Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 14:51:10 (5909)

1998-04-29 14:51:10# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[14:51]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var sammála mörgum en þó ekki öllum grundvallarstefum í málflutningi hv. þm. Hann hefur hins vegar oft drepið hæversklega á þá skoðun sína að í rauninni hafi Alþfl. átt upptökin að því að menn eru núna að framlengja staðarmörk sveitarfélaga inn á miðhálendið. Því til staðfestu hefur hann vísað í greinargerð með frv. sem Eiður Guðnason umhvrh. flutti á sínum tíma þar sem stóð að til greina kæmi að nefndin gerði tillögur um mörk sveitarfélaga á miðhálendinu. Ef hann les greinargerðina vel þá kemur það fram í sömu setningu að þar er átt við þau mörk þar sem þau eru á einhvern hátt óljós.

En jafnvel þó að skilningur hv. þm. væri réttur þá er eigi að síður ljóst að Alþingi hafnaði þeim skilningi sameiginlega. Það kemur fram í umsögn umhvn. um frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin leggur áherslu á að þau mörk, sem dregin verða um miðhálendið, munu á engan hátt breyta núverandi réttarstöðu hvað varðar eignarhald á svæðinu og lögsögu yfir afréttum og almenningum.``

Skýrar getur það ekki verið.

Í ræðu sem hv. þm. flutti síðan um þetta nál. og ég hef líka undir höndum, þá sagði hann orðrétt, með leyfi forseta:

,,En einnig tek ég mjög eindregið undir það að spurningin um eignar- og umráðarétt á hálendinu er málefni sem tengist þessu. Það varð skýrt af málsmeðferð í nefndinni og viðræðum við þá lögfræðinga sem rætt var við að æskilegt, mjög æskilegt er, svo ekki sé fastara að orði kveðið, að tillaga þar að lútandi komi fram og verði afgreidd á Alþingi hið allra fyrsta.``

Af þessu dreg ég þrjár ályktanir. Í fyrsta lagi að hann gerir skýran greinarmun á eignar- og umráðarétti. Í öðru lagi að hann telur að það vanti stefnu um umráðaréttinn, þ.e. það efni sem er bitbeinið í þessari umræðu, ella hefði hann ekki kallað eftir þessari stefnu. Og í þriðja lagi: Fyrst að hv. þm. taldi að engin stefna fælist í því frv. sem samþykkt var um umráðarétt og þar með stjórnsýslu yfir miðhálendinu, þá er fráleitt af honum að halda því fram í dag að vegna aðildar Alþfl. og þar með þingsins alls að því frv. sem var samþykkt, sé með einhverju móti hægt að halda því fram að við berum einhverja ábyrgð á því að þetta frv. frá ríkisstjórninni kemur fram. Það er einfaldlega fráleitt og sá skilningur hv. þm. stangast einfaldlega á við þann skilning sem kom fram í ræðu hjá hv. þm. þann 7. maí 1993 kl. 11.03 samkvæmt skráningu þingsins.