Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 13:03:40 (5904)

1998-04-29 13:03:40# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[13:03]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Margt athyglisvert kom fram í máli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur. Mér þótti út af fyrir sig heldur leitt að heyra ályktunarorð hennar undir lokin og ég ætla að skýra það.

En tilefni þess að ég bað um andsvar var hugmynd hv. þm. um þjóðaratkvæðagreiðslu að því er mál af þessum toga varðar eða þetta mál sérstaklega. Ég er mikill stuðningsmaður þess að sett verði lög um þjóðaratkvæði og menn reyni að nota það í meira mæli en gert hefur verið. Satt að segja liggur það ákvæði stjórnarskrárinnar í rauninni dautt og ómerkt þar sem það hefur aldrei verið notað.

Hins vegar kemur í hug minn að málið geti verið nokkuð vandasamt í þjóðaratkvæðagreiðslu og þess vegna spurði ég hv. þm. úr sæti mínu: Um hvað verður spurt? Ég vek athygli á því að ekki er víst að svar leiði til lausnar þó að vafalaust komi svar við spurningunni. Það lægi einhver vilji fyrir, en ekki er víst að það leiddi til lausnar og við gætum þá verið í verulegum vanda að því leyti. Ég mun skýra það í ræðu minni síðar í umræðunni við hvað er að fást í þessu sambandi.

Ég er nokkuð undrandi á þeirri niðurstöðu þingflokks Kvennalistans eða Samtaka um kvennalista að ætla að halla sér að niðurstöðu minni hluta félmn. í þessu efni. Í því sambandi vil ég einfaldlega minna á að Kvennalistinn hefur á undanförnum árum átt beinan þátt að því að taka þátt í þróun þessara mála, ákvörðun þessara mála, og þá síðast hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, sem stóð að tillögu umhvn. um afgreiðslu skipulagslaga á síðasta þingi og þar sem niðurstaðan var að fella niður sérstök ákvæði um svæðisskipulag en þetta félli undir eftirlit sveitarfélaganna í raun.