Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 13:08:55 (5906)

1998-04-29 13:08:55# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[13:08]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Vissulega eru athyglisverð viðbrögð hv. þm. og upplýsingar um það hvað hrærðist með hv. þm. við afgreiðslu skipulags- og byggingarlaga. Ég ætla ekkert að draga það í efa en það eru ýmsir fleiri í þinginu sem virðast ekki hafa haldið þræði í málinu. Ég bæti því við að þegar sett var ákv. til brb. um skipulags- og byggingarlög um vorið 1993 í fullri sátt að ég best veit í þinginu, eða sem sagt menn stóðu að því, þá lá það fyrir að markaður var farvegur fyrir þessa vinnu og síðan var því hrundið af stað. Kvennalistinn átti fulltrúa í umhvn. þegar þessi mál voru til umfjöllunar og stóð að því með sama hætti og sá sem hér talar að farið yrði út í þennan farveg.

Ég vek einnig athygli á því að borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem um er að ræða meiri hluta R-listans undir forustu fyrrv. þingmanns Kvennalistans, nú borgarstjóra, ályktaði um þetta efni 1. apríl sl. (Gripið fram í.) Já, borgarráð Reykjavíkur fyrir hönd þeirra, þar sem segir m.a.: ,,Mikilvægt er að miðhálendið sé ein skipulagsleg heild þótt stjórnsýsluleg ábyrgð skiptist milli sveitarfélaga.`` Þótt stjórnsýsluleg ábyrgð skiptist milli sveitarfélaga. Harðari er ekki tónninn hjá fulltrúum R-listans í borgarráði Reykjavíkur í þessu máli en þetta. Mér finnst að menn þurfi að taka eftir þessu.

Ég legg á það ríka áherslu að það er tvennt ólíkt skipulagsleg heild, að gæta heildarsjónarmiða við skipulag, og hins vegar stjórnsýsla. Ég tel að sem betur fer stefni í það að menn nái þokkalega saman um hið fyrra, að fara með miðhálendið sem skipulagslega heild.