Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 12:26:19 (5903)

1998-04-29 12:26:19# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[12:26]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mig langar til þess fyrst að bregðast aðeins við orðum hv. síðasta ræðumanns vegna þess að mér finnst dálítið mikil áhersla lögð á þau viðhorf af ýmsum að fleiri þurfi að koma að þessari skipulagsvinnu og það sé ekki rétt að málum staðið og verið sé að tala niður til fólks. Þá sé verið að lítilsvirða landsbyggðarfólk o.s.frv. Með sömu rökum væri sjálfsagt hægt að halda því fram að konur væru að tala lítilsvirðandi og tala niður til karla vegna þess að þær halda því fram að það sé til bóta fyrir umræðuna að konur komi með sértæk sjónarmið sín, t.d. inn í stjórnmálin. Því er alls ekki svo farið, a.m.k. með þá sem hér stendur. Ég tel aðeins að umræða þurfi að vera breið og litrík og það eigi að tryggja aðgang sjónarmiða og tryggja það að viðhorf sem flestra hópa fái að njóta sín og að það komist þar með betra jafnvægi á umræðuna.

Ég hef sagt það, og sagði það strax við 1. umr., að enda þótt ég lýsti þeirri skoðun minni að hér væri rangt að málum staðið, þá væri ég ekki þar með að segja að það væri eitthvað verra fólk innan þessara hópa eða innan þessara sveitarfélaga sem liggja að hálendinu, fjarri öllu lagi. Ég hef aldrei sagt það og ég hef þvert á móti sagt hitt að ég get alveg ímyndað mér að hægt sé að finna jafngóða einstaklinga til að standa að þessari skipulagsvinnu og stjórnun á miðhálendinu og innan ýmissa hópa sem standa utan þessa svæðis sem þarna á hlut að máli.

En það sem ræður afstöðu minni er einfaldlega það að ég tel að þetta svæði eigi að vera ein heild. Mjög miklu máli skiptir að ná sáttum um þetta mikilvæga málefni og það er augljóst að ekki hefur náðst sátt um það og þess vegna væri best að fresta afgreiðslu málsins til haustsins eins og stundum er gert með mál sem mikill ágreiningur er um.

Ég ræddi þetta mál við 1. umr. eða þann hluta þess sem mér finnst varða mestu og það hefur komið á daginn hvaða hluti frv. yfirskyggir allt annað í frv. Ég get tekið undir með þeim sem hafa látið í ljósi áhyggjur yfir því að kannski hafi ýmis önnur atriði þess beinlínis fallið í skuggann og ekki fengið verðuga umfjöllun og það er heldur miður. Ástæðan er auðvitað sú hvílíkt stórmál er á ferðinni sem fólk vill tjá sig um og sem hefur vakið mesta athygli.

[12:30]

Að vísu hafa nokkrir í umræðunni fjallað um önnur atriði þessa frv. en sú umfjöllun nær ekki vel eyrum manna vegna þess eina sem skiptir mestu máli í þeirra hugum og það er auðvitað ástæðan fyrir því að fréttaflutningur hefur verið eins og hann er. Hv. síðasti ræðumaður nefndi það að umfjöllun fjölmiðla, t.d. í gærkvöldi, hefði verið á þá leið að þeir hefðu talað um hálendisfrv. og það hefði sýnt að þeir beinlínis misskildu hvað hér væri á ferðinni. Ég held að það sé ekki rétt túlkun á því heldur sýnir þetta einfaldlega hug manna til þess sem hér er að gerast. Þetta er ekki misskilningur heldur annar skilningur á því hvað hér er á ferðinni. Sá skilningur er ekkert verri en þingmanna í þessu efni. Það er nefnilega ýmislegt sem væri þörf á að fjalla um og hefur raunar verið gert.

Ég vil aðeins minnast á eina grein þessa frv. sem ég sé því miður að hv. félmn. hefur ekki fundist nauðsynlegt að hrófla við. Það er 6. gr. frv. þar sem kveðið er á um lágmarksíbúatölu sveitarfélags. Það vill svo til að ein ágæt hreppsnefndarkona í fámennum hreppi hér á landi kom þeirri skoðun á framfæri við mig að hún teldi nauðsynlegt að breyta þeirri viðmiðun sem þar er lögð til grundvallar, þ.e. að lágmarksíbúatalan sé 50 íbúar og ráðuneytinu beri að hafa hönd í bagga með breytingu á sveitarfélagi ef íbúatalan hefur verið lægri en 50 í þrjú ár samfleytt. Þessi ágæta kona taldi nauðsynlegt að breyta þeirri viðmiðun. Það var hennar skoðun að færa ætti þessa tölu úr 50 í a.m.k. 100. Rök hennar voru þau að öll umfjöllun og átök um þessi mál væru þeim mun erfiðari sem færri ættu í hlut og þessi ágæta kona hefur reynsluna. Ég gerði það sem ég gat til að koma skilaboðum um þetta til nefndarinnar en ég sé að það hefur ekki þótt ástæða til breytinga og fyrir því má auðvitað færa gild rök. Ég hef hins vegar ekki heyrt neitt minnst á þetta atriði í þessari umræðu en það má vel vera að ég hafi misst af því og ég þekki auðvitað ekki til umræðunnar í hv. félmn. af þeirri augljósu ástæðu að kvennalistakonur eiga þar hvorki beina né óbeina aðild.

Að þessu sögðu hlýt ég að segja það, hæstv. forseti, að ég hef hlustað grannt á mikinn hluta þessarar umræðu og allir sem ég hef hlýtt á hafa fyrst og fremst og reyndar sumir eingöngu fjallað um þann hluta þessa frv. sem varðar skiptingu landsins í sveitarfélög með öllum þeim skyldum og réttindum sem því fylgir og það er auðvitað stórmál og eitt stærsta mál þessa þings. Það er ekkert að undra finnst mér þó að áherslan liggi á þessu atriði. Verið er að breyta 1. gr. þannig að ekki verði lengur orðað svo að byggðin skiptist í staðbundin sveitarfélög heldur er verið að skipta öllu landinu á þann veg og samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða að skipta öllu miðhálendinu eftir ákveðnum brautum. Það er eiginlega með ólíkindum hvað meiri hluti þingsins og framkvæmdarvaldið hefur verið meðvitundarlaust hvað þetta varðar og maður spyr sig eiginlega hvort þetta fólk sé í raun og veru í jarðsambandi eða nógu góðum tengslum við fólk utan þessa litla hluta þjóðarinnar sem hér lifir og hrærist í svona þrengsta hring stjórnmálavafsturs.

Reyndar verð ég líka að segja að mér hefur fundist almenningur mjög seinn að taka við sér og umræðan hefur lengi og alveg fram á síðustu vikur verið nokkuð lokuð inni í tiltölulega litlum hópi. Skipulag, stjórnun og eftirlit á miðhálendi Íslands hefur auðvitað verið í algerum ólestri og afar brýnt að ráða bót á því ástandi. Það hefur ríkt þar stjórnleysi og alger óvissa um eignarrétt og umráðarétt og afleiðingin er auðvitað glundroði og óreiða sem m.a. lýsir sér í óteljandi vegaslóðum og gífurlegum fjölda óleyfilegra bygginga. Skálar af ýmsu tagi eru nánast eins og hráviði um þetta svæði. Þeir eru ef ég man rétt um eða yfir 400 talsins og um helmingur þeirra mun vera í einkaeign og reyndar aðeins brot af öllum þessum fjölda sem er reistur samkvæmt byggingarleyfi. Ég þykist muna að það sé um þriðjungur af öllum skálunum sem er reistur samkvæmt byggingarleyfi og þá án þeirra reglna og skilyrða sem slíku leyfi tengjast. Mjög mörgu er því ábótavant í frágangi, í útliti og öðrum frágangi, svo sem hreinlætisaðstöðu og fráveitu. Og svo þarf varla að minna á hvernig orkugeirinn hefur leikið þetta svæði þar sem orkuver, stöðvarhús, uppistöðulón og raflínur með tilheyrandi risamöstrum hafa breytt ásýnd stórra svæða og það mun auðvitað halda áfram ef orkunýtingarhugmyndirnar fá að hafa sinn gang. Þess vegna er svo sannarlega og löngu tímabært að reyna að koma böndum á þetta stjórnleysi og þessa skipulagslausu þróun með samræmdum hætti en það má ekki flana svo að því að djúpstæð ósátt verði um þá skipan. Það er einmitt verkurinn hvernig til hefur tekist. Menn muna hvernig ferillinn hefur verið og þær atrennur sem gerðar voru að því að ná utan um þetta mál þannig að viðunandi væri með tilliti til allra sjónarmiða. Það voru mikil vonbrigði að Alþingi skyldi ekki ná saman um það í upphafi skipulagsvinnunnar að stefna þráðbeint að heildstæðri stjórnskipan eins og margir vildu þá sjá og eins og vaxandi stuðningur er við eftir því sem málið skýrist fyrir æ fleirum. Það er ákaflega slæmt að sú umræða fái ekki að þróast og eflast um allt hið íslenska samfélag áður en neglt er niður hvernig stjórnskipulagi þessa svæðis verður fyrir komið vegna þess að það verður ekki aftur snúið þegar búið er að ganga frá þessum málum.

Það eru vissulega mjög margir sem eiga hagsmuna að gæta á þessu dýrmæta svæði. Ég þekki t.d. vel umræðuna um þetta mál síðan ég var formaður Ferðamálaráðs á árunum 1989--1993. Þetta var ítrekað til umræðu á vettvangi ráðsins á þeim árum og raunar einnig að sjálfsögðu bæði fyrir og eftir þann tíma. Að sjálfsögðu var og er þetta enn þá mikið til umræðu vegna þess að ferðaþjónustan á þarna mikilla hagsmuna að gæta og ég minni á að Ferðamálaráð hefur ítrekað ályktað að miðhálendið skuli vera sameign íslensku þjóðarinnar og ein heild. Það hefur samþykkt og beint þeim áskorunum til stjórnvalda að miðhálendið yrði gert að þjóðgarði undir einni stjórn. Þessa skoðun þekkja menn væntanlega sem hér eru inni núna a.m.k.

Hins vegar get ég alveg sagt það að mér hefur oft og í mörg ár fundist talað fyrir daufum eyrum í þessu efni, fólk hafi verið ansi seint að átta sig á þeirri auðlind sem þetta svæði er og ekki sýnt því tilhlýðilega ræktarsemi. Það er ekki ýkja langt síðan menn fóru í einhverjum mæli að átta sig á þeim verðmætum sem felast í náttúru landsins og ekki síst í ósnortnum víðernum hálendisins. Nú er mörgum orðið þetta ljóst og æ fleirum að skiljast hversu mikilvægt og verðmætt svæði þarna er, hvort sem er til ferðalaga, þ.e. til þess að njóta náttúrunnar og þeirrar víðernistilfinningar sem óvíða er lengur að finna t.d. í nágrannalöndum okkar og það verður æ ljósara hversu verðmætt þetta svæði er til rannsókna. Við megum ekki gleyma því. Þetta er mjög mikilvægt og verðmætt svæði til rannsókna og er raunar gullnáma fyrir rannsóknir í jarðvísindum og ýmiss konar náttúruvísindum. Þetta er atriði sem menn ættu að huga miklu betur að og leitast eindregið við að tryggja að slíkar rannsóknir geti farið fram, aðstæðum verði ekki spillt í því efni. Þarna er svo sannarlega hagsmuna að gæta sem gætu einnig nýst okkur mjög vel. Það skortir mjög á að nægar rannsóknir séu fyrir hendi. Það er brýnt að efla þær og styrkja.

Því miður hafa fyrst og fremst aðrir hagsmunir ráðið ferðinni og þar kemur mammon vissulega við sögu við nýtingu miðhálendis Íslands, þ.e. hagsmunir þeirra sem nýta vilja þetta landsvæði til beitar, svo og hagsmunir orkugeirans. Enda þótt skilningur á hagsmunum ferðaþjónustunnar hafi farið vaxandi þá óttast ég að með þeirri stefnu sem tekin hefur verið sé einmitt verið að sniðganga þá hagsmuni eða setja þá í hættu. Það voru mikil mistök, ég endurtek það, að Alþingi skyldi ekki bera gæfu til að beina þessu máli inn á þá braut að stefnt væri að einni stjórn, einni heild á þessu svæði. Það voru mistök að setja skipulagsvinnuna í þann farveg sem gert var en auðvitað veit ég hvers vegna það var og þekki þá sögu og veit að þetta er allt gert samkvæmt lagaákvæði.

Ég vil ítreka það enn og aftur að þetta hefur ekkert að gera með þá einstaklinga sem þarna hafa komið að máli heldur hlaut þetta fyrirkomulag að kalla á tortryggni, gagnrýni og andstöðu eins og nú er komið á daginn. Sú andstaða hefur reyndar orðið til þess að menn eru að reyna að ná saman um einhverja málamiðlunarlausn sem augljóslega dugir þó engan veginn. Það er komið á daginn að hún dugir bara sumum. Nokkrir stjórnarþingmenn hafa þegar tjáð óánægju sína með þessa svokölluðu lausn sem að sjálfsögðu setur málið í enn frekara uppnám þannig að mér finnst alveg augljóst að taka þurfi þetta til nánari umfjöllunar.

Hv. 2. þm. Reykn. hefur lýst því yfir að hann vilji leita annarrar lausnar og hv. 11. þm. Reykv. styður ekki þessa lausn. Þetta eru þungavigtarmenn á þessu sviði þannig að við hljótum að taka mark á og mið af viðhorfum þeirra. Það er því engin trygging fyrir því að þessi svokallaða lausn nái fram að ganga þannig að það er auðvitað spurning hvort hér er um einhverja lausn að ræða eða hvort þetta er hallærislausn sem bætir ekki málið að neinu leyti. Það er því ljóst að það var hið mesta óráð að ganga út frá þeirri skiptingu miðhálendisins sem útfærð er í þessu frv. sem hér er til umræðu og yfirskyggir allt annað í frv., þ.e. skipting þess á milli aðliggjandi sveitarfélaga eða skipting þess í hrepparenninga eins og það var orðað á ráðstefnu eða fundi nýlega.

[12:45]

Þetta er aðalmálið, herra forseti, sem æ fleiri landsmenn hafa áhuga á og áhyggjur af. Þess vegna er það svona fyrirferðamikið hér. Við hljótum að hlusta á fólkið í landinu. Þess vegna fjalla flestir ræðumenn í þessari umræðu um þetta atriði og naumast nokkuð annað. Ég hef öðru hverju heyrt einstaka þingmenn dæsa undir þessari umræðu og lýsa því í ræðum sínum að hún væri á villigötum, komin út í gönur og jafnvel að þetta væru óeðlilegar áherslur en svo er ekki. Það er á þessu atriði sem eldurinn brennur.

Ég lýsti því yfir við 1. umr. um þetta mál að hér væri um slíkt mál að ræða að það hefði átt að skilja það frá þessu frv. og ræða það sérstaklega. Raunar hefði verið réttast að bera það undir atkvæði allrar þjóðarinnar. Í því sambandi vil ég segja að það er miður að Alþingi skuli ekki enn hafa eflt lýðræðið í landinu með setningu laga og reglna um þjóðaratkvæði þannig að stórmálum á borð við það sem hér um ræðir verði skotið til þjóðarinnar til allsherjaratkvæðagreiðslu.

Að mínum dómi ætti þjóðin einmitt að fá að greiða atkvæði um þetta mál á beinan hátt. Ég hefði talið farsælast að þjóðin greiddi atkvæði um það hvernig stjórnarfyrirkomulagi á hálendinu væri háttað. Margir eru tilbúnir til þess nú þegar, auk þess sem slíkt fyrirkomulag hefði tryggt miklu víðtækari umræðu og eflt þekkingu á viðkomandi málum. Mér finnst mjög miður að við skulum ekki hafa haft þroska til þess hér á landi að efla lýðræðið með þessu móti.

Vegna spurningar sem borin var upp í umræðunni er ég auðvitað að segja hvað mér hefði þótt æskilegast en við höfum ekki þessar reglur. Við höfum ekki lög og reglur um þjóðaratkvæði sem hægt er að nýta í þessu skyni. Ég var aðeins að lýsa því að þetta hefði mér fundist vera mál sem æskilegt hefði verið að bera undir þjóðaratkvæði. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það væri lýðræðinu til framdráttar að setja lög og reglur um slíka leið.

Hæstv. umhvrh. og fleiri hafa minnt á að meiri hluti Alþingis ræður í þessu máli eins og öðrum málum. Hann taldi að fyrir þessari niðurstöðu væri meiri hluti hér á Alþingi og ég efast auðvitað ekkert um það. Ég er hins vegar nokkurn veginn viss um að ef þjóðin fengi tækifæri til að segja sinn hug í beinni atkvæðagreiðslu, þá gæti hæstv. umhvrh. og fleiri ekki verið svo vissir um niðurstöðuna.

Ég skal ekkert draga dul á það að ég hefði viljað sjá öflugri baráttu úti í þjóðfélaginu, fyrr en raunin varð á. Umræðan er í rauninni ekki nógu langt komin. Ég hefði viljað heyra miklu kröftugri umræðu um það og baráttu fyrir því að miðhálendið yrði gert að stjórnsýslulegri og skipulagslegri heild, eins og atrenna var gerð að fyrir nokkrum árum hér á Alþingi. Sú leið fékk ekki stuðning á Alþingi og litla umræðu í þjóðfélaginu.

Ég hef lengi haft miklar áhyggjur af þessu máli og reynt að leggja mitt lóð á vogarskálarnar í greinaskrifum, með þátttöku í fundum, rætt við fólk o.s.frv. Niðurstaða mín er alltaf hin sama: Hér er um svo sérstakt svæði að ræða að um það gilda sérstök lögmál.

Hv. 5. þm. Vestf. benti á ákvæði skipulagslaga um hlutverk og verkefni sveitarfélaga. Ég þekki það auðvitað og hér eru margir þeirrar skoðunar að með þeim breytingum sem nýlega hafa orðið á þeim lögum hafi þessum málum verið skipað þannig að eftir þeim beri að fara í einu og öllu. Hann benti einnig á að í raun vantaði millistig í stjórnsýslu milli ríkis og sveitarfélaga, sem oft er nefnt 3. stjórnsýslustigið. Það er rétt en við erum ekki svo þrælbundin af þessu fyrirkomulagi. Við getum að mínu mati sett sérlög um ákveðin landsvæði eins og við höfum gert og munum gera. Ég minni á nýframkomið frv. um friðun Þingvalla og Þingvallavatns. Auðvitað getum við sett sérlög um stjórnun miðhálendisins og hvernig skipulagi þess sé háttað. Það getum við gert.

Mér finnst augljóst að allt öðru máli gegni um þetta landsvæði en öll önnur. Það tekur yfir um einn þriðja af öllu flatarmáli landsins og þar eru að mestu leyti hin óbyggðu víðerni lands okkar. Þarna er sú auðlind sem margar aðrar þjóðir sáröfunda okkur af vegna þess að þær hafa bylt, breytt og gjörnýtt svo öll sín landsvæði til hinna ýmsu þarfa mannvistar að þær eiga ekki auðlind af þessu tagi. Þar fyrirfinnst naumast lófastór blettur sem ekki hefur verið nýttur á einhvern máta, lagður undir mannvirki, ræktun eða annað slíkt. Raunar vitum við ekki nákvæmlega hversu stór sú auðlind er sem við getum kallað ósnortin víðerni. Það er hins vegar eitt af því sem gera þarf, að kortleggja í smáatriðum þau svæði sem talist geta ósnortin.

Síðar í dag munum við hæstv. umhvrh. kynna niðurstöður nefndar sem fékk það hlutverk að skilgreina orðasambandið ,,ósnortin víðerni``. Það væri grundvöllur þess að móta stefnu um það sem við viljum gera á þessum svæðum. Ég get sagt það hér, þar sem ég tók þátt í þeirri vinnu, að það var mjög skemmtileg og frjó umræða sem þar fór fram og vitaskuld komumst við að þeirri niðurstöðu að það er í raun ógerlegt að nota orðið ,,ósnortið`` bókstaflega. Sá blettur fyrirfinnst varla hér á landi að hann geti í bókstaflegri merkingu talist ósnortinn.

Ísland hefur verið byggt í rúm 1100 ár og beinna og óbeinna áhrifa byggðar gætir auðvitað um allt land. Landsmenn hafa eytt skógum, beitt á landið, ræktað tún, ræst fram mýrlendi, borið á áburð og finna má ummerki eftir skógrækt og vegagerð. Rennsli straumvatna hefur verið breytt, uppistöðulón gerð og allt hefur þetta gerst á mjög löngum tíma. Vissulega eru til svæði hér á landi sem eru minna mörkuð af mannvist en önnur. Slík svæði skipta okkur mjög miklu fyrir rannsóknir, útivist og fleira.

Það verður mjög gaman að sjá hvort þessi vinna verður til þess að leggja grundvöll að mótun stefnu gagnvart þeim landsvæðum sem við getum kallað ósnortin víðerni, samkvæmt þeirri skilgreiningu sem við komum okkur saman um í þessari nefnd. Þar var niðurstaðan sú að ósnortin víðerni væru landsvæði þar sem beinna ummerkja mannsins gætir ekki og náttúran fær að þróast án álags vegna mannlegra umsvifa. Undir þetta flokkast landsvæði í a.m.k. 5 kílómetra fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum og landsvæði sem er a.m.k. 25 ferkílómetrar að stærð þannig að þar sé hægt að njóta einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu. Meginmarkmiðið með skilgreiningu og afmörkun ósnortinna víðerna er að varðveita svæði þar sem náttúran ræður ríkjum og maðurinn kemur eingöngu sem gestur.

Markmiðið með varðveislu ósnortinna víðerna er að taka frá samfelld ósnortin svæði fyrir komandi kynslóðir, tryggja óhefta þróun náttúru samkvæmt eigin lögmálum um ókomin ár, viðhalda samfelldum og ósnortnum svæðum til útivistar, rannsókna og fræðslu og tryggja og treysta ímynd Íslands sem óspillts lands með óspillta náttúru, með þeim fyrirvörum sem við verðum auðvitað að hafa um þessa orðanotkun. Leiðirnar geta verið þær að afmarka landsvæði sem einkennandi eru fyrir íslenskt landslag og náttúrufar og eru enn lítt snortin eða óröskuð. Setja þyrfti reglur um verndun þeirra sem miða að stýringu í átt að settum markmiðum. Kannski er ekki minnst um vert að afla mætti upplýsinga um svæðin, jarðfræði, lífríki og núverandi nýtingu. Þær upplýsingar yrðu nýttar til að stýra rannsóknum og fræðslu.

Það er vaxandi skilningur á nauðsyn þess að við verndum þessi svæði og ég bind miklar vonir við að þessi umræða muni ýta við því máli. Við tölum um miðhálendi Íslands sem þriðjung af öllu flatarmáli landsins en auðvitað er mála sannast að svæðið er ekki allt jafndýrmætt í okkar huga. Þess vegna er svo mikilvægt að efla rannsóknir og gera sér grein fyrir mikilvægi þess.

Vegna þess að ég horfi nú á hv. 4. þm. Austurl. sem er nú hvað kunnugastur okkar allra varðandi þetta get ég ímyndað mér að kortlagning svæða eftir skilgreiningunni sem ég lýsti áðan mundi falla mjög vel að hugmyndum sem hann hefur sett fram í mjög góðri þáltill. um skipan þjóðgarða á miðhálendinu.

Sums staðar á þessu mikla og stóra svæði á miðhálendi Íslands hefur eyðilegging átt sér stað. Hún verður ekki aftur tekin og hefur það í för með sér að sneitt hefur verið af þeirri auðlind sem við köllum ósnortin víðerni.

Herra forseti. Ég sem sagt hefði óskað þess að það stórmál sem hér er til umræðu hefði þróast á annan veg en gerst hefur. Ég hef lengi talað og skrifað um þá skoðun mína að miðhálendi Íslands ætti að gera að friðlandi sem lúti sérstakri stjórn og sérstakri löggjöf, svo sem fordæmi eru fyrir. Þetta er alveg sérstakt svæði sem ekki verður jafnað við neitt annað og á að vera sameign íslensku þjóðarinnar.

[13:00]

Ég þakka þeim sem hafa fjallað um þetta mál í hv. félmn. og víðar. Mér finnst vinna þeirra hafa leitt til aukins skilnings á málinu og sú andstaða sem þar kom fram við þá skipan sem hér er lögð til grundvallar hefur leitt til þess að umræðan hefur aukist og eflst og menn eru að reyna að taka tillit til fleiri sjónarmiða. Þess vegna finnst mér ástæða til að þakka þeim fyrir vinnu þeirra. Ég get lýst því hér að það hefur orðið niðurstaða okkar kvennalistakvenna að styðja þær hugmyndir sem eru settar fram í tillögu minni hluta félmn., þær fara mjög saman við þær skoðanir sem við höfum haft í þessu efni og þess vegna höfum við ákveðið að styðja þær.

Sú skipan sem er þar lögð til mundi ekki breyta því að mínu mati að sveitarfélögin gætu áfram haft nytjarétt á hálendinu eins og hefðir og venjur segja til um. Mér finnst það ekki breyta því en að sjálfsögðu í fullri sátt við náttúruna og með strangari aðgæslu en hingað til. Þess vegna, eins og ég hef áður lýst, tel ég rétt að markalínan sé dregin milli heimalanda og afrétta og stofnað ... (Forseti hringir.) Ég er rétt að ljúka máli mínu, herra forseti, aðeins augnablik.

(Forseti (RA): Ágætt. Því að nú þarf að ... )

Á ég ekki að reyna að ljúka ræðunni?

(Forseti (RA): Jú, ef stutt er eftir.)

Það eru bara ein eða tvær mínútur. Ég ítreka að þetta er sú skoðun sem ég hef talað fyrir í mörg ár, að það sé rétt að stofna til friðlands á hálendinu og fella það undir sérlög og eina skipulagsstjórn í staðinn fyrir að skipta því niður eins og kökusneiðum á milli sveitarfélaganna í landinu.

Ég tel að við stöndum frammi fyrir ákveðnum áfangaskilum í þessu efni. Tillaga að svæðisskipulagi er komin fram sem er til umfjöllunar og mikilvægt er að hún fái góðan tíma og ýmis rök eru fyrir því að það þurfi að flýta sér hægt. Við höfum í höndunum tillögur um megindrætti en landnýtingaráform eru að mestu óráðin. Margir eru að vakna til vitundar um eðli og þýðingu þessa máls. Ég tel því réttast að gefa þessu máli lengra líf.