Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 13:11:21 (5907)

1998-04-29 13:11:21# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[13:11]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hv. þm. sé ekki að halda því fram að mér beri að taka tillit til annars en eigin samvisku þegar ég móta afstöðu mína í ákveðnum málum. Það vill svo lánlega til að við sem skipum þingflokk Kvennalistans núna erum innilega sammála um þetta mál. Ég hef því engar áhyggjur af því þó að hann sé að minna á afstöðu annaðhvort í fortíð eða nútíð þar sem aðrar kvennalistakonur koma við sögu. Við förum einfaldlega eftir þeirri skoðun sem við höfum mótað í þingflokki okkar og erum sammála um það.

Hv. þm. vísar til formlegra hluta, eins og hvað hafi verið ákveðið áður í skipulags- og byggingarlögum o.s.frv., en það sem ég var að vísa hérna til var sú skoðun sem ég hef haldið á lofti í mörg ár og lýst bæði við 1. umr. málsins og við önnur tækifæri, þ.e. að ég teldi að það svæði sem við erum að fjalla um og lagt er til að ganga svo frá að það skiptist á milli aðliggjandi sveitarfélaga, finnst mér það vera svo sérstakt að um það beri að setja sérlög og gera það að friðlandi. Ég minni á að svo hefur verið gert um önnur svæði á landinu og þarf ekki annað en að minna á það frv. sem er nýkomið fram og er 699. mál þessa þings, frv. til laga um friðun Þingvalla og Þingvallavatns. Sérlög gilda um það svæði og mér finnst eðlilegt að sérlög giltu um fleiri svæði sem við viljum að sé skipað með ákveðnum hætti vegna sérstöðu þeirra.