Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 11:57:13 (5899)

1998-04-29 11:57:13# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[11:57]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fer mikinn eins og við má búast og talar um að ég hafi sofið svo illa í nótt að það hafi skotið einhverjum rótum efans --- (ÖS: Sofið svo vel.) nú, sofið svo vel, jæja. En ég vil bara segja það, herra forseti, að ég styð það frv. sem er lagt fram af hæstv. umhvrh. Aftur á móti er þetta eins og öll önnur frv. sem eru lögð fram í þinginu að þau þurfa að fara til nefndar og ég sagði það í gær. Slík frv. þurfa að fara til nefndar og þurfa að fara í umsögn út í þjóðfélagið. Eins og hv. þm. þekkir, hafa frv. tekið miklum breytingum í slíkri meðferð sem hefur verið í mikilli sátt inni í þinginu, í nefndinni og úti í þjóðfélaginu. Þess vegna get ég ekki sagt að það sé í sjálfu sér nein breyting á afstöðu minni. Ég sagði þetta einnig í gær og þess vegna finnst mér að við eigum fyrst og fremst að ná þeirri sátt að svæðisskipulag verði skylda á miðhálendinu en ekki aðeins heimildarákvæði í 12. gr. skipulagslaga heldur sé það skylduákvæði að hálendið verði svæðisskipulagt. Það sagði ég í gær og stend við það.

Ég er ekki að segja að það geti ekki orðið að endingu niðurstaðan eftir að við höfum rætt þetta í umhvn. að það verði einungis sveitarfélögin sem standi að þessu skipulagi. En mér finnst engin ástæða til að útiloka það að fleiri komi að málinu, mér finnst alveg ástæðulaust að útiloka það.

Þess vegna get ég, herra forseti, bara endurtekið það sem ég sagði í gær að ég styð þetta frv. eins og það kemur fyrir okkur með fyrirvara um að það geta að sjálfsögðu orðið einhverjar breytingar á því í meðförum nefndar en meginstoð frv. er skýr og ég mun ekki hvika frá henni.