sveitarstjórna.``

Þetta bráðabirgðaákvæði er nauðsynlegt af ýmsum ástæðum en kannski fyrst og fremst til að hægt sé að skipuleggja hálendið skv. 12. gr. skipulags- og byggingarlaga, þ.e. svæðisskipuleggja það en samkvæmt áliti Tryggva Gunnarssonar, lögmanns og fulltrúa í óbyggðanefnd, er nauðsynlegt til að öll ákvæði skipulagslaganna nái gildi sínu að taka fram með þessu bráðabirgðaákvæði að allt landið sé skipulagt því samkvæmt skipulagslögunum má ekki svæðisskipuleggja nema yfir umdæmamörk sveitarfélaga og ef umdæmamörkin eru engin, ef land er utan umdæma sveitarfélaga, er engin heimild í lögum til að skipuleggja það yfirleitt. Þess vegna þarf að samþykkja skipulags- og byggingarlögin svo 12. gr. og aðrar greinar virki að þessu leyti. Það er ein ástæðan fyrir því að bráðabirgðaákvæðið er mjög nauðsynlegt þannig að við náum yfir skipulagsþáttinn sem mér heyrast allir vera sammála um að sé eitt af því sem allir vilji á einn eða annan hátt, þ.e. að ná yfir skipulagsþátt hálendisins. Sumir vilja að þetta verði eitt sjálfstætt sveitarfélag eða eitthvert einskismannsland sem verði með sérstakri stjórn sem skipuleggi það en samkvæmt því frv. sem meiri hluti Alþingis er að leggja fram er gert ráð fyrir að landið allt verði skipulagt og sveitarfélögin nái yfir allt landið þannig að þau verði skipulögð með þeim hætti og stjórnsýsla sveitarfélaganna nái yfir allt landið.

Það þarf ekki rekja það lengi og þekkist úr fréttum að vegna skipulagsleysis hefur verið mjög erfitt að halda utan um t.d. ferðamannastraum á ákveðnum stöðum landsins þannig að hann verði skipulagður með það í huga að landið þoli hann. Einnig hefur verið komið upp ýmsum kofum og skálum víða um land í leyfisleysi, sem hefur verið gert stundum í samkomulagi við sveitarstjórnir sem hafa ekki haft neitt umboð til að leyfa byggingu neinna skála uppi á hálendinu, vegna þess að þau höfðu ekki lögsögu samkvæmt lögum yfir því landi. Það hefur því ríkt algjört stjórnleysi á ákveðnum stöðum landsins sem hefur þar að auki leitt til þess að nýting á landinu getur verið erfiðari vegna óvissu um eignarhald. Óvissu um eignarhald verður eytt með öðrum lögum sem verða til umræðu hér síðar, þ.e. þjóðlendumálið, en allt saman tvinnast þetta þó í eina heild, þjóðlendumálið og sveitarstjórnarmálin þannig að það er ekki hægt að tala um annað án þess að minnast á hitt í leiðinni.

Því hefur verið verið haldið fram að með því að heimila sveitarstjórnunum einum að skipuleggja landið sé verið að taka rétt af þéttbýlisbúum og jafnvel að það verði til þess að girðingar verði settar eða vegir lokaðir til að innheimta fjármuni af höfuðborgarbúum sem hafi hugsað sér að fara í gönguferð eða bíltúr uppi á hálendinu. Að sjálfsögðu er það nú svo að flestir bændur og sveitarstjórnarmenn fagni því að höfuðborgarbúar og þéttbýlisfólk hafi áhuga á landinu og því er náttúrlega tortryggni af þessu tagi óþörf. Þar að auki hygg ég að allir þeir sem unna landinu vilji helst af öllu að sem flestir geti komist þangað, þannig að ég held að slíkar vangaveltur sem komið hafa fram frá ýmsum séu mjög langt sóttar. Ég held líka að óhætt sé að segja, herra forseti, að þegar við lítum á skipulag hálendisins sem slíkt þá er, eins og ég sagði áðan, ekki heldur verið að tala um að 40 sveitarfélög sem telji einungis 4% íbúa landsins eigi að ráða yfir 40% eða 50% landi þjóðarinnar heldur er verið að tala um samspil margra aðila. Verið er að tala um samspil með svæðisskipulaginu sem er hægt að gera vegna ákvæðis til bráðabirgða í sveitarstjórnarlögunum. Það er sem sagt hægt að gera svæðisskipulag af jöklunum og af öllu hálendinu með þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Svæðisskipulagið getur náð til svo margra þátta sem ráðherra ákveður, m.a. landnýtingar, vegagerðar, skipulags í ferðamálum, skipulags í virkjunarmálum og í raun nánast hvers sem ráðherra kýs. Ráðherra getur svo samkvæmt 12. gr. ákveðið hverjir verða í þessari nefnd. Nefndin leggur línurnar fyrir aðalskipulag sem sveitarfélögin setja sjálf en geta ekki sett nema í samræmi við svæðisskipulagið og deiliskipulagið kemur svo að sjálfsögðu í framhaldi af aðalskipulagi og verður að vera í einni samfellu við upphafið.

[11:45]

Til þess að koma til móts við ýmsar tortryggnisraddir sem hafa efast um að hæstv. umhvrh. mundi skipa svæðisskipulagsnefnd um miðhálendið hafa stjórnarflokkarnir fallist á að leggja fram breytingar á skipulags- og byggingarlögum sem hæstv. umhvrh. hefur þegar lagt fram en meginatriði þeirrar tillögu lýtur að því að ekki séu lengur heimildarákvæði að setja svæðisskipulagsnefnd fyrir miðhálendið heldur sé það skylda og það er meginmunurinn á þessu frv. til laga og svo lögunum eins og þau eru í dag. Þar er ráðherra heimilt að gera þetta en samkvæmt þessari breytingu, ef fram gengur, þá verður það skylda. Ég hef fyrir mitt leyti fallist á að það verði sett í lög að þetta verði skylda.

Aftur á móti hef ég sagt að mér finnist að það sé útfærsluatriði hverjir komi að slíkri svæðisskipulagsgerð. Þess vegna finnst mér ekki endilega hægt að segja að einvörðungu sveitarstjórnarmenn eigi að sitja í slíkri svæðisskipulagsnefnd. Ég sé fyrir mér ýmsa hópa sem gætu haft einhvern aðgang að slíkri nefnd, við skulum segja ferðamannaiðnaðinn. Við getum talað um útivistarhópa eins og skotveiðimenn og við getum ímyndað okkur ferðafélög og ýmsa aðra aðila sem hafa sýnt mikinn áhuga á hálendinu og nýtingu landsins til þeirra fjölþættu nota sem við þekkjum. En hvað sem hv. þingmenn eru að segja um ágreining um frv., þá ætla ég ekki að leggja neitt út frá þeim ágreiningi sem virðist vera frá hv. formanni umhvn. sem ég átta mig ekki alveg á hvers vegna er á móti þessu sérstaka skjali vegna þess að ég veit ekki annað en þetta skjal sé mjög svipað því sem hafði verið rætt áður um að leggja fram en svona breytast vindarnir. Ekki er alltaf hægt að átta sig á því hvað menn vilja endilega þegar upp er staðið eða hvort þeir hafa viljað nokkuð. En í þessu tilfelli hefur verið gengið til móts við þá hópa sem hafa haft áhyggjur af því að umhvrh. mundi ekki skipa svæðisskipulagsnefnd. Það kemur reyndar dálítið á óvart að þar skuli ganga fremstur í flokki formaður umhvn. sem er jafnframt samflokksmaður umhvrh. Mér finnst þetta heilmikið vantraust á umhvrh., sem ég treysti til allra góðra verka og hefði talið þetta óþarfa, en mér heyrist að hv. þm. ætli að halda áfram þessu sjónarspili sem ég get ekki kallað neitt annað en sjónarspil því það er alveg ljóst og hefur komið ítrekað fram að þessi mál verða leyst í fullri sátt við þá hópa sem hingað til hafa látið í sér heyra og þetta verður einnig leyst í fullri sátt við sveitarfélögin og mér finnst hálfsorglegt að hafa orðið vitni að því hvernig reynt hefur verið að mála þetta einhverjum litum sem eiga ekki við því að allir sem ég þekki og koma að þessu máli af hálfu ríkisstjórnarinnar vilja ekkert annað en að hér skapist tækifæri til að ná tökum á vandamáli og kannski á framtíðinni á þessu viðkvæma og þessu fallegasta landi í heiminum. Á okkur hvílir sú ábyrgð og undan henni munum við ekki víkjast.

Ég minni á það að lokum varðandi þessa svæðisskipulagshugmynd að hæstv. umhvrh. hefur sýnt þá ábyrgð að skipa slíka nefnd. Hann er búinn að því, gerði það fyrir nokkrum árum. Sú nefnd er að störfum og hefur lagt fram hugmyndir um skipulag að miðhálendinu. Sú nefnd er undir forustu Snæbjarnar Jónassonar, fyrrverandi vegamálastjóra. Að henni sitja svo héraðsnefndir sem hafa átt legu að hálendinu. Ég held að það sé grunnur að frekari vinnu að svæðisskipulagi hálendisins.

Heyrst hefur frá ýmsum hópum, herra forseti, að ýmsum, við skulum segja skotveiðimönnum og veiðimönnum, yrði bannað að fara um þjóðlendurnar og hálendið í veiðitúrum eins og þeir hafa gert fram að þessu ef þetta frv. nær fram að ganga. Þetta er að sjálfsögðu mikill misskilningur. Áhyggjur þeirra hafa reyndar komið til umræðu áður í þinginu, og ég gerði persónulega sérstaka fyrirspurn til hæstv. forsrh. í umræðum um þjóðlendufrv. hvernig hann liti á þetta sérstaka mál sem varðaði skotveiði í þjóðlendum. Ég spurði um hvort einhverjar breytingar væru í frv. um þjóðlendur sem bönnuðu veiðar á villtum dýrum og fuglum innan þjóðlendna, sbr. lög nr. 64/1994. Í svari hæstv. forsrh. kom fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Engin ástæða er til þess að ætla að með frv. sé verið að skerða þær ákvarðanir Alþingis sem liðnar eru hvað þetta varðar eða framtíðarmöguleika Alþingis hvað þetta varðar eftir að lögin hafa verið sett. Þetta þýðir með öðrum orðum að þeim reglum sem nú gilda, þar með lög nr. 64/1994 og ákvæðum sem þar standa er í engu haggað þrátt fyrir þau lög sem við erum að undirbúa samþykkt á um þjóðlendur. Ég tek því undir með hv. þm. að það er misskilningur aðila sem hafa óttast að með lagasetningunni væri verið að gera breytingar hvað það varðar. Sá réttur er áfram fyrir hendi.``

Þetta voru orð forsrh. í umræðunni um þjóðlendur sem í mínum huga taka af allan vafa og eiga að eyða öllum ótta um að einhverjar hömlur verði settar á veiðar eins og þær hafa tíðkast á hálendinu á undanförnum árum og áratugum. Í mínum huga á ekki að skipta neinu máli hvort um er að ræða veiðar á fuglum og villtum spendýrum eða hvort um er að ræða veiðar í ám og vötnum á þessum sömu svæðum.

Herra forseti. Ég hef tæpt aðeins á fáum atriðum í þessu mikla frv. sem að mínu viti tekur á afskaplega merkilegum málum sem hefði löngu þurft að vera búið að breyta en þetta tekur allt sinn tíma. Ég vil fyrir mitt leyti fagna því hversu vel hefur til tekist og hversu margir hafa fengið að koma að þessu. Nefndin hefur unnið vel og ég vona að þetta mál nái fram að ganga með þeim breytingum sem hv. félmn. hefur lagt fram.